Körfubolti

Fimm æfingar í fjórum bæjarfélögum: Ríkisvaldið þarf að vakna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. vísir/eyþór
Íslensku landsliðin í handbolta og körfubolta þurfa nýjan heimavöll. Laugardalshöllin er ekki lengur í stakk búin til þess að þjóna sem heimavöllur liðanna.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, kallaði eftir því að ríkisstjórnin færi að taka til aðgerða á æfingu kvennalandsliðsins í vikunni.

„Hér erum við stödd í nýjum húsakynnum Fjölnis. Í gær vorum við í Ólafssal í Hafnarfirði og í kvöld er það Smárinn í Kópavogi. Á morgun er það aftur Hafnarfjörður og svo á fimmtudaginn Garðabær. Áður en við fáum í raun æfingu á okkar eigin heimavelli þá þurfum við að taka landsliðsæfingar á fjórum stöðum í fjórum bæjarfélögum,“ sagði Hannes. Kvennalandsliðið spilar tvo leiki í undankeppni EuroBasket í Laugardalshöll á næstu dögum.

„Númer eitt, tvö og þrjú er þetta ríkisvaldið. Ríkisvaldið og ráðherra íþróttamála þarf alvarlega að fara að taka þetta mál upp svo eitthvað verði gert.“

„Ef við ætlum að ná árangri í íþróttum þá þurfum við góða aðstöðu og við þurfum góða heimavelli. Við höfum það ekki í dag.“

„Ráðamenn verða að vakna. Þeir þurfa að vakna núna en ekki eftir tíu ár. Íþróttahreyfingin í heild sinni þarf að taka sig saman og ræða þetta mál, taka þetta á hærra plan og hætta að pukrast með þetta í einhverjum hornum.“

„Við þurfum að eignast okkar heimavöll. Okkar þjóðarleikvang,“ sagði Hannes.

Í sumar felldi EHF, evrópska handknattleikssambandið, úr gildi undanþágu sem íþróttahöllin í Þórshöfn í Færeyjum var á svo færeyska landsliðið þarf nú að spila utan landssteinanna.

Laugardalshöllin er á slíkri undanþágu og mun hún á endanum renna út.

„Við höfum óskað eftir viðræðum við ríki og borg um nýjan þjóðarleikvang en ekki fengið mikil viðbrögð. Í vor stóð til að stofna samráðshóp ríkis, borgar, HSÍ og KKÍ en það hefur ekki verið skipað í hann enn,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, þegar málið kom upp í ágúst.






Tengdar fréttir

Þolinmæðin mun á endanum bresta

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, er vakinn og sofinn yfir framgangi körfuboltans hér á landi. Álitaefnin sem valda honum mestu hugarangri þessa dagana eru eins og svo oft áður fjárhagsstaða sambandsins og málefni Laugardalshallarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×