Skoðun

Dugleysið

Björt Ólafsdóttir skrifar
Fyrir nokkrum dögum kvað úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál upp athyglisverðan úrskurð sem laut að því að starfsleyfi tveggja fyrirtækja í laxeldi á Vestfjörðum voru felld úr gildi. Margir hafa eðlilega mikla skoðun á þessu en ráðlegt væri að þeir sem opinberlega fjalla um málið læsu fyrst úrskurðinn og færu rétt með.Forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar eru afar yfirgripsmiklar og lesturinn sláandi. Í fréttum hefur komið fram sú að því er hefur virst eina ástæða ógildinganna, að stofnanir umhverfisráðuneytisins hafi ekki með nægjanlegum hætti fjallað um aðra kosti í sinni málsmeðferð en laxeldi í sjó, og þar með ekki farið að lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Það eitt og sér er auðvitað ámælisvert, og brýtur gegn lögum, en er þó fjarri því eina ástæðan sem tilgreind er fyrir synjun leyfanna.Fyrir það fyrsta rekur nefndin hvernig meiriháttar annmarkar hafi verið á allri málsmeðferð hvað varðar laxeldi í sjó af hendi íslenskra stjórnvalda í áraraðir. Samkvæmt 2. málslið 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands geta stjórnvöld ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Hún sé ekki til staðar og þannig brjóti leyfisveitingarnar almennt gegn stjórnarskránni.Í öðru lagi tiltekur nefndin að Umhverfisstofnun hafi ekki tekið afstöðu eins og henni bar lögum samkvæmt til fyrirliggjandi mats á hættu á erfðamengun villtra laxa vegna laxeldis, mengunar í fjörðum (sem í þessu tilfelli er á við óhreinsað skolp frá 110 þúsund manna byggð að því er fram kemur í matsgögnum) og sjúkdóma í eldisfiski á við laxalús.Í þriðja lagi en ekki í síðasta lagi fjallar nefndin um þá staðreynd sem sé einnig ein og sér óhjákvæmilega umsvifalaus ógilding starfsleyfa, að fjarlægð á milli eldissvæða ótengdra aðila í þessum máli er ekki samkvæmt reglugerðum.Þetta eru staðreyndir málsins er varða dóm úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála.Bara þegar það hentar mérHitt er svo dugleysið í stjórnmálamönnunum sem tala um vernd lífríkis og náttúru á tyllidögum. Það er sorglegt og dýrkeypt fyrir landsmenn hvað veður skipast hér alltaf fljótt í lofti og það er auðvitað argasta hræsni að vinna við það að setja öðrum lög en fara bara eftir þeim eftir eigin hentugleika líkt og nú á að gera.Hvar eru þeir í pólitík sem eiga enn einhvern snefil af sannfæringu og hugsjón fyrir því meginstefi í náttúruvernd sem og verndun fjölbreytileika lífríkis að verndunin sjálf í eðli sínu sé það mikilvæga? Ekki fyrir peninga hvort sem það séu vasar Norðmanna eða veiðiréttarhafar laxveiðiáa. Heldur út af því að við sem erum hér í stutta stund höfum ekkert leyfi til þess að skemma hana til frambúðar. Þessi rök um ábyrgð kynslóðanna hafa reyndar þegar á reynir ekki fleytt náttúruverndinni langt á þessum síðustu tímum ólíkt því þegar Sigríður í Brattholti barðist fyrir verndun Gullfoss. En þá eru líka hæg heimatökin að benda á bullið í viðskiptamódelinu fyrir íslenska skattgreiðendur sem verða af tugum milljarða sem þeir norsku fá fyrir leyfin og þau takmörkuðu gæði sem firðirnir eru.Lærum einhvern tímann af fortíðinni. Fyrir nokkrum árum þótti stjórnmálamönnum Vinstri grænna olíuleit og kísilmálmver góðar og grænar hugmyndir ekki síst til þess að styðja við byggð í landinu. Hættum að láta eins og við vitum ekki að opið sjókvíaeldi sé mengandi. Og hættum að láta eins og störfin þar verði mörg til frambúðar mitt í því að stjórnmálamenn tala sig hása um fjórðu iðnbyltinguna og sjálfvirknivæðingu starfa sem verða þar auðvitað eins og í öðrum sjávarútvegi.Ég skil vel reiði Vestfirðinga sem hafa setið eftir. Pólitíkusar hafa ekki sinnt því að skapa almenn skilyrði til þess að fjölbreytt samfélag megi þar dafna. Það er gert með hringtengingu rafmagns, vegöngum og styrkingu vegakerfis og ljósleiðara. Þetta er hlutverk stjórnmálanna. Ef ráðamenn samtímans hafa ekki þá sýn að bjóða fólkinu í landinu hvort sem það býr á landsbyggðinni eða í borg að fá að búa heima hjá sér og hafa nóg að starfa án þess í leiðinni að eyðileggja lífríki og náttúru, þá á það fólk í stjórnmálunum að finna sér eitthvað annað að gera.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.