Handbolti

Fann að fáir þekktu mann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigvaldi lék sína fyrstu keppnisleiki með íslenska landsliðinu í lok síðasta mánaðar.
Sigvaldi lék sína fyrstu keppnisleiki með íslenska landsliðinu í lok síðasta mánaðar. Vísir/Daníel
Sigvaldi Guðjónsson hefur látið til sín taka með Elverum í Meistaradeild Evrópu og er í hópi markahæstu leikmanna keppninnar. Hann hefur skorað 33 mörk eða 5,5 mörk að meðaltali í leik.

Sigvaldi segir að möguleikinn á að spila í Meistaradeildinni hafi verið stærsta ástæðan fyrir því að hann gekk í raðir Elverum í sumar, í stað þess að vera áfram hjá Aarhus í Danmörku.

„Ég myndi segja að þetta hafi verið skref upp á við, að spila í toppliði í Noregi og í Meistaradeildinni í staðinn fyrir að spila með liði um miðja deild í Danmörku. Þetta er aðeins stærri gluggi,“ sagði Sigvaldi í samtali við Fréttablaðið í gær.

Möguleikinn til staðar

Elverum tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í D-riðli Meistaradeildarinnar en hefur nú unnið fjóra leiki í röð og á góða möguleika á að komast í 16-liða úrslit. Og þangað stefna Sigvaldi og félagar.

„Fjögur lið berjast um að komast áfram. Við verðum að halda áfram að safna stigum. Næst er erfiður útileikur gegn Wisla Plock. Það væri frábært að ná í stig gegn þeim,“ sagði Sigvaldi sem skoraði níu mörk í fyrri leiknum gegn pólska liðinu. Það er það mesta sem hann hefur skorað í einum leik í Meistaradeildinni.

Meiri hraði í Noregi

Sigvaldi segir dönsku deildina sterkari en þá norsku, allavega hvað einstaka leikmenn varðar.

„Taktískt er þetta mjög svipað. Hraðinn í Noregi er meiri en sú danska sterkari. Það er fleiri stjörnur þar,“ sagði Sigvaldi.

Frammistaða hans á tímabilinu fór ekki fram hjá Guðmundi Guðmundssyni sem valdi hann í landsliðið fyrir leikina gegn Grikklandi og Tyrklandi í síðasta mánuði. Það voru fyrstu keppnisleikir Sigvalda með landsliðinu.

Hann kom við sögu í báðum leikjunum og skoraði samtals fjögur mörk; þrjú gegn Grikkjum og eitt gegn Tyrkjum.

„Þetta kom aðeins á óvart. Ég hef ekkert verið í hópnum upp á síðkastið. Það var frábært að fá símtalið frá Gumma og sérstaklega að spila heimaleik,“ sagði Sigvaldi sem fluttist til Danmerkur á unglingsaldri. „Það eru kannski ekki margir sem þekkja mig á Íslandi og maður fann það þegar maður var valinn í landsliðshópinn,“ bætti hornamaðurinn við.

Draumurinn um HM

Heimsmeistaramótið í Danmörku og Þýskalandi er handan við hornið og þangað vill Sigvaldi eðlilega komast. „Það er markmiðið en ég þarf að standa mig. Það væri algjör draumur að fara á stórmót með Íslandi,“ sagði Sigvaldi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×