Viðskipti innlent

Upp­sagnir í Arion banka: Einum mánuði bætt við upp­sagnar­frest þeirra sem missa vinnuna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Um  hundrað manns missa vinnuna hjá Arion banka í dag vegna skipulagsbreytinga.
Um hundrað manns missa vinnuna hjá Arion banka í dag vegna skipulagsbreytinga. fréttablaðið/ernir
Uppsagnirnar í Arion banka í morgun voru starfsfólki mikið áfall og umfangsmeiri en það bjóst við.

Ástandinu í höfuðstöðvum bankans hefur verið lýst sem skelfilegu af starfsfólki sem fréttastofa hefur heyrt hljóðið í en meirihluti þeirra hundrað starfsmanna sem missa vinnuna starfa þar.

Margir eru í sárum og starfsfólkið huggar hvert annað. Enginn mun ná að vinna í dag, eins og einn starfsmaður bankans orðaði það í samtali við Vísi, en svona dagar séu örugglega erfiðastir fyrir fólkið í framlínunni þar sem það þarf að halda andliti í útibúunum og sinna viðskiptavinum.

Einstaklingssamtöl hófust í morgun við þá starfsmenn sem missa vinnuna og verða fram eftir degi, samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Arion banka.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við Vísi að uppsagnirnar séu umfangsmeiri en stofnunin bjóst við.

„Þessi tilkynning um hópuppsögn var send til okkar núna í morgun og tekur gildi 1.október. Þetta er á öllum sviðum,“ segir Unnur.

Hún segir að stofnunin muni biðja um frekari greiningar því þeim sem sagt er upp eru með mislangan uppsagnarfrest.

„Bankinn hefur ákveðið að bæta við einum mánuði við alla. Síðan þeir sem eru í elsta aldursflokknum fá auka þrjá mánuði. Munurinn á þessari og öðrum hópuppsögnum er sá að þetta fólk er ekki að koma inn til okkar allt á sama tíma, sem að gerir þetta aðeins einfaldara. Við munum setjast yfir þetta eftir hádegi í dag og aðeins skoða hvað við munum gera í þessu sambandi. Það liggur fyrir,“ segir Unnur.


Tengdar fréttir

Arion segir upp 100 manns

Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×