Fótbolti

Ronaldinho átti bara 790 krónur inn á bankareikningnum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho á FIFA hátíðinni í september.
Ronaldinho á FIFA hátíðinni í september. Vísir/Getty
Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Ronaldinho er ekki í alltof góðum málum eftir að brasilískur dómstóll tók af honum vegabréfið vegna skulda.

Ronaldinho hefur ekki grett 270 milljón króna skuld sekt sem hann og bróðir hans hlutu vegna brota á náttuverndarlögum.  

Ronaldinho og bróðir hans Roberto Assis byggðu hús og bryggju í Porto Alegre án allra leyfa og fengu þessa stóru sekt fyrir vikið.

Það hefur hinsvegar gengið mjög illa að innheimta sektina og dómari Rio Grande do Sul úrskurðaði að vegabréfið yrði tekið af bræðrunum. Dómstóllinn reyndi að finna peninga inn á bankareikningi Ronaldinho en það gekk ekki vel.

Ronaldinho var nefnilega með jafnvirði aðeins rúmra 790 íslenskra króna á reikningi sínum sem er ótrúlegt fyrir mann sem hefur þénað mikið á knattspyrnuferli sínum. Metro segir frá.

Ronaldinho var besti knattspyrnumaður heims og aðalmaðurinn hjá Barcelona áður en að Lionel Messi kom til sögunnar á Nývangi en Brasilíumaðurinn féll hratt niður metorðastigann á síðustu árum ferilsins.

Barcelona gerði Ronaldinho að sendiherra félagsins í fyrra en hann er bæði með brasilíkst og spænskt vegabréf.

Ronaldinho lagði endanlega skóna á hilluna í janúar síðastliðnum en hann hefur ekki spilað fótbolta síðan hann lék með Fluminense í Brasilíu í júlí 2015.

Ronaldinho var tvisvar kosinn besti knattspyrnumaður heims (2004 og 2005) en hann vann HM með Brasilíu (2002) og bæði spænsku deildina og Meistaradeildina með Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×