Innlent

Fangi tekinn af lífi með lyfi sem Alvogen vill ekki í böðulshönd

Kjartan Kjartansson skrifar
Midazolam er notað til að deyfa sársauka áður en banvænu lyfi er sprautað í dauðadæmda fanga. Vísbendingar eru um að lyfið dugi ekki til að koma í veg fyrir þjáningar.
Midazolam er notað til að deyfa sársauka áður en banvænu lyfi er sprautað í dauðadæmda fanga. Vísbendingar eru um að lyfið dugi ekki til að koma í veg fyrir þjáningar. Vísir/Getty

Yfirvöld í Tennessee ríki tóku dæmdan morðingja af lífi í gærkvöldi með lyfjablöndu sem innihélt meðal annars róandi lyf sem lyfjafyrirtækið Alvogen framleiðir. Fyrirtækið hefur fengið lögbann á notkun lyfsins við aftökur í öðrum ríkjum Bandaríkjanna en veit ekki til þess að lyfið sem notað var í Tennessee hafi verið frá Alvogen.

Washington Post segir frá aftöku Billy Ray Irick sem var dæmdur fyrir að nauðga og myrða sjö ára gamla stúlku árið 1985. Hann er fyrsti fanginn sem tekinn er af lífi í Tennessee frá árinu 2009 og sá fyrsti sem tekinn er af lífi með blöndu þriggja lyfja, þar á meðal lyfinu Midazolam.

Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvogen höfðaði mál gegn Nevada-ríki í síðasta mánuði til að fá lögbann á að fangelsisyfirvöld þar notuðu lyfið við aftöku á fanga. Aftöku hans var frestað vegna lögbannskröfunnar. Forstjóri og stór hluti lykilstjórnenda samstæðu Alvogen eru Íslendingar.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen, segist ekki vita til þess að lyf frá Alvogen hafi verið notað í Tennessee og því hafi fyrirtækið ekki aðhafst vegna þess máls. Fleiri fyrirtæki framleiða midazolam.

Líkur á að lyfjablandan valdi óbærilegum þjáningum

Áhyggjur hafa komið fram um að midazolam deyfi ekki sársauka áður en banvænum efnum er sprautað í fanga.

Einn dómaranna við Hæstarétt Bandaríkjanna sem skilaði sératkvæði þegar Irick var neitað um aftökufrest skrifaði meðal annars að þó að midazolam gæti gert fanga meðvitundarlausa tímabundið veki sársauki og köfnun þá. Það geti gerst þegar lömunarlyf er byrjað að hafa áhrif þannig að fanginn geti ekki látið vita af því að aftakan sé að fara úrskeiðis.

Taldi Sonia Sotomayor hæstaréttardómari að líkur væru á því að Tennessee-ríki væri í þann veginn að láta fanga í sínu haldi líða vítiskvalir í nokkrar mínútur. Það þýddi að Bandaríkin væru hætt að vera siðuð þjóð og hefði tileinkað sér villimennsku.

Alvogen vísaði til dæma frá Oklahoma, Alabama og Arizona þar sem vandkvæði hafi komið upp við aftökur með lyfjagjöf til að rökstyðja lögbannskröfu sína í Nevada.

Aukin eftirspurn hefur verið eftir midazolam fyrir aftökur í Bandaríkjunum undanfarin ár eftir að margir lyfjaframleiðendur byrjuðu að hafna því að lyf þeirra væru notuð til að taka fólk af lífi. Sum ríki Bandaríkjanna þar sem aftökur eru enn við lýði hafa því reynt fyrir sér með lyfjablöndur sem ekki hafa verið gerðar sérstakar tilraunir með áður til að nota á þessum tilgangi.


Tengdar fréttir

Aftöku Doziers frestað vegna lögbannskröfu Alvogen

Alvogen byggði lögbannskröfu sína á því að fangelsisyfirvöld hefðu komist yfir lyfið með ólöglegum hætti og þá hefðu þau heldur ekki tilgreint í hvaða tilgangi þau hyggðust nota lyfið. Dómstólar staðfestu lögbannið klukkan 4 að íslenskum tíma í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.