Viðskipti innlent

Malasískur risi vill kaupa Geirsgötu 11

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Fasteignin við Geirsgötu 11, gömul vöruskemma, hefur staðið að mestu ónotuð undanfarin ár og er farin að láta á sjá. Brim hefur síðustu ár kynnt hugmyndir um niðurrif hússins en ekki haft erindi sem erfiði.
Fasteignin við Geirsgötu 11, gömul vöruskemma, hefur staðið að mestu ónotuð undanfarin ár og er farin að láta á sjá. Brim hefur síðustu ár kynnt hugmyndir um niðurrif hússins en ekki haft erindi sem erfiði. Fréttablaðið/Ernir
Dótturfélag malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya Corporation, sem var stofnuð af milljarðamæringnum Vincent Tan, eiganda breska knattspyrnufélagsins Cardiff City, er að ganga frá kaupum á fasteigninni að Geirsgötu 11 á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík. Seljendur eru félögin Fiskitangi og Útgerðarfélag Reykjavíkur sem eru að stærstum hluta í eigu Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns og forstjóra HB Granda.

Heildarvirði samningsins nemur tæplega 14 milljónum dala eða jafnvirði um 1.670 milljóna króna. Þar af kaupir malasíska félagið, sem ber heitið Berjaya Land Berhad, allt hlutafé í eignarhaldsfélaginu Geirsgötu 11 ehf. fyrir 1,4 milljónir dala og greiðir auk þess upp 12,6 milljóna dala skuld umrædds eignarhaldsfélags við Útgerðarfélag Reykjavíkur.

Í tilkynningu sem malasíska félagið sendi til kauphallarinnar þar í landi fyrr í mánuðinum var tekið fram að kaupin á Geirsgötu 11 myndu gefa félaginu tækifæri til þess að hefja fjárfestingar, svo sem á sviði fasteignaþróunar og sér í lagi hótelstarfsemi, á Íslandi. Félagið, sem átti í lok október í fyrra eignir upp á alls 390 milljarða króna, rekur hótel víða í suðausturhluta Asíu sem og í Lundúnum.

Gert er ráð fyrir því að fyrirvarar kaupanna verði uppfylltir á næstu vikum, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, og að kaupin gangi í gegn í kjölfarið.

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur, vildi ekki tjá sig um viðskiptin þegar eftir því var leitað.

Húsið að mestu ónotað

Fasteignin við Geirsgötu 11, sem er gömul vöruskemma, hefur staðið að mestu ónotuð undanfarin ár og er farin að láta á sjá. Útgerðarfélag Reykjavíkur og forveri þess, Brim, hafa á síðustu árum kynnt hugmyndir, í samstarfi við norrænu arkitektastofuna PkdM arkitekta, um niðurrif hússins og uppbyggingu á lóðinni en ekki haft erindi sem erfiði.

Vincent Tan, stofnandi Berjaya Corporation og eigandi Cardiff City
Þannig samþykkti stjórn Faxaflóahafna síðasta haust, að tillögu skipulagsfulltrúa hafnarinnar, að bíða með framkvæmdir og uppbyggingu á Miðbakka þar til framkvæmdum við Austurhöfn lýkur og ljóst yrði með hvaða hætti skipulag umferðar um Austurbakka og starfsemi á jarðhæð hússins verður.

„Á því svæði er nú mikið álag vegna byggingarframkvæmda og rétt er að sjá hvaða áhrif sú uppbygging hefur áður en ráðist er í frekari uppbyggingu á Miðbakka,“ sagði í umsögn skipulagsfulltrúans.

Fyrr á árinu hafði umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar tekið neikvætt í tillögu lóðarhafa um uppbyggingu á Miðbakka en samkvæmt þeirri tillögu átti byggingamagn að vera 27.760 fermetrar. Taldi ráðið það of mikið.

Eitt stærsta fyrirtæki Malasíu

Kaupandi hússins, Berjaya Land Berhad, er dótturfélag samsteypunnar Berjaya Corporation sem er eitt stærsta fyrirtæki í Malasíu. Fjárfestir það meðal annars í lottó- og fjárhættuspilastarfsemi, hótelum og öðrum fasteignaverkefnum, fjarskiptaþjónustu, matvæla- og drykkjarframleiðendum, dreif­ingar­fyrirtækjum, bílasölum og hinum ýmsu framleiðslufyrirtækjum, svo eitthvað sé nefnt.

Þá er samsteypan, sem var stofnuð árið 1984 og er með um það bil 14 þúsund starfsmenn, leiðandi á sviði fasteignaþróunar í Malasíu. Byggði hún meðal annars 48 hæða tvíbura­turn, að nafni Berjaya Times Square, í Kúala Lúmpúr, höfuðborg Malasíu, árið 2003 en byggingin er sú tíunda stærsta í heimi miðað við gólfflöt.

Umrætt hús við Geirsgötu 11, sem malasíska félagið vill eignast, var byggt árið 1982 úr forsteyptum einingum og er varðveislugildi þess ekki talið mikið. Þar var fyrst til húsa útgerð Ríkisskipa en síðar var þar fiskvinnsla Jóns Ásbjörnssonar og Fiskkaupa sem seldu Brimi húsið snemma árs 2007.

Fyrir rúmum sex árum gerðu Faxaflóahafnir og lóðarhafinn, Brim, með sér samkomulag um að endurnýja ytra byrði hússins og færa aftur líf í það og kynnti útgerðin meðal annars hugmyndir um að opna þar fiskvinnslu, sýningarsal, fiskmarkað og veitingahús. Ekkert varð hins vegar af þeim áformum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×