Viðskipti innlent

Sveitarfélög geti heimilað stærri vindmyllur án aðkomu stjórnvalda

Sighvatur Jónsson skrifar

Skoskur skipulagsfræðingur hefur bent á nauðsyn þess að gerðar séu áætlanir um vindorkuver á Íslandi

Hann segir ekkert hafa gerst í þeim málum síðan hann kom síðast til landsins fyrir fjórum árum.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.Vísir/Arnar

Samband íslenskra sveitarfélaga er á sama máli og lýsir eftir stefnu stjórnvalda um vindorku.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, vísar til þess að framundan sé endurskoðun landsskipulagsstefnu þar sem fjallað er um landslagsvernd og vindorkunýtingu.

Við viljum fyrst og fremst benda á það að vindorkunýting hlýtur að vera áhugaverður kostur til að auka fjölbreytni í orkuframleiðslu hér á landi og hún er að verða sífellt hagkvæmari líka.

Tvær vindmyllur eru við Þykkvabæ í Rangárþingi ytra. Tvær tilraunamyllur eru við Búrfell. Vindorkuver hafa verið til umræðu og skoðunar í nokkrum sveitarfélögum; í Landeyjum í Rangárþingi eystra, við Gufuskála í Snæfellsbæ, í Dalabyggð, við Húsavík og á Fljótsdalshéraði.

Víða um land hefur komið til tals að setja upp vindmyllur. Snæfellsbær er kominn einna lengst þar sem fjórar mögulegar staðsetningar fyrir vindorkuver eru í aðalskipulagi.Vísir/Tótla

Samband íslenskra sveitarfélaga vill fara skosku leiðina, en sveitarfélög þar í landi geta heimilað stærri vindmyllur en íslensk sveitarfélög án aðkomu ríkis.

Þannig gætu sveitarfélög hér á landi gefið leyfi fyrir vindorkuverum sem framleiða allt að 50 megavöttum en í dag geta þau heimilað vindmyllur sem framleiða allt að 10 megavöttum.

Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnastjórnar rammaáætlunar.Vísir/Arnar

Guðrún Pétursdóttir, formaður verkefnastjórnar rammaáætlunar, segir að það séu ekki megavöttin sem skipti máli heldur hæð og umfang vindmylla.

Framleiðslugeta vindorkuvera aukist og hæð þeirra, en nýjustu vindmyllur geta verið hærri en 200 metrar.

Guðrún segir að læra megi af Skotum varðandi undirbúning um hvar eigi að leyfa vindmyllur og hvar ekki.

Vinnum heimavinnuna, tökum frá svæði, byggjum vindorkugarð, sjáum hvernig gengur og svo skref af skrefi.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.