Körfubolti

Eiginlega engar líkur á að Kendall Lamont spili með Val í kvöld

Kendall Lamont Anthony er búinn að vera frábær fyrir Val.
Kendall Lamont Anthony er búinn að vera frábær fyrir Val. vísir/bára
Valsmenn verða líklega án bandaríska leikstjórnanda síns Kendall Lamont þegar þeir heimsækja Þórsara í Þorlákshöfn í Domino´s deild karla í körfubolta í kvöld.

Kendall Lamont meiddist í leiknum á móti Keflavík á dögunum og Ágúst Björgvinsson, þjálfari Valsliðsins, segir eiginlega engar líkur á því að hann geti spilað leikinn í kvöld.

Kendall Lamont hefur ekkert æft með liði sínu í vikunni og Valsmenn óttast líka að með því að spila í kvöld gæti Kendall gert illt verra og verið miklu lengra frá.

Kendall Lamont er bæði stigahæsti og stoðsendingahæsti leikmaður Domino´s deildarinnar en hann hefur skorað 30,6 stig og gefið 9,0 stoðsendingar að meðaltali í fyrstu sjö leikjum sínum með Hlíðarendaliðinu.

Valsmenn hafa unnið þrjá leiki í röð þar sem Kendall Lamont hefur skorað meira en þrjátíu stig og munu sakna hans mikið fari svo að hann geti ekki spilað.

Kendall Lamont skoraði 48 stig í sigrinum á Skallagrími, 33 stig í sigrinum á Blikum og 34 stig í sigrinum á Stjörnunni. Hann var aftur á móti aðeins með 17 stig í tapleiknum á móti Keflavík.

Leikur Þórs og Vals er gríðarlega mikilvægur í baráttunni í neðri hluta deildarinnar en Þórsarar geta náð fjögurra stiga forskot á Valsmenn með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×