Körfubolti

Marques Oliver til liðs við Hauka

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marques Oliver heillaði marga síðasta vetur
Marques Oliver heillaði marga síðasta vetur vísir/ernir
Bandaríkjamaðurinn Marques Oliver mun spila með Haukum í Domino's deild karla í vetur. Félagið greindi frá þessu í dag.

Oliver spilaði með Þór Akureyri á síðasta tímabili í Domino's deildinni og þótti með betri leikmönnum deildarinnar þegar hann var heill heilsu.

Hann var með 19,3 stig, 14,3 fráköst, 2,4 stoðsendingar og 27,1 framlagspunkt að meðaltali þangað til hann meiddist.

Haukar urðu deildarmeistarar á síðasta tímabili en duttu út fyrir KR í undanúrslitunum í vor.

Mikið hefur verið um breytingar á leikmannahópnum í Hafnarfirðinum í sumar. Finnur Atli Magnússon er farinn erlendis, Breki Gylfason fór í háskólaboltann og Emil Barja hefur gengið til liðs við Íslandsmeistara KR.

Kári Jónsson var ein af stjörnum síðasta tímabils og hefur verið í umræðunni að hann gæti verið á förum frá liðinu. Samkvæmt tilkynningu Hauka eru „allar líkur á því að Kári Jóns fari út í atvinnumennsku.“

Haukar hafa hins vegar endurheimt Kristinn Marínósson frá ÍR og ungi leikmaðurinn Hilmar Smári Henningsson kom til liðsins frá Þór Akureyri. Þá hafa þeir samið við einn evrópskan leikmann, Matic Macek frá Slóveníu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×