Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - KA 27-27 │Dramatík á Selfossi

Arnar Helgi Magnússon skrifar
Vísir/Andri Marinó
KA gerði góða ferð á Selfoss í kvöld þegar þeir mættu í Hleðsluhöllina og mættu þar heimamönnum. Fyrir leikinn var bjuggust menn við þægilegum sigri Selfyssinga en liðin að berjast á sitthvorum enda töflunnar, annað kom á daginn.

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu leikinn mun betur og höfðu yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn. Tarik Kasu­movic var frábær í liði KA í fyrri hálfleik og gekk Selfyssingum illa að stöðva hann. Frábær varnarleikur KA uppskar þriggja marka forystu í hálfleik. Selfyssingar komu sterkari inn í síðari hálfleikinn og náðu að saxa á forskot gestanna.

Selfyssingar náðu undirtökunum um miðjan síðari hálfeik og náðu mest þriggja marka forskoti. Gestirnir neituðu að gefast upp og komu alltaf til baka.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Selfyssingar leiddu 27-26 þegar 25 sekúndur voru aftur. Gestirnir brunuðu í sókn og Tarik Kasumovic jafnaði metin, 27-27. Pawel kastaði boltanum fram völlinn, á Elvar Örn sem lét vaða frá miðjunni enda einungis fjórar sekúndur eftir. Leikmaður KA kastaði sér fyrir boltann við litla hrifningu heimamanna. 


Dómararnir tóku sér tíma í að taka ákvörðunina en Selfyssingar kölluðu eftir vítakasti og rauðu spjaldi á leikmann KA. Dómararnir tóku ákvörðun, ekkert víti, ekkert rautt spjald og jafntefli niðurstaða eftir hádramatískar lokamínútur.

Afhverju var jafntefli?

Fyrir leikinn hefðu gestirnir sennilega tekið jafnteflið en úr því sem komið var hljóta þeir að vera svekktir að hafa ekki náð að klára leikinn. Það sem uppskar jafnteflið var þvílík barátta KA-manna. Selfyssingar hafa verið frægir fyrir það að snúa leikjum sér í hag í síðari hálfleik og ganga frá andstæðingnum. 


Stefán Árnason og hans menn tóku það ekki í mál, það kostaði hinsvegar blóð, svita og tár. Jafntefli sanngjörn niðurstaðan en Selfyssingar langt frá sínu besta í dag.

Hverjir stóðu uppúr í kvöld?

Áki Egilsnes og Tarik Kasumovic voru frábærir hjá gestunum og stigu upp þegar mest á reyndi. Áki var öruggur á vítalínunni á meðan varnarmenn Selfyssinga áttu í miklum erfiðleikum með Tarik fyrir utan.

Árni Steinn var sprækastur heimamanna með átta mörk.  Haukur Þrastarson skoraði mikilvæg mörk á mikilvægum tímapunktum en tók líka slæmar ákvarðanir sem kostuðu Selfyssinga tapaðan bolta.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Selfyssingum að slíta gestina frá sér í síðari hálfleik. Þeir hafa verið þekktir fyrir það að klára leikina sannfærandi þegar þeir hafa náð undirtökunum. Það gerðist ekki í kvöld og klárlega eitthvað sem að Patti þarf að leggjast yfir. 


Selfyssingar fengu dræma markvörslu frá Pawel og Sölva í kvöld en þeir voru ekki að taka boltana þegar mest á reyndi. Það gerði hinsvegar Jovan Kukobat. Ekki það að hann hafi varið mikið fleiri bolta en þá var hann að verja á mikilvægum tímapunktum.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar mæta Haukum í Hafnarfirði í næstu umferð áður í sannkölluðum toppslag. KA mætir einmitt líka Haukum á fimmtudagskvöldið í Coca-Cola bikarkeppninni. Það hefði því verið gráupplagt fyrir Gunnar Magnússon þjálfara Hauka að vera í stúkunni í kvöld og slá tvær flugur í einu höggi.

vísir/getty
Patrekur: Stefán veit ekkert um þetta og ekki ég heldur

„Nei nei. Ég viðurkenni það alveg að í hálfleik þá talaði ég aðeins hærra en vanalega, en ekkert eftir leik. Við erum svekktir að hafa ekki lokað þessum leik þegar við vorum þremur mörkum yfir í restina. Miðað við þá stöðu hefði ég viljað klára leikinn.”

„Ef við lítum á fyrri hálfleikinn þá voru KA-menn ótrúlega flottir varnarlega. Við vorum ekki að vinna 1 á 1 stöðuna og vorum með mikið pláss til þess að sækja á þá, okkur tókst ekki að nýta okkur það.”

„Í síðari hálfleik erum við að spila svipað upplegg en liðið mætti betur út í þann hálfleik. Menn voru bara ekki alveg klárir í upphafi leiks og það er dýrt.”

En afhverju heldur Patrekur að sínir menn hafi ekki verið klárir í upphafi leiks?

„Ég veit það ekki, ég þarf að skoða það. Við vorum búnir að undirbúa okkur mjög vel fyrir þennan leik og fórum vel yfir allt. Það er eitthvað sem ég þarf að kíkja á, en ég tek ekkert af KA.“

„Þeir voru bara miklu sterkari en við í fyrri hálfleik, við vorum góðir í seinni og síðan endar þetta í jafntefli. Sanngjarnt eða ekki, ég veit það ekki.”

Selfyssingar eru þekktir fyrir það að snúa leikjum sér í hag í síðari hálfleik og keyra yfir andstæðinginn en Patti sínir leikmenn hafi þurft að vinna fyrir því í kvöld, en það gerðist ekki.

„Nei nei, þannig er þetta stundum í íþróttum. Maður þarf að vinna fyrir því ef það á að gerast. Það var mikið mikil barátta í KA og kannski áttu þeir bara stigið skilið. Við héldum kannski að þetta yrði eins og vanalega, að við myndum vinna.”

Lokasekúndurnar í leiknum voru nokkuð dramatískar en Selfyssingar tóku hraða miðju þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum. Elvar ætlaði þá að skjóta frá miðju en leikmaður KA kastaði sér fyrir boltann.

Einhverjir kölluðu eftir því að Selfyssingar hafi átt að fá vítakast og leikmaður KA rautt spjald. Dómararnir tóku sér nokkrar mínútur í það að ákveða sig, niðurstaðan varð ekkert víti og jafntefli niðurstaðan.

Stefán Árnason segir að ákvörðun dómaranna hafi verið rétt og tekur Patti í sama streng.

„Já ég held það. Stefán veit ekkert um þetta, og ekki ég heldur. Þetta er bara hluti af leiknum en við kíkjum bara á þetta, ég veit ekkert hvort þetta hafi verið réttur dómur og hann ekki heldur.”

Stefán: Gaman að mæta sínum gömlu félögum, mér þykir vænt um þá

Stefán Árnason þjálfari KA segir að dómarapar leiksins hafi tekið rétta ákvörðun undir lok leiksins í kvöld. Leiknum lauk með 29-29 jafntefli en Selfyssingar tóku miðju þegar fjórar sekúndur voru eftir. Svona lýsir Stefán þessum loka andartökum:

„Við skorum og þeir eru fljótir að taka miðjuna og hann reynir að skora. Mér fannst minn maður klárlega vera kominn þrjá metra frá, þetta var ekki eins og reglan segir að hann hafi verið að reyna að hindra eða tefja.”


,,Hann bara stendur bara og er að reyna að verja skotið. Eins og þetta lítur út frá mér þá var hann í löglegri fjarlægð en maður þarf bara að sjá þetta aftur. Ég held að dómararnir hafi gert rétt að þessu sinni.”


„Ég er virkilega stoltur. Við spilum frábæran leik og komum á einn sterkasta heimavöll landsins á móti besta lið landsins um þessar mundir. Við erum yfir í hálfleik en svo eins og við mátti búast komu Selfyssingar með áhlaup.”

„Það sem við töluðum um í hálfleik er að við ætluðum alltaf að halda áfram. Þegar staðan var orðin 25-22 fyrir Selfyssinga hefðu kannski margir hætt en við neituðum að gefast upp, það er eitt af okkar séreinkennum. Við gefumst aldrei upp.”


Það eru ekki mörg lið sem mæta í Hleðsluhöllina og fá eitthvað út úr leiknum. 


„Nei, klárlega ekki. Við getum verið gífurlega ánægðir með það en það er mjög erfitt að spila hérna. Við fengum þetta hugarfar sem við höfum verið með á heimavelli, nú loksins kom það á útivelli.”

Stefán var að mæta sínum gamla liði í dag en hann stýrði Selfyssingum upp í Olís-deildina árið 2016. Hann segir að móttökurnar hafi verið góðar.

„Það er gaman að koma á Selfoss, hérna átti ég mörg góð ár. Ég held að ég hafi þjálfað alla þessa stráka í Selfossliðinu. Mér þykir vænt um þessa stráka, þeir eru frábærir.

Haukur: Spiluðum eins og aumingjar

„Við spiluðum eins og aumingjar í fyrri hálfleik,” sagði Haukur Þrastarson leikmaður Selfyssinga eftir jafnteflið gegn KA í kvöld.

„Við vorum bara á 50% hraða allan leikinn og það kemur bara í bakið á okkur. "


Haukur segir að Selfyssingar hafi ekki vanmetið KA.

„Nei alls ekki. Ég bara veit hreinlega ekki hvað gerðist. Við erum búnir að æfa vel alla vikuna en síðan mættum við hérna í dag eins og algjörir aumingjar og það kom svo sannarlega í bakið á okkur.”


„Við náðum í seinni hálfleik að koma okkur í góða stöðu og vinna okkur inn í leikinn. Síðan tekst okkur að klúðra því með heimskulegum ákvörðunum, meðal annars frá mér. Við getum bara sjálfum okkur um kennt.”

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.