„Ég get staðfest að þetta er búinn að vera mjög erfiður dagur. Enda er hér í höfuðstöðvunum hátt hlutfall starfsmanna að kveðja og sumir eftir langan starfsferil. Það er eðlilegt að þá komi tilfinningarnar fram,“ sagði Benedikt í samtali við fréttastofu.
Hann sagði uppsagnirnar dreifast um allan bankann. Flestir úr þessum hópi störfuðu í höfuðstöðvunum.
„Svona rekstur er auðvitað alltaf til skoðunar og það liggur fyrir að það er búinn að vera þungur rekstur hér síðustu tvö ár. Útlánatöp, hár rekstrarkostnaður og miklar álögur,“ segir Benedikt. „Við erum að borga um fimm milljarða á ári í sértæka skatta og þetta kom auðvitað til tals þegar ég sótti um stöðu.“
Benedikt segir samkeppnisumhverfi Arion mjög krefjandi. Ekki sé einungis verið að keppa við innlenda og erlenda banka, heldur lífeyrissjóði, fjártæknifyrirtæki og minni fjármálafyrirtæki sem lúti ekki sömu álögum og stærri fjármálafyrirtæki, eins og Arion.
„Til þess að vera samkeppnishæf í okkar rekstri verðum við auðvitað að haga seglum eftir vindum á hverjum tíma.“
Hann sagðist hafa verið ráðinn til að leiða bankann áfram svo hann sé árangursríkur til lengri tíma.
„Okkar markmið er auðvitað að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og til þess að við getum gert það, þurfum við auðvitað að vera rekin með arðbærum hætti.“
Tveggja mánaða undirbúningur
Undirbúningur fyrir uppsagnirnar og aðrar aðgerðir hefur staðið yfir í rúma tvo mánuði. Benedikt segir að það að hundrað hafi verið sagt upp, hafi ekki verið ákveðið fyrir fram.„Við förum yfir hverja einustu starfseiningu og reynum að manna hana sem best á hverjum tíma með tilliti til þeirrar stefnu sem við erum að leggja. Þá reynum við að stilla upp okkar besta fólki,“ segir Benedikt.
Varðandi það að upplýsingar um þessar aðgerðir hafi lekið í aðdraganda þeirra segir Benedikt að ekki sé búið að skoða það sérstaklega.
„Upplýsingarnar sem birtust voru þó ónákvæmar og ekki réttar,“ sagði Benedikt og taldi hann því að þær upplýsingar hefðu ekki komið úr Arion. Frekar hafi verið um vangaveltur að ræða.