Leikjavísir

Resident Evil 2: Reynt að eyðileggja fínar brækur

Samúel Karl Ólason skrifar
Leon og Claire í góðum gír.
Leon og Claire í góðum gír.
Capcom hefur gefið út endurgerð af hinum klassíska Resident Evil 2, sem kom fyrst út árið 1998 á PlayStation2. Leon Scott Kennedy og Claire Redfield eru mætt til Raccoon City og þau völdu sér hræðilegan tíma til að kíkja í heimsókn. Vírus Umbrella Corp hefur gert nánast alla íbúa borgarinnar að uppvakningum eða annarskonar skrímslum.

Hvort sem spilarar velja að spila sem Leon eða Claire þá þurfa þeir að ferðast um lögreglustöð Raccoon City og leysa þar fjöldann allan að gátum og þrautum til að komast út og komast að því hvað gerðist í borginni. Eftir að leikurinn er kláraður er hægt að spila stutta aukasögu sem hin persónan. Að því loknu er svo hægt að spila sem hermaður Umbrella. Ég vil þó taka fram að ég er ekki búinn með leikinn enn.

Ég hef ekki spilað marga Resident Evil leiki, og hef til að mynda aldrei prófað upprunalega Resident Evil 2 sem leikurinn sem fjallað er um er gerður eftir. Því hef ég ákveðið að hunsa þann leik bara alfarið og fjalla um endurgerðina sem stakan leik.

RE2 er mjög ósamkvæmur sjálfum sér þegar kemur að því hvernig maður þarf að ganga frá uppvakningum. Þeir þurfa yfirleitt þrjú til fimm skot í höfuðið og standa oftar en ekki aftur upp eftir það, sem er einkar pirrandi. Það reynir smá á taugarnar að geta ekki verið viss um það hvort uppvakningar standa upp aftur.

Þetta er Zombies 101. Þegar þú skýtur uppvakning í heilann, þá „deyr“ hann. Í myndböndum leiksins (cutscenes) virðist sem að eitt skot á réttan stað dugi til að ganga frá þessum drullusokkum en ekki í leiknum sjálfum. Nema stundum. Ég skil þetta ekki og það fer í taugarnar á mér. Þetta ósamræmi eykur þó spennu leiksins, eins og hann þurfi eitthvað á því að halda.

En, talandi um taugar. Það sem RE2 gerir einkar vel er að reyna á taugarnar. Ég hef verið að spila leikinn í PC og með heyrnartól og hef tekið eftir því að ég færi andlitið nær og nær skjánum þegar spennan eykst. Þegar ég átta mig á því að ég þarf að gera mig rangeygðan til að sjá hvert ég er að miða, veit ég er að það er komið að „bregðu“.

Þetta er þó langt frá því að vera áreiðanleg regla og ég hef ekki tök á því hve oft mér hefur krossbrugðið í þessum leik. Þá hef ég átt í stökustu vandræðum með að spila RE2 með ljósin slökkt. Ég meika ekki svona leiki. Á góðan hátt þó, held ég.

Það eru þó fleiri vopn í boði en litlar skammbyssur. Má þar nefna stórar skammbyssur, haglabyssu, handsprengjur og jafnvel eldvörpu. Allra versta vopn leiksins er þó án efa hnífurinn. Í stuttu máli þá sökkar hann.

Leon og Claire virðast ekki hafa hugmynd um hvað þau eru að berjast við. Þegar maður beitir hnífi sveifla þau honum í bringuhæð og reyna að skera geirvörturnar af uppvakningunum í stað þess að stinga þá í hausinn.

Þegar uppvakningur ræðst á mann getur maður, ef maður fljótur, gert sérstaka árás með hnífnum. Þá kemur Leon/Claire sér undan árás uppvakningsins og stingur hnífi í bringuna á honum. Sem gerir nákvæmlega ekki neitt annað en að tapa hnífnum ef maður er skotfæralaus, sem gerist reglulega.

Þetta fer óstjórnanlega mikið í taugarnar á mér.

Á móti kemur að leikurinn væri alls ekkert hrollvekjandi ef maður væri hlaupandi um og afturdrepandi hálfa Raccoon City með hausskotum út og suður.

Raccoon City er nánast hlaðborð fyrir uppvakninga.
Það var skemmtilega góð ákvörðun hjá Capcom að byggja leikinn upp frá grunni í stað þess að endurgera hann á einhvern hátt. Þarna má finna nútímagrafík í samblandi við grafík sem virðist vera úr upprunalega leiknum.

Hönnun borða er mjög góð og það er alltaf stressandi að labba fyrir horn og bara að labba yfir höfuð.

Í eitt sinn, snemma í leiknum, kom ég inn í stórt herbergi á tveimur hæðum. Það voru nokkrir uppvakningar á neðri hæðinni og ég ákvað að fara varlega og stúta einum og einum, hægt og rólega.

„Heldur betur ekki,“ sagði leikurinn. Ég eyðilagði næstum því fínar brækur þegar gólfið brotnaði undan Leon og hann lenti í miðri þvögu uppvakninga.

Í stað þess að reyna að koma mér aðeins frá þeim og gera þetta skipulega byrjaði ég að skjóta út í loftið eins og fífl. Þeim tókst ekki að bíta mig en ég sóaði meirihlutanum af skotfærunum mínum í óðagoti.

Það voru mistök, því skotfæri eru mjög verðmæt í RE2. Ég hef líka gert sjálfum mér mjög erfitt með þeirri kröfu minni að afturdrepa alla uppvakninga sem ég mæti, í stað þess að skokka bara fram hjá þeim. Það þýðir að ég er sífellt búinn með skotin mín og bara með einhvern krapp-hníf.

Hljóð leiksins er sömuleiðis mjög gott. Það er lítið um tónlist í RE2 og er hljóðinu nánast eingöngu ætlað að skapa drungalegt andrúmsloft. Sem heppnast mjög vel.

Brak í gólfi, dropar að falla og stunur í uppvakningum eru svo krípí. Ég er alltaf að snúa mér við til að leita að uppruna einhvers hljóðs og í hvert einasta sinn er ég stressaður fyrir því að snúa mér aftur við. Ég er alltaf sannfærður um að einhver drullusokkur ætli að bregða mér.

Samantekt-ish

Það helsta sem segja má um endurgerðina af Resident Evil 2 er að hún er hrollvekjandi. Allavega fyrir mitt leyti. Hönnun leiksins er frábær og hljóðið einnig en bæði er hannað til að koma niður á öryggistilfinningu spilara. Ég tók mig til og poppaði eitt kvöldið sem ég var að spila og var búinn að gleyma því þegar ég settist niður aftur. Þegar poppið byrjaði að poppa og ég var á óþægilegum stað í leiknum, fór ég í tveggja sekúnda panik og hélt að einhver væri kominn inn til að drepa mig, áður en ég mundi að ég hefði sett örbylgjuofninn af stað um það bil hálfri mínútu áður.

Það er ýmislegt sem fer í taugarnar á mér eins og það hve hægfara og ömurlegar skyttur Leon og Claire eru. Flest þau atriði sem pirra mig eru þau vísvitandi gerð til að auka spennuna. Resident Evil 2 er ekki hasarleikur eða skotleikur. Þetta er hrollvekja. Þó að aðalpersónur leiksins séu ekki þær hreyfanlegustu og séu ekki geggjaðar skyttur sakar það ekki.

Ég spilaði leikinn á PC og fékk eintak frá innflytjendum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×