Körfubolti

Fella Þórsarar aftur topplið deildarinnar í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórsarar fagna sigri
Þórsarar fagna sigri Vísir/Daníel

Leikmenn Þórs frá Þorlákshöfn komu mörgum á óvart í fyrstu umferð Domino´s deildar karla í körfubolta á nýju ári þegar þeir unnu glæsilegan en óvæntan sigur á toppliði Tindastóls.

Tapið þýddi að Tindastólsliðið missti toppsætið til Njarðvíkur sem unnu kvöldið eftir nágranna sína í Keflavík. Mótherjar Þórsara í kvöld eru einmitt umræddir Njarðvíkingar.

Þórsarar fá því tækifæri til að vinna annan leikinn í röð á móti toppliði deildarinnar og jafnvel sjá til þess að nýtt lið komist á toppinn.

Þórsliðið hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu undir stjórn Baldurs Ragnarssonar en þrír sigrar í röð hafa komið liðinu upp í sjötta sæti deildarinnar. Þór hefur auk þess að vinna Tindastól unnið lið Hauka og Vals.

Tindastólsliðið var búið að vinna sex leiki í röð áður það mætti í Þorlákshöfn á sunnudagskvöldið og nú mæta Þórsarar liði sem hefur unnið átta leiki í röð.

Leikurinn fer fram í Ljónagryjunni í Njarðvík þar sem heimamenn hafa unnið alla sjö deildar- og bikarleiki sína í vetur. Ekki auðveldasta verkefnið fyrir lið.

Njarðvík hefur ekki tapað í deildinni í 77 daga eða síðan liðið tapaði fyrir Tindastóls á Króknum 25. október síðastliðinn. Njarðvík vantar „aðeins“ að vinna Þór, Val og Tindastól og þá hefur liðið náð að vinna öll lið Domino´s deildarinnar í einum rykk.

Njarðvíkingar hafa líka unnið Þórsliðið tvisvar á tímabilinu og fóru báðir þeir leikir fram í Þorlákhöfn. Njarðvík vann fyrst 90-80 sigur í deildinni snemma í október og svo 99-76 bikarsigur um miðjan desember.

Alls fara fjórir leikir fram í þrettándu umferð Domino´s deildar karla í kvöld en þeir hefjast allir klukkan 19.15 og eru:

Stjarnan - Breiðablik í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðarbæ
Grindavík - Skallagrímur í Mustad-höllinni í Grindavík
Njarðvík - Þór Þ. í Ljónagryfjunni í Njarðvík
Tindastóll - Valur í Síkinu á Sauðarkróki

Leikur Grindavíkur og Skallagríms er sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.05.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.