Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Njarðvík 95-73 │Stólarnir völtuðu yfir Njarðvík

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Pétur Rúnar Birgisson
Pétur Rúnar Birgisson Vísir/bára
Tindastóll vann öruggan sigur á Njarðvík á Sauðárkróki í uppgjöri tveggja af heitustu liðunum í upphafi tímabilsins í Domino's deild karla í kvöld.

Njarðvík byrjaði leikinn betur og komst í 2-7. Þá tóku heimamenn í Tindastól hins vegar við sér og komust á 14-0 kafla. Eftir það var ekki aftur snúið. Tindastóll vann fyrsta leikhlutann 27-15.

Njarðvíkingar náðu ekki að setja niður nema tvö stig á fyrstu fimm mínútum annars leikhluta á meðan Tindastóll skoraði að vild með Pétur Rúnar Birgisson fremstan flokki. Staðan var orðin 43-17 áður en Njarðvíkingar fundu lausnir og settu nokkrar körfur á stuttum tíma. Þegar flautað var til hálfeiks var staðan orðin 55-31 og leikurinn í raun úti.

Þriðji leikhlutinn var þokkalega jafn, miðað við það sem áður hafði farið í leiknum, en Stólarnir unnu hann þó með fimm stigum. Þá gátu Stólarnir slakað á og leyft Njarðvíkingum að laga stöðuna í fjórða leikhluta. Lokatölur urðu 95-73 og er Tindastóll enn taplaust á toppi deildarinnar.

Afhverju vann Tindastóll?

Heimamenn voru miklu sterkara liðið í fyrri hálfleik. Urald King fór á kostum í vörninni og Pétur Rúnar Birgisson var sjóðheitur í sókninni. Það var vitað fyrir tímabilið að Tindastóll væri með frábært lið og þeir sönnuðu það í dag, Njarðvík hefur byrjað tímabilið vel en það var mikill getumunur á liðunum í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Pétur Rúnar fór hamförum í fyrri hálfleik og lauk hann leik með 29 stig. Þá var hann með sjö stoðsendingar og fiskaði fimm villur. Urald King sýndi það enn og aftur hvað hann er frábær íþróttamaður og átti stórleik í vörninni.

Í liði Njarðvíkur var Mario Matasovic stigahæstur með 16 stig. Logi Gunnarsson kom næstur með 13.

Hvað gekk illa? 

Njarðvík gekk mjög illa að koma boltanum í körfuna í fyrri hálfleik. Þeir bæði áttu í erfiðleikum með að finna lausnir á vörn Tindastóls og svo voru skotin ekki að detta, þeir voru aðeins með 35 prósenta skotnýtingu í leiknum, þar af 25 prósenta nýtingu í þriggja stiga skotum.

Hvað gerist næst?

Njarðvík mætir Haukum í Ljónagryfjunni í Njarðvík á fimmtudag og Tindastóll sækir KR heim í stórleik næstu umferðar á föstudaginn 2. nóvember.

Isreal Martin er þjálfari Tindastóls.vísir/bára
Isreal: Pétur Rúnar á hrósið skilið í kvöld

„Ég er að sjálfsögðu ánægður. Við sáum mikinn karakter frá upphafi og vorum einbeittir á leikskipulagið,“ sagði Isreal Martin, þjálfari Tindastóls.

„Við vorum með tvo leikmenn í pressu allan völlinn og reyndum að hægja á sókn þeirra og takmarka fráköstin. Við vorum með yfirhöndina í fráköstum með Urald og Danero og þess vegna náðum við upp forskoti.“

„Við mættum liði með góðan þjálfara sem er vel mannað en í dag vorum við betri.“

Pétur Rúnar Birgisson var frábær með 29 stig. Hversu mikilvægur er hann fyrir þetta lið? „Ég vill ekki tala bara um einn leikmann en hann á það skilið í kvöld.“

„Hann leiddi liðið frá upphafi til enda, tók mikla ábyrgð og var mjög agressívur bæði í vörn og sókn. Hann var frábær.“

„En við erum með aðra leikmenn sem sýna kannski ekki virði sitt í tölfræðinni. Viðar og Hannes í pressunni, Dino mjög agressívur í hjálpinni. Liðssigur sem ég er mjög ánægður með og við þurfum að halda svona áfram.“

Tindastóll mætir KR í næsta leik í uppgjöri liðanna sem börðust um titilinn í fyrra.

„Nú þurfum við að skoða hvernig leikmönnunum líður og fylgjast svo með leik KR. Ég veit ekki hvort þeir eru með nýja leikmenn en það er alltaf erfitt að spila á móti þeim.“

„Það má ekki gleyma því að þeir eru fimmfaldir Íslandsmeistarar og það er ástæða fyrir því. Við reynum að vera tilbúnir og virðum alla andstæðinga,“ sagði Isreal Martin.

Einar Árni Jóhannsson.vísir/getty
Einar Árni: Hrun í anda 2007

„Úff, eigum við tíma í þetta?“ spurði Einar Árni Jóhannsson þegar hann var spurður hvað hafi farið úrskeiðis hjá hans mönnum í kvöld. „Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja.“

„Fyrstu tvær mínúturnar voru fínar, við hlupum sóknarleik og vorum að verjast ágætlega. En eftir það var bara hrun í anda 2007. Algjört hrun og rúmlega skellum á botninum.“

„Spilum líklega 18 lélegustu mínútur sem ég hef tekið þátt í á mínum ferli. Það er svo margt sem hægt er að tína til. Einbeiting, þor, kraftur, boltahindrunavarnarleikur, frákstabarátta, ég veit ekki hvar ég á að tæma þetta.“

Hvað getur hann gert til þess að bæta leik Njarðvíkur? „Ég held að það byrji bara í hugarfari.“

„Mér fannst við ótrúlega litlir í okkur. Við vorum 15 sem að féllum allir á prófinu, það er bara þannig.“

„Við vitum að við erum að spila á sterkum velli á Sauðárkróki en það þarf ekkert að koma á óvart. Það sem truflaði mig mikið er að við erum engin fyrirstaða í varnarleiknum í fyrri hálfleik og erum í raun búnir að kasta þessum leik frá okkur eftir fyrstu tuttugu mínúturnar,“ sagði Einar Árni Jóhannsson.

Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik í kvöld.Vísir/Bára
Pétur: Frábært frá upphafi til enda

„Þetta var frábært frá byrjun til enda. Við slökuðum aðeins á í lokin varnarlega en geggjaður liðssigur,“ sagði Pétur Rúnar Birgisson sem átti stórleik í liði Tindastóls.

„Við ætlum að halda áfram á þessari braut, sýna liðs-varnarleik og liðsvinnu.“

Urald King er á förum frá Stólunum af persónulegum ástæðum um miðjan nóvember. Pétur sagði það mikið áfall en þó kom aldrei til greina að hindra för hans.

„Fjölskyldan hefur forgang og við ætlum ekki að stoppa hann í að fara út,“ sagði Pétur.

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur.fréttablaðið/ernir
Logi: Þetta var hræðilegt

„Ég hef komið hingað oft og maður hefur unnið og tapað til skiptis. Við til dæmis unnum hér í fyrra og þá mættum við þeim af mikilli hörku frá fyrstu mínútu. Ef þú gerir það ekki og lætur þá ýta þér út úr öllum þínum aðgerðum eins og við gerðum í kvöld þá er bara ekki von á góðu,“ sagði Logi Gunnarsson.

„Við lentum illa í því í kvöld. Þeir voru áræðnir, eins og þeir eru vanir að spila hérna heima, og það átti ekkert að koma okkur á óvart.“

„Fyrst og fremst hugarfarið þegar þú lendir í smá mótlæti,“ var svar Loga við því hvað þeir þurfi að laga. „Að fara ekki í einhverjar felur og kólna niður eins og við gerðum í kvöld.“

„Þegar þér er ýtt út úr aðgerðunum þínum þá verður allt bara ömurlegt og þetta var hræðilegt í kvöld.“

Njarðvík mætir Haukum í næsta leik og sagði Logi þá þurfa að vinna í sínum málum fyrir þann leik.

„Við ætlum að mæta til æfinga á laugardaginn og vinna í þessum hlutum sem fóru illa í kvöld. En það á ekki að þurfa að líta svona illa út og það gerði í fyrri hálfleik,“ sagði Logi Gunnarsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira