Umfjöllun og viðtöl: Skallagrímur - Tindastóll 82-90 | Stólarnir sluppu með skrekkinn

Gunnhildur Lind Hansdóttir í Fjósinu í Borgnarnesi skrifar
vísir/bára
Tindastólsmenn nældu sér í tvö stig þegar þeir sigruðu Borgnesinga í miklum baráttuleik í 21. umferð Domino’s deildar karla í Fjósinu í kvöld.

Það var allt annað Skallagrímslið sem mætti til leiks í Fjósinu í kvöld. Strax í upphafi mátti sjá gífurlega baráttu, gott samspil og sigurvilja hjá Borgnesingum. Gestirnir héldu í við þá mest megnið af fyrsta leikhluta en miðin voru ekki stillt sem skildi hjá Tindastólsliðinu sem voru einungis með 9 stig eftir 10 mínútur.

Í öðrum leikhluta bættu heimamenn í forskotið og komust mest 20 stigum yfir gegn sterku liði Tindastóls. Sama hvað gestirnir gerðu þá áttu þeir gulklæddu alltaf svör og náðu ítrekað að spila sig í gegnum vörn Stólanna. Að auki mátti sjá að dómgæslan var að fara illa í Sauðkræklinga sem fengu þrjár tæknivillur fyrir mótmæli í fyrri hálfleik. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leik leiddu Borgnesingar með 15 stigum.

Allt annað var upp á teningnum í seinni hálfleik. Stólarnir hittu úr öllu á meðan heimamenn hittu úr engu. Á þriggja mínútna kafla náðu gestirnir að éta upp 15 stiga forskot Borgnesinga. Það var ekki fyrr en fór að líða almennilega á leikhlutann að jafnt var með liðum en Skallagrímur náði að komast í framsætið rétt áður en leikhlutanum lauk, 59-58.

Loka fjórðungurinn var virkilega skemmtilegur og spennandi. Mikil barátta einkenndi leikhlutann þar sem bæði lið ætluðu sér sigur í kvöld. Það var ekki fyrr en þegar um tvær mínútur lifðu af leik að Stólarnir fóru að slíta sig frá Borgnesingum og má þakka góðri vítanýtingu fyrir það. Kláruðu gestirnir leikinn  á vítalínunni og lokatölur 82-90 Tindastóli í vil.

Af hverju vann Tindastóll?

Gestirnir byrjuðu leikinn ekki vel en vöknuðu til lífsins í síðari hálfleik. Þeir máttu þakka fyrir að hafa meiri breidd á bekknum og var það sem hjálpaði Stólunum að landa sigrinum því þeir voru í stökustu vandræðum með heimamenn sem spiluðu af alls oddi.

Hverjir stóðu uppúr?

Brynjar Björnsson reyndist Stólunum góður í kvöld. Hann setti körfur niður þegar virkilega vantaði stig. Hann endaði leika stigahæstur með 23 stig og 6 fráköst.

Hjá Skallagrími var Matej Buovac stigahæstur einnig með 23 stig. Mest áberandi í liði heimamanna var hann  Bjarni Guðmann sem er eins og klettur í teig sinna manna. Hann kláraði leikinn með 15 stig og 6 fráköst. Björgvin Hafþór endaði leikinn með þrennu. Hann skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa og hefur gengið illa hjá Skallagrími að klára leikina sína. Þeim hefur skort breiddina í vetur og sést það á stöðu liðsins þegar deildarleikirnir eru að klárast. Fall niður í fyrstu deild er staðreynd hjá Skallagrímsliðinu.

Hvað gerist næst?

Síðasta umferð Domino’s deildar hefst strax á fimmtudaginn eftir helgi. Borgnesingar halda út á Reykjanesið og heimsækja Njarðvíkinga. Sama kvöld fá Tindastólsmenn Keflvíkinga til sín á Krókinn en þar má búast við hörku leik.

Finnur Jóns: Síðasti heimaleikurinn í bili

Skallagrímsmenn komu baráttuglaðir inn í viðureign kvöldins og spiluðu af alls oddi framan af. Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, var stoltur af frammistöðu sinna manna í Fjósinu í kvöld.

„Við spiluðum hart og spiluðum virkilega vel á köflum. Frammistaðan hjá strákunum í kvöld var til fyrirmyndar,” segir Finnur eftir leik.

„Við komum inní þennan leik með engu að tapa og sömuleiðis voru Stólarnir eitthvað værukærir. Það sem gerist þarna í seinni hálfleik er að við verðum bara svolítið þreyttir.“

„Við erum að rúlla á fáum mönnum, mikið um meiðsli hjá okkur og vorum t.d. með þrjá 15 ára gutta til að fylla upp í skýrslu. Menn voru bara þreyttir og pínu bensínlausir þarna í lokin,” útskýrir þjálfarinn.

Þegar Finnur lítur yfir tímabilið sem er senn að ljúka þá sér hann nokkur atriði sem hefðu mátt betur fara.

„Tímabilið sem slíkt er ákveðin vonbrigði. Við höfum vissulega gert fullt af mistökum, tekið rangar ákvarðanir, það er bara eins og gengur og gerist í þessu. Mikil vonbrigði að falla aftur,“ en hvað tekur við hjá Finni?

„Þetta er síðasti heimaleikurinn minn fyrir Skallagrím í Borgarnesi í bili. Ég er mjög ánægður með baráttuna í strákunum í kvöld, hún var algjörlega til fyrirmyndar,” segir Finnur.

Hann bætti jafnframt við að hann mun halda áfram að þjálfa körfubolta en fyrir hvaða lið kemur í ljós síðar.

Israel: fundum baráttuvilja í seinni hálfleik

Israel Martin var pollrólegur að leik loknum þrátt fyrir sveiflukennda frammistöðu sinna manna gegn Borgnesingum í kvöld.

„Fyrstu tuttugu mínúturnar voru ekki góðar. Við samstilltum okkur í hálfleik og áttum gott spjall í klefanum áður en við komum inn í þriðja leikhluta. Það var mikilvægt fyrir okkur að spila saman, þá sérstaklega í vörninni og stoppa Borgnesingana í sínum sóknaraðgerðum sem gekk upp,” útskýrir Israel.

„Við fundum baráttuviljann í síðari hálfleik. Skallagrímur spilaði eins og það hafði engu að tapa og við vorum í virkilegum vandræðum með þá mest megnið af leiknum. Heilt yfir er ég að sjálfsögðu ánægður með sigurinn í kvöld,” segir hann að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira