Umfjöllun og viðtöl: Skallagrímur - Stjarnan 67-63 | Stjarnan tapaði mikilvægum stigum í Fjósinu

Gunnhildur Lind Hansdóttir skrifar
Dani Rodriguez, lykilmaður Stjörnunnar.
Dani Rodriguez, lykilmaður Stjörnunnar. vísir/ernir
Skallagrímur vann góðan sigur á gestunum úr Garðabæ er liðin mættust í Fjósinu í Borgarnesi í 18. umferð Domino’s deildar kvenna í kvöld.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og skiptust lið á stigaskori framan af fyrri hálfleik. Þegar leið á annan fjórðung fóru heimastúlkur að klára skotin sín betur og þéttu vörn sína til muna.

Af sama skapi voru Garðbæingar klaufar í sínum sóknarleik og voru að velja skotfærin sín heldur illa. Engu að síður náðu gestirnir að rétta úr kútnum áður en gengið var til klefa og minnkuðu muninn úr 12 stigum niður í 7 stig. Staðan 38-31 í hálfleik fyrir Borgnesingum.

Í seinni hálfleik spýttu heimastúlkur í lófana og komust mest í 16 stiga forystu um miðbik þriðja leikhluta. Garðbæingar voru sömuleiðis búnar að brjóta duglega á sér í leikhlutanum og koma Sköllunum tiltölulega snemma í bónus.

Pétur Sigurðs, þjálfari gestanna, náði þó að stappa stálinu í sína leikmenn sem söxuðu á forskotið hægt og rólega og munaði 10 stigum á liðum fyrir fjórða leikhluta.

Þær bláklöddu komu mun ákveðnari inn í loka fjórðunginn. Spiluðu hörku vörn og settu færin sín niður af öryggi. Á sama tíma voru þær gulklæddu oft á tíðum klaufar með boltann og þetta nýttu Garðbæingar sér.

Þegar rétt um sex mínútur voru eftir af leiktíma komust gestirnir yfir í fyrsta skipti síðan á upphafs mínútunum. Allt var í járnum það sem eftir lifði af leik þar sem Skallarnir enduðu á toppnum og með kærkomin tvö stig í vasann.

Af hverju vann Skallagrímur?

Heimastúlkur uppskáru vel í kvöld með hörku vörn og góðri skotnýtingu, þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Þar var Ines Kerin fremst í flokki en hún setti sex af níu skotum sínum niður í kvöld. Borgnesingar skiptu reglulega á milli maður-á-mann og svæðisvarnar. Þetta virtist trufla gestina sem sættu sig oft við ótímabær skot.

Hverjir stóðu uppúr?

Eins og fyrr segir bauð Ines Kerin upp á skotsýningu fyrir utan þriggjastiga línuna í kvöld, hún endaði leika með 18 stig. Rétt á eftir henni var Maja með 16 stig og fjórar stoðsendingar. Shequila var einnig duglega fyrir Borgnesinga með 14 stig og 12 fráköst.

Hjá gestunum vekur athygli að Danielle Rodriguez spilaði allar 40 mínúturnar í kvöld. Hún var með 13 stig, 9 stoðsendingar og 7 fráköst. Framherjar Stjörnunnar voru einnig góðar í kvöld. Ragna Margrét var gríðarlega duglega í kvöld og endaði leik stigahæst með 17 stig og 9 fráköst. Liðsfélagi hennar, Ragnheiður, var með 8 stig og 9 fráköst þar af 4 sóknarfráköst.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá þeim bláklæddu að láta skotin sín rata rétta leið og þá sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna. Þrátt fyrir frábæra baráttu í fráköstunum í kvöld þá áttu gestirnir erfitt með að klára færin sín. Samtals tóku gestirnir 53 fráköst, þar af 18 sóknarfráköst á móti 5 sóknarfráköstum heimastúlkna.

Hvað gerist næst?

Í næstu umferð Domino’s deildar kvenna halda Skallagrímsstúlkur til Stykkishólmar þar sem slagurinn um Vesturland fer fram gegn Snæfelli. Sá leikur fer fram miðvikudaginn 6. febrúar. Þá fá Garðbæingar nágranna sína úr Hafnarfirðinum í heimsókn að viku liðinni

 og hefst sá leikur klukkan 19:15.

Sigrún Sjöfn: Tókum okkur vel til fyrir leik

Fyrirliði Skallagríms, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, var virkilega ánægð eftir leik þegar blaðamaður heyrði í henni.

Skallagrímur eru nú með 12 stig og átta stigum á eftir Stjörnunni og sæti í úrslitakeppninni úr myndinni þar sem líður á seinni hluta tímabilsins. Þrátt fyrir þá staðreynd þá heldur fyrirliðinn í jákvæðnina.

„Við tókum okkur vel til fyrir leikinn. Ætluðum að nota þessa viðureign til að bæta okkar leik og liðsins og sjá hvert það myndi leiða okkur. Við erum heldur betur búnar að miss af lestinni en við notum þessa leiki sem eftir eru til að þjappa liðinu saman. Það mætti segja að við séum dottnar í hálfgert undirbúnings tímabil,” segir Sigrún jákvæð.

Í fjórða leikhluta ná Stjörnunar að komast yfir en heimastúlkur létu það ekki á sig fá.

„Ég held við slökum ekki beint á. Stjarnan gaf í og við héldum sama tempói. Í staðin fyrir að taka aðeins betur á þeim. En við náðum sigrinum og við erum virkilega ánægðar með það,” segir hún að lokum.

Pétur Sigurðs: Vantaði ekki baráttuna

Pétur Sigurðsson var heldur betur súr með tapið að leik loknum.

„Við töpum þessu ekki beint á loka mínútunum. Við vorum komnar í holu þarna í þriðja leikhluta og búum okkur til þessa brekku. Framkvæmdin á nokkrum hlutum hérna á lokametrunum var bara ekki nóg og góð. Þegar við komumst tveimur stigum yfir þá spilum við virkilega illa út úr því og fáum þetta í bakið á okkur. Þannig eru lokamínútur í svona leikjum,” segir þjálfarinn svekktur.

Þrátt fyrir góða frákastatölfræði þá voru þessi auka skot ekki að detta niður hjá gestunum.

„Boltinn verður náttúrlega að fara ofan í til að fá stigin. Það vantaði ekki baráttuna, en ákvarðanatökurnar voru ekki góður. Leikplanið var að pressa þær hátt og stíft en sumir leikmenn voru bara ekki sömu blaðsíðu og allt liðið. Skallagrímur er með gott lið, það er erfitt að koma hingað og spila. Þetta er flott keðja sem ég er með og ef þrjár, fjórar keðjur eru ekki rétt stilltar þá gengur þetta ekki upp,” útskýrir hann að endingu.

Guðrún Ámunda: Vörnin vann leikinn

Aðstoðaþjálfari Skallagríms, Guðrún Ósk Ámundadóttir, var glöð þegar hún spjallaði örstutt við blaðamann að leik loknum.

„Þetta var hörkuleikur og við vorum ákveðnar að hefna fyrir bikarleikinn. Við mættum brjálaðar og tilbúnar til leiks,” svarar hún strax.

„Við unnum, sem er jákvætt. Vörnin okkar var frábær og hún skilaði sigrinum í kvöld og þá sérstaklega vörnin á Dani sem er þeirra sterkasti sóknarmaður.”

Ines Kerin, þriggjastiga skytta Skallana var á skotskónnum í kvöld og var Guðrún virkilega ánægð með hennar frammistöðu sem og á liðinu.

„Hún er algjör skytta og gaman að sjá hana setja þessi skot niður. Þetta er liðið eins og ég kannast við það og ég vissi við ættum þetta inni. Ég vildi að við hefðum byrjað tímabilið svona, en við stefnum á að klára það á þessum nótum, það er alveg á hreinu.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira