Viðskipti erlent

SpaceX ætlar að segja upp 10% starfsliðsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá geimskoti SpaceX í febrúar í fyrra.
Frá geimskoti SpaceX í febrúar í fyrra. Vísir/EPA
Geimferðafyrirtækið SpaceX ætlar að segja upp um 10% rúmlega sex þúsund manna starfsliðs þess. Ástæðan fyrir uppsögnunum er sögð „gríðarlega erfiðar áskoranir“ sem séu framundan hjá fyrirtækinu.

Talsmaður SpaceX segir í yfirlýsingu til Reuters-fréttastofunnar að uppsagnirnar séu nauðsynlegar til þess að það geti haldið áfram að þjónusta viðskiptavini sína, ná árangri í að þróa geimför sem geta farið til annarra reikistjarna og innviði fyrir alnetið í geimnum. Fyrirtækið verði að verða straumlínulagaðra til að ná þessum markmiðum sínum en hvert og eitt þeirra hafi knésett önnur fyrirtæki.

Áður hefur Elon Musk, eigandi SpaceX, rekið sjö æðstu yfirmenn sem hafa séð um geimskot fyrirtækisins á gervihnöttum. Ósamkomulag er sagt hafa ríkt um hversu hratt fyrirtækið ætti að þróa og prófa Starlink-gervihnetti sína sem eiga að grunnstoðir gervihnattaalnets.

SpaceX segist stefna á mannaðar ferðir til Mars strax árið 2024. Fyrirtækið hefur þó enn sem komið er aldrei skotið manni út í geiminn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×