Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - KR 66-73 │KR á toppnum

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Leikur Breiðabliks og KR er bæði í beinni útsendingu og lýsingu blaðamanns hér á Vísi.
Leikur Breiðabliks og KR er bæði í beinni útsendingu og lýsingu blaðamanns hér á Vísi. Fréttablaðið/Ernir
Blikar fengu KR-inga í heimsókn í 5.umferð Dominos deild kvenna í kvöld. Fyrsti leikhluti fór mjög hægt af stað hvað varðar stigaskorun en voru bæði lið mikið að þreifa fyrir sér og prófa sig áfram.

Varnir beggja liða stóðu vel og voru þau að neyða hvort annað í erfið skot. Blikakonur fóru að tapa boltanum svolítið undir lok leikhlutans og voru að fá á sig hraðaupphlaup og stig í andlitið. KR-ingar leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta 8-18

 

Liðin fóru að skora aðeins meira í öðrum leikhluta og voru að finna sig aðeins betur í sóknarleiknum. KR liðið var að spila frábæra vörn í fyrri hálfleik og náðu svo að tengja sóknina með því.

Þær enduðu annan leikhlutann á leikhléi og fáranlega flottri körfu sem Benni teiknaði upp, höfðu 3 sekúndur til að koam boltanum strandanna á milli og tókst það á frábæran máta! Orla O’Reilly var að spila frábærlega í fyrri hálfleik og var eð 13 stig fyrir KR-inganna.

 

Blikarnir komu sterkar og vel peppaðar út í seinni hálfleikinn. Voru að ná að tengja sóknir saman og spiluðu fínasta varnarleik.

KR-ingarnir hins vegar frekar óheppnar, voru að spila fínan sóknarbolta og náðu nokkrum sinnum að sundurspila Blikanna en þær voru bara ekki að klára sóknirnar sínar. Heimakonur lentu í veseni hérna í 3.leikhlutanum en Kelly Farris fékk sína 4.villu og þurfti að fá sér sæti á bekknum.

 

Leikurinn var þræljafn í 4.leikhluta og skiptust liðin á að skora körfur. Blikarnir reyndu að koma til baka í lokin og gerðu heiðarlega tilraun en þær voru komnar of langt á eftir til þess að geta náð KR-ingum sem sigldu þessum leik heim.





Af hverju vann KR? 

KR spilaði fanta góða vörn og stóðu sig mjög vel hérna í kvöld. Liðið var að spila skemmtilegan sóknarbolta líka þar sem boltinn rúllaði mjög vel á milli manna og náðu þær oft að sundurspila Blikanna.

 

Hverjar stóðu upp úr?

Kiana Johnson, Orla O’Reilly og Perla Jóhannsdóttir spiluðu feiknarvel í KR liðinu og skoruðu mest í sínu liði. Voru mjög líflegar inná vellinum og gaman að fylgjast með þeim. 

 

Blikamegin var það Björk Gunnarsdóttir sem átti virkilega góðan leik hér í kvöld, setti niður nokkra þrista og var að spila flottan körfubolta. 

 

Hvað gekk illa? 

Tapaðir boltar hjá Blikunum voru of margir og þær voru að missa KR-inga í auðveld hraðaupphlaup. Alltof mikið af gefins stigum. 

 

Hvað gerist næst? 

KR fær Skallagrím í heimsókn í DHL-höllina en Blikakonur fá annan heimaleik á móti Keflavík

Breiðablik-KR 66-73 (8-18, 23-24, 13-12, 22-19)

Breiðablik: Björk Gunnarsdóttir 16, Kelly Farris 14/13 fráköst, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 12/14 fráköst, Sóllilja Bjarnadóttir 10/7 stoðsendingar, Ragnheiður Björk Eiríksdóttir 9, Erna Freydís Traustadóttir 5. 

 

KR: Kiana Johnson 26/13 fráköst, Orla O’Reilly 19/5 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 16, Unnur Tara Jónsdóttir 4, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 4, Ástrós Lena Ægisdóttir 2/4 stoðsendingar, Vilma Kesanen 2/5 stoðsendingar. 

 

Benedikt: Við verðum að fara þetta á varnarleiknum

„Ofboðslega ánægður að vinna þennan leik, þetta var tricky leikur fyrir okkur að vera að spila við lið sem við áttum að vinna samkvæmt töflunni,“ sagði ánægður Benedikt Guðmundsson þjálfari KR eftir sterkan sigur í Smáranum. 

 

KR-ingar spiluðu frábæra vörn hérna í kvöld og vinnst leikurinn svolítið þar. Benedikt var gríðarlega ánægður með varnarframmistöðuna og tók sérstaklega þar fram Ástrósu Ægisdóttur.

 

„Já við verðum að fara þetta á varnarleiknum, við erum ekki með einhverja landsliðsmenn eða eitthvað svoleiðis. Við eigum svo okkar góðu og slæmu daga sóknarlega en við förum þetta á vörninni.“

 

„Þó að mér sé illa við að taka leikmenn út hjá mér þá verð ég að taka út Ástrósu Ægisdóttur, frábær varnarmaður sem er að dekka erlendu leikmennina í hinum liðunum og er að skila þessu alveg dúndurvel.“

 

Margrét Sturlaugsdóttir: Náðum ekki að stoppa hraðaupphlaupin þeirra

“Þetta er klárt svekkelsi. Það var talað um þetta í hálfleik að stoppa hraðaupphlaupin þeirra en nákvæmlega það sama gerist í seinni hálfleik, fáum á okkur 22 stig úr hraðaupphlaupum“ sagði svekkt Margrét, þjálfari Breiðabliks, eftir leikinn í kvöld“

 

„Við þurfum að fara aðeins betur eftir leikplani, þegar við erum að kalla kerfin og láta þær fá þau í hendurnar. Sum leikkerfi rúlluðu mjög vel en svo voru þær mjög lengi að koma sér í stöður í öðrum sem skemmdi fyrir”

 

„Við erum náttúrulega bara með einn útlending á móti þremur útlendingum í dag og við eigum bara erfitt með það. Ég sé framfarir og það er það sem skiptir mig máli en enn og aftur þá þurfa framfarirnar að koma aðeins hraðar.“

 

Orla O’Reilly: Við erum enn að finna taktinn

„Við munum berjast í allan vetur til að fá þessa sigra og gera allt sem við getum til að fá eins marga og völ er á. Við erum ennþá að finna taktinn og verðum öflugar þegar allt smellur.“ sagði Orla O’Reilly eftir sigur sinna kvenna í kvöld.

 

Aðspurð út í liðsframmistöðuna hérna í kvöld svaraði hún:

 

„Við erum að fá meira framlag frá öllum með hverjum einasta leik og ungu stelpurnar eru að spila frábæra vörn og hjálpa okkur. Í hverjum einasta leik er einhvern nýr leikmaður að stíga upp og vera frábær sem er gríðarlega jákvætt.“

 

„Mér finnst íslenska deildin rosalega skemmtileg, ég þurfti að aðlagast mjög hratt enda er spilað mjög hratt hérna og mikið hlaupið. Við höfum leyfi til að skjóta snemma sem er mjög nýtt fyrir mér og hef ég mjög gaman af því.“

 

Björk Gunnarsdóttir: Ógeðslega svekkjandi að vinna ekki þennan leik

„Ógeðslega svekkjandi að vinna ekki þennan leik. Við byrjuðum ekki nógu vel og misstum þær í of mörg hraðaupphlaup“

 

Blikarnir hafa lent snemma undir í næstum öllum leikjum sínum í deildinni. Aðspurð út í það svaraði hún:

 

„Já ég held að það sé bara einbeiting, en mér finnst við alltaf vera að bæta okkur í hverjum leik. Það er nóg eftir af tímabilinu og við þurfum að vera með fullkomna einbeitingu allar 40 mínúturnar til að fara að vinna einhverja leiki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira