Viðskipti innlent

Einhver störf færast úr landi

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Starfandi forstjóri Icelandair segir félagið ekki vera fara í stórkostlegar uppsagnir þó einhver störf verði mögulega flutt úr landi. Félagið leitar leiða til þess að draga úr kostnaði samhliða því að bæta leiðarkerfi félagsins og endurskoða sölu- og markaðsstarf þess.

Hlutabréf í Icelandair hækkuðu lítillega á mörkuðum í dag eftir mikið fall frá því félagið sendi frá sér síðan aðra afkomuviðvörun í röð á mánudag. Við opnun markaða á þriðjudag fór gengið vel niður fyrir 7 krónur á hlut og hafði ekki verið lægra frá 2012.

Tíðar breytingar í yfirstjórn Icelandair hafa verið umfjöllunarefni fjölmiðla undanfarin misseri og náði ákveðnu hámarki þegar að Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri, steig til hliðar í upphafi vikunnar. Því er slegið upp í Viðskiptablaðinu í dag að félagið ætli að færa starfsemi úr landi og draga úr kostnaði.

Starfandi forstjóri félagsins segir að ekki verði gerðar miklar stefnubreytingar á rekstri félagsins eins og staðan er í dag utan þess að leiðarkerfinu verður breytt að einhverju leiti á næsta ári og markaðs- og sölustarf verður allt tekið til endurskoðunar.

Öllum söluskrifstofum félagsins víða um heim var lokað á síðasta ári og reyndist sú ákvörðun dýrkeypt fyrir félagið. Bogi þó ekki von á að þær verði opnaðar aftur í þeirri mynd sem var.Bogi Nils Bogason, starfandi forstjóri IcelandairVísir/Jóhann K. Jóhannsson
„Við erum ekki að fara að opna eða leigja húsnæði í stórum stíl úti í heimi en við ætlum að vera sterkari þarna heldur en við höfum verið undanfarna mánuði eða síðustu tólf mánuði,“ segir Bogi Níls Bogason, starfandi forstjóri Icelandair.

Bogi segir að félagið þurfi sterkara sölunet og fókusinn settur á farþega sem skila hærri tekjum. Icelandair rekur dótturfélag í Eistlandi og á síðustu mánuðum hefur fleiri verkefnum verið úthlutað þangað en verkefnin snúa að bókhaldi og bakvinnslu. Þá eru fimmtíu og tvö stöðugildi hjá félaginu í Filipseyjum þar sem símasvörun er sinnt og ekki ólíklegt að stöðugildum þar verði fjölgað. Hann segir að félagið þurfi að vera á tánum og að kostnaðarhlutföll í rekstri hafa verið að breytast mikið.

„Ísland er dýrt í dag og það er ódýrara að gera marga hluti erlendis. Við erum komin upp að ákveðinni stærð og við getum þá nýtt okkur fyrirtæki út í heimi sem eru að vinna fyrir önnur flugfélög og erum þá að njóta samlegðar með þeim og það er það sem við erum skoða mjög alvarlega núna,“ segir Bogi.

Bogi segir að ekki sé hægt að segja til um það á þessu stigi hvort breytingunum fylgi uppsagnir.

„Það er aldrei hægt að lofa því hvort það verði uppsagnir eða hvort við þurfum að bæta við fólki en við erum ekki að fara í einhverjar stórkostlegar uppsagnir. Grunnurinn er mjög sterkur hjá okkur. Það eru ákveðnir veikleikar sem við þurfum að laga. Stærsti hluti starfseminnar gengur vel þannig að við erum ekki að fara í einhverjar stórkostlegar breytingar í starfseminni,“ segir Bogi.


Tengdar fréttir

Segir flugfélögin ekki of stór til að falla

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að íslensku flugfélögin séu ekki of stór til að falla og að þjóðarbúið sé í góðri stöðu til að mæta hvers konar áföllum. Hann telur þó mikilvægt að hrapa ekki að ályktunum í umræðu um stöðu flugfélaganna.

Þung skref að stíga til hliðar

Fráfarandi forstjóri Icelandair hefur fulla trú á félaginu til lengri tíma litið. Hann segir eðlilegt að í flugrekstri séu uppsveiflur og niðursveiflur.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.