Skoðun
Davíð Þorláksson.

Börn eða braggi?

Davíð Þorláksson skrifar

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn leggja til að börn í Reykjavík fái sama greitt með sér óháð því hvort leik- eða grunnskólinn sem þau eru í sé sjálfstæður eða borgarrekinn. Í dag greiðir borgin lögbundið lágmark sem er 70-75% á meðan Garðabær t.d. greiðir 100%.

Um 4,9% grunnskólabarna í Reykjavík eru í sjálfstæðum skólum, en 12% í Danmörku og 15% í Svíþjóð.

Rannsóknir OECD sýna að námsárangur nemenda er betri og auðveldara er að fá hæfa kennara í krefjandi bekki þar sem stjórnendur hafa meira svigrúm til að semja um ábyrgð, vinnuskilyrði og laun kennara. Slíkt svigrúm er mun meira í sjálfstæðum skólum. Lágt hlutfall barna í sjálfstæðum skólum á Íslandi gæti verið ein skýringin á lökum árangri grunnskólans. Meirihlutinn fann þessari tillögu ýmislegt til foráttu, meðal annars að kostnaðurinn yrði, miðað við óbreyttan fjölda, um 290 milljónir króna í grunnskólum og 110 milljónir í leikskólum, alls 400 milljónir. Á sama borgarstjórnarfundi var rætt um bragga nokkurn sem borgin lét gera upp fyrir svipaða fjárhæð, 415 milljónir.

Það er of algengt að lögbundin verkefni sveitarfélaga sitji á hakanum á meðan fé er dælt í gæluverkefni. Leik- og grunnskólar eru auðvitað meðal lögbundinna verkefna en endurbætur á bröggum ekki. Tillögunni var vísað til borgarráðs. Það er þekkt trikk þegar meirihlutinn vill losna við mál án þess að þurfa að taka umræðu. Ég mæli alltént ekki með að þau rúmlega 700 börn sem eru í sjálfstæðum skólum í Reykjavík haldi niðri í sér andanum á meðan þau bíða eftir þessu sjálfsagða réttlætismáli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.