Erlent

Vonast til þess að saga sín hvetji aðrar konur til þess að vera hug­rakkar og frjálsar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rahaf var í viðtali á ABC Australia.
Rahaf var í viðtali á ABC Australia. vísir/vilhelm
Rahaf Mohammed al-Qunun, sádi-arabíska unglingsstúlkan sem fangaði athygli heimsbyggðarinnar þegar hún læsti sig inn á hótelherbergi í Taílandi þar sem hún var á flótta undan fjölskyldu sinni, segist vonast til þess að saga sín veiti öðrum sádi-arabískum konum innblástur til þess að vera hugrakkar og frjálsar.

Qunun fékk hæli í Kanada og lenti í Toronto á laugardag. Hún veitti sjónvarpsstöðinni ABC Australia viðtal og kvaðst vona að mál sitt gæti komið einhverjum breytingum af stað í heimalandi sínu en konur hafa afar takmörkuð réttindi í Sádi-Arabíu. Þannig mega þær ekki vinna, gifta sig eða ferðast án leyfis frá karlkyns forráðamanni.

„Ég held að fjöldi kvenna sem flýja undan stjórnvöldum í Sádi-Arabíu eigi bara eftir að aukast, sérstaklega þar sem það er enginn til þess að stöðva þær. Ég vona að saga mín hvetji aðrar konur til þess að vera hugrakkar og frjálsar,“ sagði Qunun.

Í viðtalinu lýsti Qunun því hvernig löngun hennar til þess að vera sjálfstæð hafi drifið hana áfram til þess að flýja undan bróður sínum og föður þar sem þau voru á ferðalagi í Kúveit en Qunun stefndi á Ástralíu með millilendingu í Bangkok í Taílandi.

Hún læsti sig inni á hótelherbergi þar í landi og neitaði að fara út í sex daga. Segist Qunun hafa búist við því að yfirvöld myndu brjótast inn í herbergið og taka hana höndum. Íhugaði hún því að stytta sér aldur.

„Þess vegna skrifaði ég kveðjubréf. Ég ákvað að ég myndi enda líf mitt áður en ég væri neydd til þess að snúa aftur til Sádi-Arabíu,“ sagði Qunun.

„Mig langaði til að vera frjáls frá kúgun og þunglyndi. Ég vildi vera sjálfstæði. Ég hefði ekki getað gifst þeim sem ég vildi eða farið að vinna án þess að fá leyfi.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.