Skoðun

Loksins ný landgræðslulög

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Ný heildarlög um landgræðslu voru samþykkt á Alþingi í seinustu viku og marka tímamót. Þau leysa af hólmi löggjöf sem var orðin 53 ára gömul og margoft hafði verið reynt að endurskoða. Ánægjulegt er að breytingar hafi loksins náð í gegn.

Í nýju lögunum er tryggð aukin vernd og sjálfbær nýting jarðvegs og gróðurs og endurheimt vistkerfa. Þetta er afar mikilvægt. Sjálfbær landnýting er leiðarstef í lögunum og til að stuðla að henni er kveðið á um reglulegt mat á ástandi lands og árangri landgræðslustarfsins, að sett skuli viðmið um sjálfbæra landnýtingu og að unnin skuli áætlun um úrbætur þar sem landnýting er ekki sjálfbær. Ákvörðun ítölu í beitiland skal nú taka mið af leiðbeiningum og viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu sem sett eru samkvæmt landgræðslulögum. Einnig er í nýju lögunum ákvæði um að sérstaka aðgát skuli sýna til að lágmarka rask á gróðri og jarðvegi og að leitast skuli við að bæta fyrir það með endurheimt sambærilegra vistkerfa.

Aukin þátttaka almennings

Verulegar breytingar hafa orðið á löggjöf og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála síðan fyrri lögin voru sett árið 1965, ekki síst hvað varðar aðkomu og þátttöku almennings og er þeim nýju ætlað að mæta því. Ný lög um náttúruvernd, skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum hafa tekið gildi, auk þess sem Ísland hefur gerst aðili að alþjóðasamningum eins og Loftslagssáttmálanum, samningi um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og samningi um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Nýju lögin hafa að markmiði að auka þátttöku almennings og hagsmunaaðila í landgræðslustarfinu. Þau kveða m.a. á um gerð landgræðsluáætlunar og svæðisáætlana sem unnar verða í víðtæku samráði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrstu lög um landgræðslu – sem þá hét sandgræðsla – voru sett árið 1907. Lögin sem nú hafa verið samþykkt marka vatnaskil í afar mikilvægum málaflokki.




Skoðun

Sjá meira


×