Umfjöllun og viðtöl: KR - Valur 77-84 | Staða Valskvenna góð

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. vísir/bára
Valur steig með annan fótinn inn í úrslitaeinvígið í Dominos deild kvenna í kvöld. Valur vann KR 84-77 í DHL höllinni en Valur vann líka fyrsta leik liðanna og staðan í einvíginu er því orðin 2-0. KR vann þrjá af fjórum leikhlutum en það var ekki nóg þar sem Valur vann annan leikhluta með 20 stigum.

Valsliðið var ólíkt sjálfu sér í fyrsta leikhluta og eiginlega bara allan leikinn. Trekk í trekk komst KR í góð færi og forysta KR eftir fyrsta leikhluta var sanngjörn, 19-16. Kiana Johnson átti frábæran fyrsta leikhluta en skoraði 11 stig en Valsvörnin átti erfitt með að halda henni fyrir framan sig. KR voru duglegar að tvídekka Helenu Sverrisdóttur í fyrsta leikhluta og héldu henni þannig í 4 stigum. Það var samt ekki endilega besta lausnin en Helena finnur oftast opna manninn og var með 4 stoðsendingar í fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti var fjörugur í upphafi og í honum var kafli þar sem liðin voru að skiptast á forystum. Í stöðunni 28-28 kviknaði í Valsliðinu en þær settu 6 þrista í röð. Valur endaði fjórða leikhluta á 20-3 áhlaupi þar sem þær hittu úr 7 skotum í röð en 6 af þeim voru þriggja stiga skot. Einbeitingarleysið hjá KR á þessum kafla var mikið og öll þessi skot voru opin, sóknin hjá KR hrundi á sama tíma og þarna fór leikurinn í raun og veru. Staðan í hálfleik var 31-48.

KR byrjuðu þriðja leikhluta betur og sýndu strax að þær ætluðu ekki að gefast upp í kvöld. KR voru rúmar tvær mínútur að minnka forystu Vals niður í 9 stig með því að skora 8 stig í röð. Þá tók aftur við jafnræði í leiknum en forysta Vals vaggaði á milli 9 og 14 stiga út leikhlutann. Eftir magnaða flautukörfu hjá Kiönu Johnson var staðan 72-60 fyrir Val á leiðinni inn í fjórða leikhlutann. Í þriðja leikhluta var aftur eins og varnarleikurinn hjá Val hafi hrunið. KR skoraði 29 stig en Valsstúlkur voru aftur farnar að hleypa KR í þau skot sem KR vildi. Helena hélt áfram að draga vagninn sóknarlega hjá Val en hún skoraði 12 af 24 stigum Vals í leikhlutanum. 

KR náðu að gera hlutina virkilega spennandi í fjórða leikhluta með mikilli baráttu. KR vörnin var frábær allan leikhlutann. Þær héldu Val í 12 stigum þrátt fyrir að hafa þurft að gefa víti þrisvars á lokamínútunni til að fá boltann aftur. Upphafsmínútur fjórða leikhluta voru klaufalegar sóknarlega en þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var staðan í leikhlutanum 7-4 KR í vil. 

Ástrós Lena Ægisdóttir setti niður þrist fyrir KR til að minnka muninn niður í 8 stig í stöðuna 70-78. Það er eins og þessi þristur hafi gefið KR auka þrótt en KR tóku eftir þetta 7-2 áhlaup. Munurinn var því kominn niður í 3 stig, 80-77 fyrir Val með tæplega mínútu eftir. Valskonur voru þó svalar undir pressu en Hallveig og Helena settu niður sitt hvort parið af vítum sem lokuðu leiknum.

Af hverju vann Valur?

Lokamínúturnar í öðrum leikhluta voru magnaðar hjá Val. Þær unnu þann kafla með 17 stigum en töpuðu restinni af leiknum með 10 stigum. Ef ekki fyrir þessum kafla hefði leikurinn eflaust verið meira spennandi og staðan í seríunni væri jafnvel 1-1 frekar en 2-0.

Hverjar stóðu upp úr?

Helena Sverrisdóttir er besti leikmaðurinn í þessari deild og hún er alltof oft að nudda því ofaní andstæðinga sína. Hún var með 36 stig, 12 fráköst, 9 stoðsendingar í kvöld en það gerir ekki meira né minna en 47 framlagspunktar. Valsliðið gat alltaf treyst á að fá ágætis skot þegar þær fundu Helenu í teignum og hún hélt þeim gangi þegar aðrir lykilmenn voru ekki að spila eins vel og vanalega. 

Hallveig Jónsdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir voru báðar með tvo af þessum 6 þristum í öðrum leikhluta sem unnu leikinn. Þær áttu báðar heilt yfir ágæta leiki sóknarlega en voru kannski eins og restin af Valsliðinu ekki alltaf að finna sig varnarlega.

Kiana Johnson bætti nafninu sínu í enn eitt skiptið við þrennuvegginn. 22 stig, 11 fráköst, 10 stoðsendingar ásamt því að stela 3 boltum var hennar framlag í tölfræðinni í þessum leik. Kiana var að hitta vel úr sínum skotum ásamt því að skapa vel fyrir liðsfélagana en það var ekki nóg í kvöld. 

Ástrós Lena Ægisdóttir spilaði vel fyrir KR í kvöld. Það er eflaust ekki tilviljun að hún var ekki inná þegar Valur tók áhlaupið sitt í öðrum leikhluta en er hörku varnarmaður. Í kvöld sýndi hún einnig að hún getur komið boltanum í körfuna en hún skoraði 10 stig og var með 3 stoðsendingar. 

Hvað gekk illa?

Það er eins og eina í Valsliðinu sem gat skorað í fjórða leikhluta hafi verið Helena en hún skoraði 10 af 12 stigum Vals í leikhlutanum. Hin 2 stigin komu með nokkrar sekúndur eftir þegar KR neyddist til að brjóta á Hallveigu Jónsdóttir sem setti niður bæði sín vítaskot.

Hvað gerist næst?

Valur getur klárað seríuna með sigri í Origo höllinni á fimmtudaginn klukkan 18.00. KR munu eflaust leggja allt í að vinna þann leik en það vill enginn fara í sumarfrí í byrjun apríl. Þetta ætti að vera hörkuleikur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

 

 

Darri var sáttur með sigurinn.vísir/bára
Darri: Alveg sama um seinni hálfleik

„Annar leikhluti var eini leikhlutinn sem við spiluðum af einhverju viti í. Sem betur fer var það nóg í dag,” sagði Darri Freyr Atlason þjálfari Vals eftir leik en Valur tapaði hinum þremur leikhlutunum.

„Við vorum ekki góðar í dag. Við getum verið miklu betri en þetta. Við unnum bara einn leikhluta. Síðasti leikur var betri hjá okkur, í þeim leik vann KR fyrsta leikhluta og svo ekki söguna meir. Við þurfum að gera betur til þess að klára þær það er alveg klárt mál.” 

KR var sterkari aðilinn í seinni hálfleik af leiknum en Valur var með 17 stiga forystu í hálfleik. Það skipti Darra litlu máli eftir leik.

„Mér er alveg sama um þennan seinni hálfleik. Úrslitakeppnin snýst um að ná í sigra og við náðum að gera það í dag.”

Darri var ekki ánægður með dómgæsluna á Helenu í teignum eftir fyrsta leik liðanna. Í þeim leik fékk Helena einungis 1 víti en í kvöld fékk hún 10.

„Þetta var miklu eðlilegra í kvöld enda talar tölfræðin talar sínu máli samanborið við síðasta leik.” 

Næsti leikurinn í einvíginu er á miðvikudaginn. Darri vildi ekki deila neinum hernaðarleyndarmálum um upplagið fyrir leikinn en hann vill sækja sigur í þeim leik.

„Við þurfum bara að skoða hvað gerist í þessum leik. Við þurfum að greina af hverju þetta var svona erfitt. Við erum djöfulli ánægð með að vera komin í 2-0 og ætlum okkur ekkert annað en að klára dæmið í næsta leik.”

Benedikt hefur trú á sínum stelpum.vísir/bára
Benedikt: Þær refsuðu okkur grimmilega

„Þetta var bara spurning um 2 skot til eða frá fyrir okkur. Við vorum að fá sénsa til að komast nær en ég bara ógeðslega ánægður með liðið í 37 mínútur í kvöld. Við vorum frábærar í 37 mínútur. Þessar síðustu 3 mínútur í fyrri hálfleik voru okkur erfiðar, ” sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR að leikslokum.

KR voru betra liðið í 37 mínútur í kvöld. Valsliðið tók 20-3 áhlaup á lokakafla annars leikhluta en að öðru leyti stóðu KR sig vel.

„Þessar mínútur einkenndust af samskiptaleysi hjá þeim fimm sem voru inná. Þær refsuðu með 6 þristum en að öðru leyti fannst mér KR liðið mjög gott. Ég er virkilega ánægður með það. Við erum alltaf að eiga fleiri og fleiri góðar mínútur á móti þeim.” 

Mætti segja að þið hafið tapað þessum leik í lok annars leikhluta?

„Það kom okkur allavega í djúpa holu. Mér fannst við spila vel fram að því og vel eftir það. Þetta sýnir bara að einbeitingarskortur og samskiptaleysi í 3 mínútur, þá refsar svona gott lið. Þær refsuðu okkur alveg grimmilega í þessar 3 mínútur. Við bætum það vonandi og náum einbeitingu og samskiptum í 40 mínútur í næsta leik.” 

Orla O’Reilly átti stórleik á miðvikudaginn með 27 stig. Hún fann sig ekki jafn vel í kvöld og skoraði einungis 14 stig. 

„Ég ætlast ekki til að Orla skori meira en 20 stig í hverjum leik. Við þurfum bara framlag úr fleiri áttum. Við erum vön því að hin liðin einbeiti sér að því að dekka Kíönu og Orlu. Þær eru alltaf með indjánavörn á sér og það er varnarmaður tilbúinn strax ef þær ætla að spóla sig í gegn. Við erum að fá fullt af góðum færum út úr því sem að aðrar þurfa bara að setja niður. Þá erum við í frábærum málum.” 

KR er núna búið að tapa fjórum sinnum í röð gegn Val. Þessir tveir leikir í úrslitakeppninni eru samt búnir að vera jafnir og Benni hefur trú á liðinu í næsta leik.

„Ég hej fulla trú á að við getum unnið næsta leik. Við teljum okkur alltaf eiga séns á móti Val. Við höfum verið í séns í báðum leikjunum. Núna ætlum við að taka sénsinn. Við ætlum að taka möguleikann á vinningi og klára þetta.”

Helena átti stórleik.vísir/bára
Helena: Miklu betri en þetta lið

Seinni hálfleikurinn var ekki nægilega góður hjá ykkur, hvað fer úrskeiðis þar?

„Þegar þú ert kominn á þennan stað á tímabilinu ertu bara rosa sáttur með sigurinn. Mér finnst erfitt að svara þessari spurningu akkúrat núna. Þetta voru mikið af litlum hlutum sem við vorum að klikka á. Einbeitingin og svona sem við getum lagað.” 

„Mér finnst við miklu betri en þetta lið og við erum búnar að sýna það hérna í tveimur leikjum. Ég held að við getum komið á fimmtudaginn og gert ennþá betur,” sagði Helena Sverrisdóttir leikmaður Vals eftir leikinn en Valur vann nauman sigur í DHL-höllinni í kvöld. 

Valsliðið átti frábæran endi á annan leikhluta þar sem þær skoruðu úr sjö sóknum í röð. Helena var ánægð með sóknina þar en vill einbeita sér að vörninni.

„Þar voru skotin að sjálfsögðu að detta en þetta snýst líka um að stoppa þær í vörninni. Þær byggja sína sókn mikið á tveimur leikmönnum og við þurfum að hægja svolítið á þeim. Þær eru rosalega góðar þegar að völlurinn opnast smá. Þegar við gerum mistök sóknarlega og þær komast í hraða sókn. Við ættum að geta lagað það.” 

Helena fékk tvo ruðninga dæmda á sig í fyrri hálfleik sem hún virtist ekki ánægð með. Eftir leik var hún ekkert að kippa sér yfir um þeim og var heilt yfir ánægð með dómarana enda gera þeir alltaf sitt besta.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um dómarana. Þeir eru bara að gera sitt allra besta. Ég fór aðeins oftar á vítalínuna í dag heldur en í seinasta leik svo það er kannski erfitt fyrir mig að segja eitthvað þannig um þá. Ég hef bara trú á því að þeir séu að reyna sitt besta.” 

Valur getur tryggt sitt sæti í úrslitaeinvíginu á fimmutdaginn með sigri. Helena hefur trú á að frammistaðan geti verið betri með því að huga meira að smáatriðum.

„Við erum með skýr markmið. Við unnum bara einn leikhluta af fjórum í dag og getum að mínum mati gert betur en mér finnst við spila ágætlega á köflum. Þetta eru meira svona litlir hlutir sem við þurfum að laga.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira