Kynningar

Fátækustu borgarbörnin verr sett en börn í sveitum

Heimsljós kynnir
Ljósmynd frá Kampala
Ljósmynd frá Kampala gunnisal

Milljónir fátækustu barnanna sem alast upp í borgum eru líklegri til að deyja ung borið saman við börn í dreifbýli. Fátækustu borgarbörnin eru líka verr sett þegar kemur að menntamálum og þau eru ólíklegri til að ljúka grunnskólanámi en jafnaldrar þeirra til sveita. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem kom út í dag.

Í skýrslunni er sjónum beint að því sem skýrsluhöfundar kalla þversögnina í þéttbýlinu. Hún felst í því að almennt er staða barna í borgarsamfélögum betri en staða barna til sveita vegna þess að þar eru  hærri tekjur, betri grunnviðir og betri þjónusta, en þegar horft er sérstaklega á stöðu barna í fátækrahverfum stórborga blasir við önnur mynd og ljótari.

Skýrslan byggir á greiningu í 77 lágtekju- og millitekjuríkjum með tíu mælikvörðum sem snúa að velferð barna. Niðurstaðan er sú að í flestum löndum vegnar borgarbörnum betur en börnum í strjálbýli – að jafnaði. En meðaltalið segir ekki alla söguna og dylur ótrúlegan ójöfnuð innan borgarsamfélagsins, segir í skýrslunni.

„Fyrir foreldra í dreifbýli virðast ástæðurnar fyrir því að börnin flytji til borganna augljósar: þar eru fleiri atvinnutækifæri, betri heilsugæsla og meiri menntunarmöguleikar,“ segir Laurence Chandy yfirmaður rannsókna hjá UNICEF. „En borgarbörn njóta ekki öll kosta borgarinnar og við getum sýnt fram á að milljónir barna í borgum eru verr sett en jafnaldrar í sveitum.“

Mynd úr skýrslunni. UNICEF

Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru 4,3 milljónir barna í borgum líklegri til að deyja fyrir fimm ára aldur en jafnaldrar þeirra í dreifbýli. Einnig sýnir skýrslan að 13,4 milljónir barna í borgum eru ólíklegri til að ljúka grunnskólanámi en jafnaldrar þeirra til sveita.

Talið er að allt að einn milljarður manna búi í fátækrahverfum, þar af hundruð milljóna barna. Stækkun borga er mest í Afríku og Asíu. Talið er að árið 2030 verði sjö af tíu stærstu borgum heims í þessum tveimur álfum. Þar fjölgar íbúum borga um 3,7% á ári.

Íslensk stjórnvöld fjármagna að hluta verkefni á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar í þremur fátækrahverfum Kampala, höfuðborgar Úganda. Þar hafa innlend félagasamtök, YUDEL, starfað um langt árabil með sárafátækum unglingum og rekið verkmenntamiðstöðvar á ýmsum sviðum, bæði til sjálfseflingar, en ekki síður til þess að ungmennin öðlist nægilega hæfni til að verða gjaldgeng á vinnumarkaði og geti séð sér farborða.

UNICEF er ein af áherslustofnunum Íslands í fjölþjóða þróunarsamvinnu. Framlög utanríkisráðuneytisins til UNICEF á síðasta ári námu rúmum 354 milljónum króna til fjölmargra verkefna eins og sjá má á yfirliti á vef ráðuneytisins.


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.