Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Akureyri 28-34 | Frábærir Akureyringar skelltu Selfyssingum

Arnar Helgi Magnússon í Hleðsluhöllinni á Selfossi skrifar
Arnar Þór var frábær í marki Akureyringa
Arnar Þór var frábær í marki Akureyringa
Það sveif jólaandi yfir Hleðsluhöllinni í dag þegar Selfoss tók á móti Akureyri í síðasta leik beggja liða árið 2018. Fyrir leikinn sátu Selfyssingar í toppsæti deildarinnar en Akureyringar á hinum enda töflunnar, í neðsta sæti.



Jólaandi stuðningsmanna Selfyssinga breyttist fljótt í eitthvað allt annað á upphafsmínútunum þegar Akureyringar mættu mun sterkari til leiks.



Eftir tæplega tíu mínútna leik höfðu gestirnir náð þriggja marka forskoti, staðan 3-6 þegar Patrekur Jóhannesson tók leikhlé. Selfyssinga héldu uppteknum hætti eftir leikhléið og voru með gjörsamlega allt á hælunum.



Útilína liðsins, Haukur Þrastarson, Elvar Örn Jónsson og Árni Steinn náðu sér engan veginn á strik í leiknum en Arnar Þór Fylkisson markvörður Akureyri átti stórleik í markinu, átján skot varin í leiknum,. Selfyssingar reyndu allt hvað þeir gátu í fyrri hálfleik en ekkert gekk, liðið prufaði mismunandi sóknar og varnarútfærslur en það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins að lið Akureyrar vildu sigurinn mikið mun meir.



Gestirnir leiddu með sex mörkum í hálfleik, 13-19. Sölvi Ólafsson og Pawel Kiepulski, markverðir Selfyssinga vilja sennilega gleyma þessum leik sem allra fyrst en þeir vörðu ekki bolta í fyrri hálfleik.



Sverre Jakobsson sagði í viðtali eftir leikinn að hann hafi rætt um við sína menn í hálfleik að Selfyssingar myndu ná áhlaupi í síðari hálfleik. Sverre var ekki að ljúga neinu að sínum mönnum en Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.



Akureyringar bognuðu en brotnuðu ekki, stigu upp og náðu sama forskoti aftur. Pawel lét aðeins finna fyrir sér á lokamínútunum en það kom því miður alltof seint fyrir Selfyssinga. Mest náði gestirnir níu marka forystu í leiknum. Lokatölur 28-34, Akureyri í vil sem lyftir sér upp úr fallsæti með sigrinum.



Algjörlega afleidd frammistaða hjá Selfyssingum í dag og sú versta undir stjórn Patreks, að hans sögn. Það verður þó ekkert tekið af Akureyringum sem mættu hingað með kassan út, hökuna upp og völtuðu yfir Selfyssinga.



Afhverju vann Akureyri?



Það var ljóst frá fyrstu mínútu að leikmenn Selfyssinga héldu að þetta væri bara enn einn dagurinn á skrifstofunni. Annað kom á daginn þegar leikmenn Akureyrar voru betri á öllum endum vallarins.



Akureyri var að finna mikið af opnunum í vörn Selfyssinga sem leit út eins og gata sigti, það fór allt í gegn. Gestirnir náðu að standast áhlaup Selfyssinga sem kom í byrjun síðari hálfleiks, frábær sóknarleikur. Varnarleikurinn var ekkert síðri en Selfyssingar komust ekki lönd né strönd.



Hverjir stóðu uppúr?



Arnar Þór Fylkisson, markvörður Akureyri var maður leiksins í dag. Hann var með átján varða bolta og rúmlega 40% markvörslu.



Ihor Kopyshynskyi var magnaður í liði gestanna í dag. Skoraði ellefu mörk úr tólf skottilraunum, 92% skotnýting. Hafþór Vignisson kom þar á eftir með sjö mörk. Það er í raun ósanngjarnt að taka einhverja nokkra útúr þessu frábæra liði sem að Akureyri var í dag. Það skiluðu allir sínu.



Hvað gekk illa?



Það gekk illa hjá Selfyssingum að spila handbolta í dag, sama hvort að það var í sókn eða vörn. Það gekk ekkert upp hjá liðinu á meðan að það small allt hjá Akureyri. Selfyssingar fengu litla sem enga markvörslu, slakir varnarlega og það vantaði bara allan vilja í þá.



Hvað gerist næst?



Eins og áður segir var þetta síðasti leikur beggja liða fyrir kærkomið jóla- og landsleikjahlé. Olísdeildin fer ekki aftur af stað fyrr en í byrjun febrúar.



Eins og kunnugt er þjálfar Patrekur Jóhannesson austurríska landsliðið í handbolta og verður hann því á faraldsfæti í janúar. Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson voru báðir í 28-manna æfingahópi fyrir HM sem að Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari valdi á dögunum. Það er þó ekki endanlegur hópur.



Patrekur: Versta frammistaðan undir minni stjórn



Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga var hundfúll eftir stórt tap sinna manna gegn Akureyri í Olísdeildinni í dag.



Lið Akureyrar kom mun sterkara til leiks og upp skar að lokum 28-34 sigur í Hleðsluhöllinni á Selfossi.



„Við vorum bara skelfilega lélegir. Við klikkum á mörgum færum í fyrri hálfleik og útilínan er með skelfilega nýtingu. Hann var að verja allt frá okkur, á meðan við vorum með einhverja tvo bolta þá var hann með fimmtán í fyrri hálfleik.“



„Við komum okkur bara í vandræði og þá lítur þetta út eins og þetta sé andlaust hjá okkur. Hrikalega lélegur leikur af okkar hálfu, kom mér svolítið á óvart.“



Patrekur segir að það gæti verið að hans menn hafi vanmetið lið Akureyrar í dag.



„Gæti verið. Við erum búnir að vera í það miklum hörkuleikjum. Vinnum Gróttu með einu marki, hörkuleikir við ÍR, Fram og Stjörnuna. Þetta gæti verið gott dæmi um vanmat.“



Selfyssingar reyndu hvað þeir gátu, skiptu nokkrum sinnum um leikskipulag en lið Akureyrar sá við þessu öllu saman.



„Já. Þeir spiluðu betur en við og voru betri á öllum sviðum leiksins. Þeir fórnuðu sér virkilega í þetta og áttu skilið að vinna. Mér fannst þetta aðeins var að ganga í restina, við fórum í sjö á sex, skoruðum nokkur mörk þar. Við prófuðum allt en ef að hausinn er ekki rétt stilltur þá lendiru í vandræðum.“



Patrekur tekur undir það að þetta hafi verið lélegasta frammistaða Selfoss undir hans stjórn.



„Jú, ég held að það sé alveg rétt hjá þér. Ég hef aldrei séð liðið spila jafn illa og í dag. Ég hef alveg séð leiki sem að erum ekki góðir. Ég held að þetta sé meira í hausnum á mönnum. Hvað á maður að segja? Þegar hann fer að verja frá okkur þá fara menn að efast um sjálfa sig.“



Sverre: Það fer eftir því hvað konan gefur mér í jólagjöf



„Maður er bara ógeðslega stoltur af strákunum sínum,“ voru fyrstu orð Sverre Jacobsen, þjálfarar Akureyrar efti stórsigur liðsins gegn Selfyssingum í dag.



Lokatölur urðu 28-34, Akureyri í vil og sýndu þeir frábæra frammistöðu í Hleðsluhöllinni.



„Þetta var bara svakalega flott frammistaða og ég held að það hafi allir sem voru hérna í húsinu séð það, við áttum þetta bara skilið miðað við þær sextíu mínútur sem að við buðum hérna uppá í dag.“



„Það voru allir tilbúnir og það var sama hvaða mörk við fengum á okkur, við bara leystum þetta.“



Akureyringar voru fyrir leikinn í neðsta sæti og hafa sárasjaldan sýnt jafn góðar frammistöður og í kvöld.



„Þetta er kannski ein besta frammistaðan sem að við höfum boðið uppá svona frammistöður í vetur, ég skal taka undir það.“



Gestirnir frá Akureyri voru með yfirhöndina nánast frá fyrstu mínútu og leyfðu Selfyssingum ekki að spila sig inn í leikinn.



„Já, það er alveg rétt. Við lögðum upp með ákveðna þætti sem að virkuðu, það var ánægjulegt. Við getum rætt þessa þætti inní klefa og hrósað okkur.



Akureyringar leiddu með sex mörkum í hálfleik og Sverre segir að hans menn hafi rætt það að Selfyssingar væru þekktir fyrir það að koma til baka í leikjum.



„Það voru nákvæmlega þessi orð sem að þú komst með, ég veit ekki hvort að þú hafir verið í klefanum. Við vissum alveg að þeir myndu gera áhlaup og þá kannski sérstaklega á fyrstu tíu mínútunum í síðari hálfleik. Við tókum síðan bara leikhlé þegar þetta var komið niður í tvö og núlstilltum okkur aðeins. Strákarnir bara svöruðu og það var til fyrirmyndar.“



Að lokum var Sverre spurður að því hvort að þetta væri besta jólagjöfin ár.



„Tja, það fer eftir því hvað konan ætlar að gefa mér. Þetta er allavega næst besta,“ sagði Sverre léttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira