Viðskipti innlent

Vísir vinsælasti vefur landsins

Tinni Sveinsson skrifar
Nokkrar þeirra frétta sem vöktu mesta athygli á Vísi í síðustu viku.
Nokkrar þeirra frétta sem vöktu mesta athygli á Vísi í síðustu viku.
Vísir er í fyrsta sæti yfir vinsælustu vefi landsins samkvæmt nýjum topplista Gallup. Vísir mældist með ríflega 167 þúsund íslenska notendur á dag að meðaltali yfir vikuna, sem náði frá 11. til 17. febrúar.

Virku dagana sóttu 177 þúsund íslenskir notendur vefinn að meðaltali á dag og um helgina voru þeir 143 þúsund á dag. Þá lásu einnig tæplega 24 þúsund erlendir notendur Vísi á dag.

Næsti vefur á listanum er mbl.is með um 166 þúsund notendur á dag. Því næst kemur DV með tæp 124 þúsund, RÚV með 64 þúsund, Já með 45 þúsund, Fréttablaðið með 32 þúsund og Stundin með 22 þúsund notendur á dag.

„Þetta er tveggja turna tal og mikil barátta í hverri einustu viku að vera fyrst með bestu fréttirnar. Lestrartölurnar eru svo góður bónus. Þetta er fyrst og fremst hvatning um að halda okkar striki á fréttastofu Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis og færa lesendum áfram vandaðar fréttir, auk þess að gefa afþreyingu og skemmtun sitt rúm líka,“ segir Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis.

Á vef Gallup birtast nýjar mælingar yfir vinsælustu vefi landsins á þriðjudagsmorgnum.

Mörg fréttamál

Yfir 800 fréttir birtust á Vísi þessa daga auk tæplega 400 sjónvarps- og útvarpsklippa og má rekja þennan mikla lesendafjölda til margra fréttamála sem dreifðu sér jafnt yfir vikuna.

Meðal þeirra frétta sem vöktu mesta athygli á Vísi var frásögn bandarískrar listakonu sem brenndist illa þegar hún datt í sjóðandi heitan hver í grennd við Hveragerði, viðtal ísraelskra sjónvarpsmanna við hljómsveitina Hatara og fækkun í röðum Zúista eftir að þeir fengu skráningu sem trúfélag.

Einnig frásögn kaffihúsaeiganda á Týsgötu sem skellti í lás eftir hækkun leigusala og ævintýralegt fjársvikamál fyrrverandi forsætisráðherra Malasíu.

81% landsmanna í viku hverri

Gallup heldur utan um mælinguna og er hægt að rýna nánar í tölurnar á síðunni topplistar.gallup.is. Á síðunni er einnig hægt að skoða dekkun þeirra netmiðla sem taka þátt í mælingunni eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og tekjum.

Þar má meðal annars sjá að síðustu misseri hefur Vísir tryggt sig í sessi sem vinsælasti vefur landsins í aldurshópnum 18-49 ára. Einnig að í viku hverri lesa 81% landsmanna á aldrinum 12 til 80 ára Vísi. Nánari markhópagreiningar má einnig finna á síðu auglýsingadeildar Vísis.

Ritstjórn Vísis þakkar lesendum sínum kærlega fyrir heimsóknirnar og lesturinn.

Við tökum fagnandi við fréttaskotum, innsendum greinum og ábendingum á ritstjorn@visir.is og minnum á að nýjustu og helstu fréttir okkar eru birtar jafnóðum á Twitter, Instagram og Facebook-síðu Vísis þar sem samtal við lesendur er einnig virkt allan sólarhringinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×