Viðskipti innlent

Matvöruverslun aha vex um 70-80% milli mánaða

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Netverslun með matvörur jókst um 170% á milli ára. Framkvæmdastjóri aha sem er farinn að senda mat heim að dyrum með drónum segir aukninguna um 70% í hverjum mánuði. Þessi bylting á eftir að gjörbreyta störfum í verslunargeiranum segir framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu.

Netverslun á Íslandi vex nú tvöfalt hraðar en venjuleg verslun samkvæmt nýrri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Sú grein sem vex lang hraðast er netverslun með matvörur sem óx um 170% milli ára enda hafa fjölmargar nýjar matvörunetverslanir verið opnaðar á síðustu misserum.

Helgi Már Þórðarson, framkvæmdastjóri aha.
Framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu segir þessa þróun eiga eftir að hafa mikil áhrif á verslunarstörf. „Þessi skýrsla segir að verslunarstörf eins við þekkjum þau í dag, að þeim muni fækka. En það er ekki þar með sagt að þeim muni fækka sem vinni í verslun. Heldur eðli starfanna mun breytast," segir Andrés Magnússon og bætir við að störfin verði sérhæfðari með aukinni tækniþróun.

Í skýrslunni segir að ef höfð sé hliðsjón af varlegustu spám um framtíð verslunarstarfa í Noregi megi gera ráð fyrir að hlutfall vinnuafls í verslun fækki hér á landi úr 13% í 12% af heildarvinnuaflinu á næstu tólf árum. Það eru eru um tvö þúsund störf. Til dæmis er bent á sjálfsafgreiðslukassa sem krefjist færri starfsmanna en þurfi í hefðbundnar verslanir.

Ein þeirra verslana sem stendur fremst í netverslun með mat á Íslandi er aha. Framkvæmdastjóri segir vöxtinn mjög öran. „Ég held að vöxturinn í þessu hjá okkur sé svona 70-80% á milli mánaða. Við hófum fyrst að bjóða þetta fyrir tveimur árum með verslunum Iceland og Nettó kom í kjölafrið líka og í dag erum við með 10 veitingastaði sem við erum líka ða keyra út fyrir," segir Helgi Már Þórðarson, framkvæmdastjóri aha. 

Fyrirtækið nýtir í dag tvo dróna sem fara með allt að fimm matarsendingar á dag og stefnir á frekari vöxt. „Þó þetta sé mikil stækkun milli ára er þetta enn lítið brot af verslun á Íslandi. En þetta er eitthvað sem er komið til að vera," segir Helgi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×