Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Tindastóll 73-93 │Tindastóll of stór biti fyrir Valsmenn

Árni Jóhannsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson
Brynjar Þór Björnsson Vísir/Bára

Valur tók á móti Tindastól í Origo höllinni á Hlíðarenda fyrr í kvöld í leik sem var partur af annarri umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Leikurinn var góð skemmtun í fyrri hálfleik þar sem Tindastóll hafði undirtökin en Valsmenn áttu sína spretti til að halda leiknum þannig lagað í járnum. Í hálfleik var staðan 42-49 fyrir gestina en snemma í seinni hálfleik var ljóst í hvað stefndi en Stólarnir kafsigldu heimamenn og uppskáru að lokum 20 stiga sigur sem hefði getað verið mikið stærri. 73-93 lokatölur og Tindastóll lítur mjög vel út.

Afhverju vann Tindastóll?
Þeir eru einfaldlega með betra körfuboltalið en Valsmenn. Það hjálpaði þó til að Valsmenn hittu illa og þá sérstaklega úr þriggja stiga skotum ásamt því að vera miklir klaufar þegar á reyndi. Valsmenn fengu þó nokkuð mikið af tækifærum til að jafna leikinn en misnotuðu þau tækifæri alltaf og fengu sprett í andlitið frá gestunum þannig að forysta þeirra var alltaf þægileg.

Eins og áður segir var það góður seinni hálfleikur sem gerði út um leikinn en varnarleikur gestanna var mjög góður og leyfðu þeir Val t.d. ekki að skora nema 10 stig í þriðja leikhluta. Þá var leiknum eiginlega lokið sem og varð raunin.Danero Thomas vísir/bára

Bestu menn vallarins?
Urald King þurfti ekki að hafa mikið fyrir hlutunum í kvöld fannst manni. Hann skilað 24 stigum og átta fráköstum fyrir Stólana. Brynjar Þór Björnsson átti einni skínandi leik. Hann skoraði 12 stig, öll úr þriggja stiga skotum, ásamt því að finna sína menn 11 sinnum með stoðsendingum. Þá fengu Stólarnir framlög úr ansi mörgum áttum og átti leiðheildin og breidd þeirra sinn þátt í þessum sigri.

Hjá Val var Oddur Rúnar Kristjánsson bestur en skoraði 14 stig en Aleks Simenov skoraði 21 stig þó fyrir sína menn en bróðurpartur þeirra kom þegar leikurinn var í raun búinn.

Hvað gekk illa?
Það gekk mjög lítið illa hjá Tindastól verður að segjast en ef eitthvað var þá var það að slíta sig frá Valsmönnum í fyrri hálfleik. 

Valsmenn hittu mjög illa eins og áður hefur komið fram og hitti t.a.m. Austin Bracey ekki nema úr einu þriggja stiga skoti af átta og munar um minna fyrir Valsmenn. Þá átti Ragar Nathanaelsson erfiðan leik undir körfunni en hann náði nokkrum sóknarfráköstum en náði ekki að nýta það sem skildi.

Hvað næst?
Valsmenn fara í heimsókn á Suðurnesin og etja kappi við Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni og verður við ramman reip að draga og ólíklegt að fyrsti sigur þeirra komi í næsta leik.

Tindastóll fær Hauka í heimsókn og verður að segjast að ef allt er eftir bókinni þá verða þeir komnir með þrjá sigurleiki í þremur tilraunum á sama tíma í næstu viku.

Valur-Tindastóll 73-93 (21-24, 21-25, 10-20, 21-24)

Valur:
Aleks Simeonov 21/8 fráköst, Miles Wright 16/8 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 14/5 fráköst, Ragnar Agust Nathanaelsson 11/15 fráköst, Austin Magnus Bracey 3, Gunnar Ingi Harðarson 2, Snjólfur Björnsson 2, Illugi Steingrímsson 2, Benedikt Blöndal 2.

Tindastóll: Urald King 24/8 fráköst, Dino Butorac 18/4 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 12/11 stoðsendingar, Danero Thomas 11/9 fráköst/6 stolnir, Pétur Rúnar Birgisson 10/5 fráköst, Viðar Ágústsson 8/4 fráköst, Hannes Ingi Másson 6/6 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 4.

Viðar Ágústsson vísir/bára

Israel Martin: Varnarleikurinn að skila sigrinum í kvöld
„Seinni hálfleikurinn var mjög góður eins og þú segir. Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik en það er mjög erfitt að spila við Val á útivelli. Þeir eru mjög árásagjarnir í vörninni og það er mjög erfitt að spila á móti þessari vörn svona snemma á tímabilinu“, sagði þjálfari Tindastóls um hvað hafði skilið liðin að eftir sigur liðsins hans á Val í kvöld.

„Með því að halda alltaf áfram í gegnum leikinn þá fundum við leið til að komast í gegnum þessa vörn og svo var varnarleikurinn mjög þéttur hjá okkur. Til dæmis þá skoruðu þeir ekki nema 10 stig í þriðja leikhluta og var það mjög mikilvægt á leiðinni í átt að sigrinum. Svo fengum við mikið framlag frá bekknum í kvöld og verð ég að nefna þá sérstaklega. Það var seinasta hamarshöggið í þessum sigri í kvöld að fá þetta mikla framlag af bekknum“.

Israel var spurður að því hvar hann sæi Tindastól fyrir sér á tímabilinu og hvort að liðið hans væri enn í vinnslu.

„Þetta er ekki nema önnur umferðin og erum við enn þá að reyna að finna sjálfvirknina í vörninni. Við erum að vinna í grunnatriðunum og erum að reyna að kynnast hverjum öðrum. Það eru fjórir nýjir leikmenn og það tekur tíma að hrista hópinn saman. Þeir eru samt mjög rólegir þessir leikmenn mínir, þeim finnst gaman á æfingum og eru allir sigurvegarar. Þá erum við með mjög góða blöndu af ungum og gömlum mönnum og erum við að reyna að vinna saman, trúa á að við getum gert eitthvað í vetur og vinna saman í áttina að því“.

Að lokum var Israel spurður að því hvort það væri eitthvað sem þyrfti að laga fyrir næsta leik.

„Akkúrat núna þá þurfum við að vinna í því að halda skipulagi í sókninni. Við erum gjarnir á það að vilja flýta okkur þegar við erum komnir með þægilega forystu og það tekur sinn tíma. Mig langar að sjá meiri aga í sóknarleiknum okkar og þá sérstaklega þegar við þurfum að stilla upp í sókninni. Það er eitt af því sem mig langar að laga í vetur og gera betur. Við erum í nokkuð góðu lagi varnarlega þó að við þyrftum að vinna aðeins í skiptingunum en það er sóknarleikurinn sem við þurfum að bæta mest. Ég er með góða leikmenn í höndunum sem vilja laga þessa hluti þannig að þetta er ekki erfitt fyrir mig“, sagði Israel og brosti að lokum.

Oddur Rúnar Kristjánsson vísir/bára

Ágúst S. Björgvinsson: Við þurfum að vera mjög þolinmóðir
Þjálfari Valsmanna var sammála blaðamanni í því að fyrri hálfleikurinn hjá hans mönnum hafi verið góður á köflum en sagði að döpur hittni sinna manna hafi farið með leikinn fyrir Val.

„Fyrri hálfleikurinn var nokkuð góður hjá okkur og spiluðum á köflum mjög vel, fengum fullt af skotum en við hittum afleitlega. Austin [Bracey] sem er okkar besti skotmaður er að hitta einu af 10 skotum en það var ekki bara hann samt. Við fengum töluvert af opnum skotum og hefðum eiginlega átt að vera yfir í hálfleik en í seinni hálfleik þá herða þeir á okkur vörnina og við köstum boltanum allt of oft frá okkur og ætluðum þá að gera þetta einir og þá hrundi vörnin hjá okkur og þeir komust á lagið. Það er mjög erfitt við þá að eiga þegar það gerist og við þurfum að eiga toppleik til að eiga möguleika á því að vinna þetta lið“.

Valsmenn voru líka pínu klaufa á ögurstundu þegar möguleiki var á að jafna leikinn eða komast yfir og þá er erfitt að reyna að elta lið Tindastóls og hefur það væntanlega tekið mikla orku frá leikmönnum Vals.

„Já, Tindastóll er eitt best mannaðasta lið deildarinnar og við þurfum að spila mjög vel til að eiga séns í liðin í þessum styrkleikaflokki. Við spiluðum betur í kvöld heldur en seinast en spiluðum ekki nægilega vel til að eiga séns í Tindastól“.

Ágúst var spurður að því hvar liðið hans væri statt á þessum tímapunkti og hvað þyrfti að gerast fyrir næstu leiki.

„Fyrst og fremst þurfum við að vera mjög þolinmóðir. Við stilltum upp nánast óbreyttu liði tvö tímabil í röð en nú voru miklar breytingar á liðinu okkar og er ég jafnmikið að finna mig og leikmenn mínir. Við þurfum að vera þolinmóðir. Við eigum mjög erfitt prógram framundan og þurfum að mæta í þessa leiki og eins og ég sagði seinast þá þurfum við að líta á þessa leiki á móti toppliðunum eins og æfingaleiki. Við þurfum að eiga topp leik til að vinna þau og við þurfum að mæta í þessa leiki og reyna að vinna þá“.

Dino Butorac Vísir/bára

Brynjar Þór Björnsson: Hlakka til að upplifa körfuboltaveturinn á Króknum
„Í fyrsta lagi þá þurftum við að láta dómarana vera, við vorum fullmikið að pirra okkur á hlutum sem við stjórnum ekki“, sagði Brynjar Þór Björnsson leikmaður Tindastóls um hvað hafi verið talað um í hálfleik í búningsklefanum sem varð til þess að Tindastóll valtaði yfir Val í seinni hálfleik.

„Ég sjálfur og fleiri vorum að einblína á mistökin sem við vorum að gera og það er oft þannig að ef það koma neikvæðar hugsanir þá gerast neikvæðir hlutir. Við byrjuðum frekar rólega en þegar leið á þá fannst mér boltahreyfingin koma og við fundum opnu skotin og þegar það gerist þá gerast hlutirnir. Mér fannst að varnarleikurinn hafa verið svo mjög flottur“.

Brynjar var spurður að því hvernig honum liði í hinum vínrauða búning en liðið er mjög vel mannað og því ætti að vera þægilegt að komast inn í hlutina.
„Það er mjög gaman og það eru frábærir erlendir leikmenn þarna og svo frábærir íslenskir leikmenn líka. Þeir vilja vinna og vilja gera þetta saman og eins og ég sagði einhversstaðar þá er enginn hálfviti í þessu liði. Boltahreyfingin er til staðar og varnarlega erum við að vinna saman og þegar hlutirnir eru þannig þá gerast góðir hlutir. Ég tel okkur eiga framtíðina fyrir okkur á þessu ári“.

Að lokum var Brynjar spurður útí í hvar hann teldi liðið vera statt á þessum tímapunkti.
„Það er engin spurning að það er nóg eftir í að við verðum fullmótað lið. Við eigum eftir að spila á móti Stjörnunni, Keflavík og Njarðvík og með fullri virðingu fyrir Val og Þór Þorlákshöfn þá er þeim spáð 9. og 10. sæti og eigum við að vinna þessi lið. Við eigum Hauka næst og eigum við að vinna þá líka. Svo spilum við við Njarðvík og það er fyrsta stóra prófið hjá okkur. Njarðvík er með frábæra leikmenn og góðan strúktúr og breiðan hóp þannig að ég er mjög spenntur fyrir framtíðinni og hlakka til að upplifa körfuboltaveturinn á Króknum“.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.