Viðskipti innlent

Mikið tap hjá Arion vegna Primera Air

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arion banki var skráður á markað um miðjan júní.
Arion banki var skráður á markað um miðjan júní. Fréttablaðið/Eyþór
Arion banki hefur sent frá sér afkomuviðvörun sem samkvæmt heimildum Vísis má rekja til gjaldþrots Primera Air. Arion banki reiknar með að tapa allt að 1,8 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi. Tilkynnt var í gær að flugfélagið myndi fara í greiðslustöðvun í dag en það var í miklum viðskiptum við bankann.

„Vegna ófyrirséðra atburða gerir Arion banki hf. ráð fyrir að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem mun hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi 2018. Áhrifin munu nema um 1,3 – 1,8 milljarði króna, að teknu tilliti til skatta, og mun hlutfall eiginfjárþáttar 1 lækka um u.þ.b. 0,2 prósentustig vegna þessa. Fyrirgreiðslurnar tengjast félagi sem hefur verið í viðskiptum við bankann og fyrirrennara hans um árabil,“ segir í tilkynningunni frá Arion banka.

Samkvæmt heimildum Vísis var Primera Air í miklum viðskiptum við Arion banka. Bankinn nafngreinir þó ekki félagið í tilkynningu sinni.

„Fjárhagsleg markmið bankans til næstu ára, t.a.m. varðandi þróun eiginfjár, haldast óbreytt. Að mati bankans er um einskiptisatburð að ræða sem hefur ekki áhrif á reglulegar tekjur og almennan rekstrarkostnað. Afkoma bankans fyrir þriðja ársfjórðung verður birt 31. október 2018.“

Hlutabréf í Arion banka eru skráð í kauphöllina í Svíþjóð. Bréf í bankanum lækkuðu hratt í morgun en lækkunin nemur nú um sex prósentum. Kauphöllin á Íslandi opnar fyrir viðskipti klukkan tíu.

Primera sagði í tilkynningu síðdegis í gær að greiðslustöðvunin væri mikil vonbrigði fyrir starfsfólk og viðskiptavini félagsins. Ástæðuna mætti rekja til vandamála með flugvélaflota félagsins.

„Í kjölfar þungbærra áfalla á síðsta ári, þegar félagið misst vél úr flota sínum vegna tæringar, sem hafði í för með sér viðbótarkostnað að upphæð 1,5 miljarðs króna.  Og á þessu ári, í kjölfar mikilla seinkana á afhendingu véla frá Airbus til félagsins, sem kostaði félagið yfir 2 milljarða króna á árinu, þá var ljóst að félagið gat ekki haldið áfram nema með verulegri hlutafjáraukningu, til að mæta tapi, sem og fyrir framtíðaruppbyggingu félagsins,“ sagði í yfirlýsingunni.

Fullyrt var að íslenskar ferðaskrifstofur sem hefðu nýtt þjónustu Primera Air væru búnar að flytja flugferðir sínar til annarra flugfélaga. Engin röskun ætti því að verða á ferðum á vegum þeirra þrátt fyrir að félagið stefndi í gjaldþrot.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×