Lífið

Því fleiri áheit, því fleiri kílómetrar

Bergþór Másson skrifar
Pétur, Aron og Sigurbjartur.
Pétur, Aron og Sigurbjartur. Xdeathrow
Samfélagsmiðlastjarnan Aron Mola, athafnamaðurinn Pétur Kiernan og poppstjarnan Sturla Atlas ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar góðgerðasamtökunum Einstök börn. Félagarnir eru skráðir í tíu kílómetra hlaup en er áheitasöfnun þeirra óhefðbundin á þann hátt að kílómetrunum mun fjölga eftir því sem áheitin verða meiri.

Ef áheitin komast upp í 2 milljónir króna munu þeir fara úr upprunalegu tíu kílómetrunum sem þeir eru nú skráðir í, upp í hálf maraþon (21km). Ef þeim tekst síðan að safna 4 milljónum munu þeir hlaupa heilt maraþon (42km).

Einstök börn er stuðningsfélag barna með sjaldgæfa, alvarlega sjúkdóma. Sjúkdómarnir eru sjaldgæfir og oft á tíðum lítið þekktir og engin lækning eða læknismeðferð þekkt.

Á styrktarsíðu strákanna kemur fram að „það lengsta sem Pétur og Sigurbjartur hafa hlaupið eru 10km og svo hefur Aron Mola varla klætt sig í hlaupaskó á ævinni.“

Í samtali við Vísi segir Pétur að þeir séu á fullu að æfa sig fyrir hlaupið og að hann hafi mikla trú á sjálfum sér og Sigurbjarti en viðurkennir þó að hann hafi smá áhyggjur af Aroni.

„Moli hljóp þrjá kílómetra á hlaupabretti áðan og var gjörsamlega búinn á því.“

Strákarnir byrjuðu að æfa í vikubyrjun og stefna á að nýta þá 17 daga sem eftir eru fram að hlaupinu sjálfu til fulls. Pétur segir það hinsvegar vera smá „dagger“ að verslunarmannahelgin sé núna um helgina og sér hann ekki fram á að fara mikið út að hlaupa á Þjóðhátíð.

Pétur vonar innilega að þeim takist að safna þessum fjórum milljónum fyrir Einstök börn, þrátt fyrir það að skyldi þeim takast það, þurfi hann sjálfur að hlaupa heilt maraþon.

Fjáröflunin hófst í gærkvöldi og þegar þessi frétt er skrifuð hafa þeir félagarnir nú þegar safnað 226.500 krónum.

Reykjavíkurmaraþonið fer fram þann 18. ágúst og hægt er að heita á drengina hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×