Herdís Pála Pálsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Deloitte.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að um sé að ræða nýja stöðu sem innifeli nokkra lykilþætti í innra starfi félagsins, þar með talið mannauðsmál, upplýsingatækni og þjónustu.
„Herdís Pála tekur sæti í framkvæmdaráði Deloitte í stað Hörpu Þorláksdóttur sem lét nýverið af störfum sem mannauðsstjóri þess.
Herdís Pála hefur undanfarin 6 ár starfað hjá RB sem framkvæmdastjóri mannauðs- og markaðsmála. Áður starfaði Herdís hjá BYR sem framkvæmdastjóri þróunar- og rekstrarsviðs og þar áður hjá Íslandsbanka.
Herdís er með MBA próf, með áherslu á mannauðsstjórnun, frá University of New Haven í Bandaríkjunum og B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands,“ segir í tilkynningunni.

