Körfubolti

Körfuboltakvöld: Dæmum ekki Tindastól á einu skemmdu epli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristófer hefur verið frábær í liði KR eftir að hann snéri aftur heim úr atvinnumennsku fyrr í vetur
Kristófer hefur verið frábær í liði KR eftir að hann snéri aftur heim úr atvinnumennsku fyrr í vetur vísir/ernir
Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport ræddu atvikið sem kom upp í Síkinu á Sauðárkróki á fimmtudag þegar stuðningsmaður Tindastóls beitti Kristófer Acox, leikmann KR, kynþáttafordómum.

Kristófer greindi frá atvikinu á Twitter stuttu eftir leik og var körfuboltahreyfingin fljót að standa við bakið á KR-ingnum, þar á meðal voru forráðamenn, leikmenn og stuðningsmenn Tindastóls.

„Þegar ég sá þetta varð ég alveg ofboðslega reiður,“ sagði Hermann Hauksson, einn sérfræðinga Körfuboltakvölds. „Þessi sem kallar þetta inn á, hann er greinilega þarna í einhverjum allt öðrum tilgangi en að styðja liðið sitt.“

„En mér finnst allt varðandi þetta mál hafa verið tæklað alveg ofboðslega vel af hálfu Tindastólsmanna. Ég veit að formaðurinn fór beint í bæði Inga og Kristófer eftir leikinn og baðst afsökunar, margir Króksarar tístu um þetta að þeir skömmuðust sín. Grettismenn, sem eru besta grúbban í stúkunni, þeir skömmuðust sín.“

„Ef ég myndi heyra svona í stúkunni í KR þá myndi ég standa upp og láta vísa þeim manni út úr húsi á stundinni. Hann ætti ekki heimagengt inn í KR aftur, bara aldrei.“

Fannar Ólafsson tók heilshugar undir orð Hermanns. „Við skulum ekki dæma Tindastól út frá þessu eina skemmda epli. Þeir munu sjá um þetta innandyra, en ég er alls ekki að taka undir svona bull.“



Klippa: Körfuboltakvöld um rasismann í Síkinu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×