Körfubolti

Þjálfari Íslandsmeistara KR farinn að þjálfa hjá Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson og Grímur Atlason, stjórnarformaður Vals.
Finnur Freyr Stefánsson og Grímur Atlason, stjórnarformaður Vals. Mynd/Valur

Finnur Freyr Stefánsson gerði karlalið KR að Íslandsmeisturum undanfarin fimm ár en nú hefur verið ráðinn sem þjálfari á barna- og unglingasviði Vals og tekur hann við einum allra efnilegasta flokki Vals.

Finnur Freyr kemur til með að þjálfa minnibolta átta og níu ára auk drengjaflokks Vals en honum til aðstoðar þar verður Þorgrímur Guðni Björnsson aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Valsmenn segja frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Drengjaflokki Vals gekk vel á síðustu leiktíð en liðið tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum Hauka í úrslitakeppninni í vor. 10. flokkurinn, sem skipar í dag yngra ár í drengjaflokki, vann Scania Cup í vor en það er óopinbert norðurlandamót félagsliða.

Finnur Freyr tekur við af Ágúst Björgvinsson sem hefur þjálfað hópinn síðastliðin fimm ár. Ágúst mun halda áfram þjálfun meistaraflokks félagsins ásamt því að vera yfirþjálfari yngriflokka félagsins.

Finnur Freyr á langan og farsælan feril sem þjálfari þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur þjálfað alla flokka hjá KR á þeim tíma sem hann var þar.

Síðustu fimm tímabil þjálfaði Finnur Freyr meistaraflokk karla og vann Íslandsmeistaratitilinn öll árin auk þess að leiða lið KR til tveggja bikarmeistaratitla og fjögurra deildarmeistaratitla.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.