Körfubolti

Spennandi að taka þátt í að sækja ártal á vegginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helena Sverrisdóttir skrifar undir samninginn undir vökulu auga Gríms Atlasonar
úr stjórn körfuknattleiksdeildar Vals. Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals
(lengst til vinstri), er hæstánægður með liðsstyrkinn.
Helena Sverrisdóttir skrifar undir samninginn undir vökulu auga Gríms Atlasonar úr stjórn körfuknattleiksdeildar Vals. Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals (lengst til vinstri), er hæstánægður með liðsstyrkinn. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Landslagið í Domino's-deild kvenna í körfubolta breyttist í gær þegar Helena Sverrisdóttir samdi við Val, silfurliðið frá síðasta tímabili. Helena fékk sig lausa frá ungverska liðinu Ceglédi fyrr í vikunni, er flutt heim og komin í Val þar sem hún hittir fyrir systur sína, Guðbjörgu.

„Ég var byrjuð að huga að því í síðustu viku að losa mig undan samningi úti. Ég spjallaði við Guggu systur og spurði hvort hún hefði áhuga á að fá mig ef það væri í boði. Hugurinn leitaði eiginlega alltaf hingað, ekki að fara strax aftur heim í Hauka,“ sagði Helena í samtali við Fréttablaðið í gær.

Helena er uppalin á Ásvöllum og Haukar eru eina liðið sem hún hefur spilað með á Íslandi. Hún segir að það hafi vissulega komið til greina að fara aftur í Hauka en Valur hafi orðið fyrir valinu.

„Haukar voru líka sterkir þarna en mér fannst það sem er í gangi hjá Val spennandi. Fyrir mig snerist þetta líka um að fara ekki aftur í þægindarammann á Ásvöllum heldur koma hingað og spila með nýjum liðsfélögum fyrir nýjan þjálfara; á stað þar sem mér líður eins og ég þurfi að sanna mig. Það er áskorun,“ sagði Helena sem varð Íslandsmeistari með Haukum í fyrra.

Hún kveðst spennt fyrir því að spila með systur sinni. „Mér finnst það ótrúlega spennandi. Gugga er frábær leikmaður en hefur kannski ekki alltaf fundið stöðugleikann. Við erum að mörgu leyti líkar sem körfuboltakonur og ég tel að við getum hjálpað hvor annarri.“

Valur hefur ekki unnið stóran titil í kvennaflokki en því á að breyta.

„Þegar þú labbar inn á Hlíðarenda er veggur með titlum félagsins og ártölunum. Það er tómt hjá kvennakörfunni og mér finnst spennandi að taka þátt í að sækja ártal á vegginn. Að sjálfsögðu verður það markmiðið,“ sagði Helena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×