Skoðun

Einhver er að ljúga – ég bíð enn eftir ákæru!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar
 Annað opið bréf til Ríkissaksóknara, Sigríðar J. Friðjónsdóttur

Sæl Sigríður,

Ég er enn að bíða eftir ákærunni – eða bara einhverju svari. Það er engin spurning að einhver hefur logið og reynt að misnota réttarkerfið í eigin þágu, án þess að láta á sig fá hversu miklar og alvarlegar afleiðingar það gæti haft fyrir hinn aðilann og sá hinn sami hlýtur að þurfa að svara fyrir það.

Hér geta áhugasamir lesið um forsögu málsins.

Hafi sýslumannsfulltrúinn, Gautur Elvar Gunnarsson logið, eru afleiðingarnar mjög alvarlegar fyrir okkur hjónin og við höfum nú þegar sopið seyðið af þeim og erum í mun verri stöðu en við værum ef Gautur Elvar hefði sagt satt og farið hefði verið að lögum. Þetta er ekki „smá mál“ fyrir okkur, heldur hefur þetta miklar og langvarandi afleiðingar fyrir líf okkar og afkomu, sem ekki sér fyrir endann á.

Hafi ég hins vegar logið upp á Gaut að hafa brotið af sér í opinberu starfi auk þess að hafa falsað opinber skjöl þá gætu afleiðingarnar fyrir hans starfsframa verið alvarlegar auk þess sem ég væri að brjóta gegn mannorði hans. Það að draga menn í gegnum tvö dómstig og ákæru til lögreglu og bæta svo um betur með því að kæra til þíns embættis Sigríður, hlýtur að benda til einbeitts brotavilja af minni hálfu, illsku og hreinlega haturs gagnvart manninum hafi hann ekkert til þess unnið.

Það hljóta að vera lög og refsingar við því að ljúga sökum upp á saklausan mann og þeim hlýtur að þurfa að beita í þessu tilfelli, leiði rannsókn í ljós lygar að minni hálfu.

Ég hef það mér reyndar til málsbóta að vilja bara fá mistök viðurkennd og uppboði hnekkt vegna þeirra og það var í þeim tilgangi sem ég fór með málið fyrir dómstóla. En þegar dómstólar dæma mér í óhag, á forsendum sem í raun snerta ekki málið sjálft og án þess að svara nokkurn tímann EINU spurningunni sem þarf að svara; „Heyrist á upptökunni kallað eftir boði í eignina eða ekki?“, var ekki annað fyrir mig í stöðunni en að kæra brot Gauts Elvars til lögreglunnar.



Tilgangurinn sem fyrir mér vakir er enn þá sá sami, að fá ólöglegu uppboðinu hnekkt. Ég er ekki að kalla eftir refsingu heldur því að farið sé að lögum og réttur minn til löglegrar málsmeðferðar sé virtur.


Er ég virkilega að fara fram á of mikið?

Ég tel að Gautur Elvar hafi einfaldlega gleymt að kalla eftir boði í eignina við byrjun uppboðs hjá sýslumanni í mars 2017. Það sannast í þessu eins og svo mörgu öðru að sannleikurinn er sagna bestur, því ef Gautur hefði bara gengist við þessum mistökum sínum hefði margt farið öðruvísi.

Sjáum nú afleiðingar þessara meintu lyga Gauts Elvars fyrir „kerfið“ þar sem maður hefur gengið undir manns hönd til að breiða yfir mistökin og verja „kerfið“. Það fyndna er að það er í bókstaflegri merkingu „maður“ sem hefur gengið undir „manns“ hönd, því með einni undantekningu eru þetta karlar sem eru að verja hvorn annan í svona líka yndislegu bræðralagi.

En förum yfir hvað og hverjir hafa lagt undir mannorð sitt og orðspor í þessu máli:



Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu: Þórólfur Halldórsson

Embættið leggur orðspor sitt að veði til að verja fulltrúa sinn, Gaut Elvar. Gautur svara engu, hann neitar að bera vitni eða svara og og skýlir sér á bakvið embættið.



Ingvar Haraldsson yfirmaður á fullnustusviði

Embættið lætur embættismann í (skít)verkið. Ingvar fullyrðir í bréfi til Héraðsdóms að gjörðin hafi farið fram eins og skráð sé í gerðarbók án þess að vita nokkuð um það því hann var ekki viðstaddur (!) Er ekki til orð um svona „vitnisburði“?

Er það ekki kallað meinsæri að bera vitni gegn betri vitund? Eða reyndar með ENGA vitund eins og í þessu tilfelli og gera það þar að auki í krafti embættis síns og valdheimilda þess (!)

Æi, en Ingvar hefði aldrei átt að lenda í þessu. Mikið hefði verið gott fyrir hann ef Gautur hefði viðurkennt mistök sín því þá væri Ingvar ekki hugsanlega sekur um meinsæri.

Hitt er svo annað mál og rannsóknarefni út af fyrir sig, hvað þeir sem eiga að gæta laga og réttar bera litla virðingu fyrir lögunum, réttlætinu og sannleikanum, ásamt lögvörðum réttindum almennings þegar það hentar þeim og þeirra.



Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari

Bogi sýður saman dóm þar sem ekki stendur steinn yfir steini. Ég er ekki löglærð en gat hrakið dóminn og „rökstuðning“ hans í meira en 20 liðum á rétt rúmum hálftíma. Ég ætla ekki nánar í þá sálma hér en „dagskipun“ dómara virðist vera að dæma aldrei „kerfinu“ í óhag, sérstaklega ef um fordæmisgefandi mál er að ræða, og fölsun í gerðarbók er svo sannarlega „slæmt mál“ fyrir kerfið.

Bogi hefði náttúrulega aldrei þurft að lenda í þessari súpu ef Gautur hefði bara sagt satt!

 

Þorgeir Örlygsson, Gréta Baldursdóttir og Markús SigurbjörnssonHæstaréttardómarar

Fyrst Héraðsdómur dugði ekki til að fá okkur til að viðurkenna ósigur, þá þurftu Hæstaréttardómarar líka að lenda í þessu. Það verður að viðurkennast að þeir leystu málin með stæl og hælkróki sem við sáum ekki fyrir.

Auk þess að leggja mikið upp úr vitnisburði Ingvars (sem ekki var viðstaddur), létu þeir okkur gjalda þess að hafa ekki kallað fyrir vitni sem eðli málsins samkvæmt eru vitni bankans, Gaut sjálfan og lögfræðing BANKANS (!) sem allan tímann var búin að bera fyrir sig minnisleysi.

Eins og áður er allri ábyrgðinni og sönnunarbyrðinni skellt á okkur enda hlýtur að vera eðlilegt að gera ráð fyrir að við séum fjársterkari en bankinn og ráðum yfir meiri lagaskilning en bæði hann og sýslumannembættið. Það er ekki eins og þessir aðilar séu að standa í svona málum á hverjum degi og fáránlegt að ætlast til að banki eða opinberir aðilar búi yfir tilskilinni þekkingu á svona málum, hvað þá að ætlast til þess að þekking þeirra sé meiri en okkar hjóna. Enda erum við nú tvö á móti einu aumingjans embætti og litlum banka – vægast sagt ójafn leikur. Að sjálfsögðu tekur Hæstiréttur fullt tillit til þessa mismunar í dómi sínum.

Í ljósi þessa „ójafnaðar“ var sko verulega klárt hjá Hæstarétti að snúa ábyrgðinni og sönnunarbyrðinni svona við og bjarga málinu þannig fyrir horn, en hefði engu að síður átt að vera óþarfi.

Já Gautur hefði getað auðveldað mörgum lífið ef hann hefði bara sagt sannleikann og viðurkennt mistök sín.

Vilhjálmur Reyr Þórhallsson aðstoðarsaksóknari

Þegar þarna var komið sögu var ekki annað í dæminu fyrir okkur en að ákæra Gaut sjálfan til Embættis Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu. Ekki til að fá honum hegnt, heldur fyrst og fremst til að fá fram sannleika málsins því með honum væri uppboðinu á eigninni endanlega hnekkt. Vilhjálmur hafði málið frá því í janúar og fram í ágúst í fyrra, hann notaði tímann mjög vel til að rannsaka ekki neitt af því sem máli skiptir, s.s. upptökuna sjálfa og gerði enga tilraun til að svara einu spurningunni sem máli skiptir; Er kallað eftir boði í eignina eða ekki?

Ekkert vitnanna var kallað til, hvorki við né Gautur eða lögfræðingur bankans og upptakan var ekki skoðuð og sannreynd. Vilhjálmur las hins vegar Hæstaréttardóminn, sem er ekki rannsókn enda Hæstiréttur ekki rannsóknaraðili, og vitnaði svo óspart í hann og sagði að fyrst að Ingvar (sem ekki var viðstaddur) segði að kallað hefði verið eftir boði, þá hefði verið kallað eftir boði (!) Vilhjálmur gerði einnig mikið úr því að við hefðum skrifað undir gerðarbókina og taldi okkur bera alla ábyrgð á því sem í hana var ritað þó að henni hafi verið breytt eftir að við skrifuðum undir og að í henni megi greina þrjár mismunandi rithendur.

Lífið er nefnilega ekki jafn flókið og mörg okkar halda og algjörlega óþarfi að flækja einföld mál.

Niðurstaða Vilhjálms er því einfaldlega sú að við berum við alla ábyrgð á því sem í gerðarbók var skrifað, líka því sem skrifað var að okkur fjarstöddum eftir að við staðfestum viðveru okkar með undirskrift.

Þetta er vægast sagt verulega snjallt og afskaplega þægilegt!

Það er skemmtilegur kynjahalli í þessu, hvort sem hann hefur eitthvað segja eða ekki. Ef við teljum Sýslumanninn á Höfuðborgarsvæðinu sem aðila málsins ásamt Gauti sjálfum, þá eru þeir þarna sjö kallarnir sem hafa varið kerfið og Gaut með þessum líka glæsibrag.

Afleiðingar þessara embættisfærslna fyrir fórnalömb lögbrotanna, skipta embættismennina sjö engu máli. Enda þurfa þeir sjaldnast að standa fyrir máli sínu. Þeir eru vanir því að útdeila úrskurðum hægri vinstri, og greinilegt að lítilræði eins og lög og réttlæti þurfa ekkert að þvælast fyrir þeim ef það hentar illa, því þeirra er valdið og mátturinn, Amen!

En af hverju skyldi þetta fólk leggja svona mikið upp úr því að verja „kerfið“ með þessum hætti? Af hverju eru allir þessir menn og kona, tilbúin til að leggja mannorð sitt og starfsheiður að veði fyrir svona „smá mál“? Hvað vita þau sem við vitum ekki? Vita þeir kannski hversu veikum stoðum „kerfið“ stendur og að mörg mál gætu fylgt í kjölfarið sé þessu ekki líka sópað undir teppið með öllum ráðum? Hvað skyldu fórnalömb þeirra/kerfisins vera mörg?

En þá er komið að þér og þínu embætti Sigríður. Guðrún Sveinsdóttir, settur saksóknari, ákvað strax að spila með, enda bæði óþægilegt og leiðinlegt svona fólk eins og ég, sem vill að farið sé eftir einhverjum smáatriðum í lögum.

Og nú er hún búin að draga þig í dansinn með strákunum – og stelpunni.

Spurningin er hvort þú ætlar að dansa með eða gera það sem rétt er?

Það er alveg klárt að einhver er að ljúga og búinn að draga fullt af fólki í svaðið með sér. Þú verður að skera úr um hver það er, því það á enginn að komast upp með þetta, á hvorn veginn sem er, hvorki ég né Gautur Elvar.

Það er því miður ekki hægt að segja annað en við hjónin séum föst í klóm spillingar og maður veltir fyrir sér hvaða embættismaður muni að lokum rísa upp fyrir lögin og réttlætið - eða hvort hann/hún sé yfirleitt til.

Kveðja og von um rannsókn og skjót svör,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Höfundur er kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×