Eins og frægt er þá var brotist inn í síma Noru Mörk síðasta haust og hakkararnir komust yfir viðkvæmar myndir af einni bestu handboltakonu í heimi. Nora lét ekki kúga sig og sagði heiminum frá þessu í nóvember.
Það var þó bara byrjunin á mjög erfiðum tíma fyrir þessa 26 ára gömlu stelpu sem hefur þegar skorað meira en 560 mörk fyrir norska landsliðið og unnið til sex verðlauna með norska kvennalandsliðinu á stórmótum.
Nora sagði frá því á þriðjudaginn að norsku landsliðsmennirnir hafi dreift myndunum sín á milli en þeir eru langt frá því að vera þeir einu sem gerðu það innan handboltasamfélagsins.
Danska blaðið BT segir frá því að myndirnar af Noru hafi þannig verið að ganga í búningsherbergjum danskra handboltaliða í tvo mánuði. Í gær var einnig sagt að myndirnar hafi verið að ganga innan norska unglingalandsliðsins í íshokkí.
BT afslører: Norsk stjernes nøgenbilleder er delt hos danske topklubber https://t.co/JBd97rWNBFpic.twitter.com/gQQVYVKpu0
— BT (@btdk) January 18, 2018
Forráðamenn danska handboltasambandsins sem BT náði tali af vegna málsins skora á handboltamenn landsins og aðra að hugsa sig tvisvar um og gera það rétta í þessu máli.
Faðir Noru Mörk líkti þessu máli við flóðbylgju og segir dóttur sína eiga mjög erfitt nú þegar fleiri og fleiri fréttir berast af útbreiðslu myndanna.
Nora Mörk hefur þegar kært fimmtán manns fyrir að dreifa myndunum og þeir eiga yfir höfði sér tveggja milljón króna sekt hver. Það er enginn vafi á því að það er ólöglegt að dreifa persónulegum myndum án leyfis og hver sem það gerir getur átt von á stórri sekt.