Handbolti

Kristján án stjörnulínumannsins síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesper Nielsen.
Jesper Nielsen. Vísir/Getty
Sænska handboltalandsliðið glímir við meiðsli og veikindi alveg eins og það íslenska.

Jesper Nielsen mun missa af fyrstu leikjum sænska landsliðsins á HM í handbolta en Svíar hefja leik á mótinu á morgun eins og við Íslendingar.

Jesper Nielsen er að glíma við meiðsli í nára og hefur ekkert æft í viku. Nú þykir ljóst að hann verði ekki með í leikjum Svía við Egypta og Argentínumenn.

Jesper Nielsen var frábær á Evrópumótinu fyrir ári síðan þegar Svíar unnu silfur en hann var þá valinn í úrvalslið mótsins.





Jesper Nielsen spilar með Guðjóni Val Sigurðssyni og Alexander Petersson hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen og er í hópi með bestu línumönnum heims.  

Kristján Andrésson, hinn íslenski þjálfari sænska landsliðsins, þarf að leysa fjarveru Jesper Nielsen og þá er einnig óvissa með Hampus Wanne, vinstri hornamann liðsins.

Wanne er veikur og ferðaðist ekki með sænska landsliðinu til Kaupmannahafnar þar sem liðið spilar riðilinn sinn á HM.

Hampus Wanne hefur spilað frábærlega með Þýskalandsmeisturum Flensburg-Handewitt en Kristján gaf einmitt honum sitt fyrsta tækifæri með sænska landsliðinu árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×