Körfubolti

Komu Justin Shouse algjörlega að óvörum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse tók við viðurkenningunni með dóttur sína undir hendinni. Með honum er líka Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.
Justin Shouse tók við viðurkenningunni með dóttur sína undir hendinni. Með honum er líka Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar. Vísir/Bára
Justin Shouse var heiðraður sérstaklega fyrir leik Stjörnunnar og Keflavíkur í Domino´s deild karla í körfubolta í gær.

Stjörnumenn hengdu þá upp treyju Justin Shouse og hér eftir getur enginn leikmaður Garðabæjarliðsins spilað í treyju númer tólf.

Justin Shouse skrifar um þessa merkilegu stund á fésbókinni og þar kemur í ljós að hann vissi ekkert af þessu fyrir fram, hélt aðeins að hann væri að fara á leik með Stjörnuliðinu.

Justin metur þetta mikils og er mjög þakklátur fyrir þann heiður sem honum var þarna sýndur en hann er sá fyrsti í sögu körfuboltans í Stjörnunni sem fær treyju sína upp á vegg.

Í pistli Justins á fésbókinni kemur meðal annars fram að dóttir hans fæddist 12.12 og það er vel við hæfi fyrir mann sem spilaði alltaf númer tólf hér á landi.

Justin Shouse spilaði með Stjörnunni frá 2008 til 2017 og var lykilmaður í öllum þremur bikarmeistaratitlum félagsins (2009, 2013 og 2015) sem og þegar liðið fór tvisvar sinnum í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn (2011 og 2013).

Justin Shouse lék alls 186 deildarleiki og 58 leiki í úrslitakeppninni með Stjörnunni. Í þessum 244 leikjum á Íslandsmótinu var hann með 4835 stig og 1610 stoðsendingar eða 19,8 stig og 6,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Í sigurleikjunum þremur í bikarúrslitunum í Laugardalshöllinni var hann með samtals 55 stig og 28 stoðsendingar eða 18,3 stig og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hér fyrir neðan má sjá þakkarorð Justins í tilefni af gærkvöldinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.