Leikmenn Þórs frá Þorlákshöfn komu mörgum á óvart í fyrstu umferð Domino´s deildar karla í körfubolta á nýju ári þegar þeir unnu glæsilegan en óvæntan sigur á toppliði Tindastóls.
Tapið þýddi að Tindastólsliðið missti toppsætið til Njarðvíkur sem unnu kvöldið eftir nágranna sína í Keflavík. Mótherjar Þórsara í kvöld eru einmitt umræddir Njarðvíkingar.
Þórsarar fá því tækifæri til að vinna annan leikinn í röð á móti toppliði deildarinnar og jafnvel sjá til þess að nýtt lið komist á toppinn.
Þórsliðið hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu undir stjórn Baldurs Ragnarssonar en þrír sigrar í röð hafa komið liðinu upp í sjötta sæti deildarinnar. Þór hefur auk þess að vinna Tindastól unnið lið Hauka og Vals.
Tindastólsliðið var búið að vinna sex leiki í röð áður það mætti í Þorlákshöfn á sunnudagskvöldið og nú mæta Þórsarar liði sem hefur unnið átta leiki í röð.
Leikurinn fer fram í Ljónagryjunni í Njarðvík þar sem heimamenn hafa unnið alla sjö deildar- og bikarleiki sína í vetur. Ekki auðveldasta verkefnið fyrir lið.
Njarðvík hefur ekki tapað í deildinni í 77 daga eða síðan liðið tapaði fyrir Tindastóls á Króknum 25. október síðastliðinn. Njarðvík vantar „aðeins“ að vinna Þór, Val og Tindastól og þá hefur liðið náð að vinna öll lið Domino´s deildarinnar í einum rykk.
Njarðvíkingar hafa líka unnið Þórsliðið tvisvar á tímabilinu og fóru báðir þeir leikir fram í Þorlákhöfn. Njarðvík vann fyrst 90-80 sigur í deildinni snemma í október og svo 99-76 bikarsigur um miðjan desember.
Alls fara fjórir leikir fram í þrettándu umferð Domino´s deildar karla í kvöld en þeir hefjast allir klukkan 19.15 og eru:
Stjarnan - Breiðablik í Mathús Garðabæjar höllinni í Garðarbæ
Grindavík - Skallagrímur í Mustad-höllinni í Grindavík
Njarðvík - Þór Þ. í Ljónagryfjunni í Njarðvík
Tindastóll - Valur í Síkinu á Sauðarkróki
Leikur Grindavíkur og Skallagríms er sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.05.
Fella Þórsarar aftur topplið deildarinnar í kvöld?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Enskar í úrslit eftir dramatík
Fótbolti

„Við viljum meira“
Fótbolti

Uppbótartíminn: „Þetta tók níu sekúndur“
Íslenski boltinn

KR í markmannsleit eftir meiðsli
Íslenski boltinn

Palace áfrýjar og vill spila í Evrópudeildinni
Enski boltinn



