Skoðun

Svo má ker fylla að út af flói

Kristján Þ. Davíðsson skrifar
Það er til að æra óstöðugan að elta ólar við allar rangfærslur illra upplýstra veiðileyfasala og „meðreiðarsveina þeirra sem gaufa á hliðarlínunni“ í umræðunni um laxeldi. Sumt er þó svo arfavitlaust að það er ekki hægt að láta óátalið.

Eitt slíkt lak af lyklaborði tónlistarmannsins Pálma Gunnarssonar í Fréttablaðinu 19. þ.m. Hann er frábær tónlistarmaður og mikill náttúruunnandi, mörgum kunnur fyrir hvorutveggja.

Þekking hans á laxeldi er hins vegar ekki upp á marga fiska. Þótt næstum 100% alls laxeldis í heiminum sé í sjókvíum, sem reyndar er í stöðugri framþróun, eru til fjárfestar sem vilja spreyta sig á fiskeldi á landi, m.a. bæði hérlendis, í Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum  og er það vel. Þótt hingað til hafi gengið misjafnlega að fá það til að ganga upp fjárhagslega er óskandi að það gangi sem best. Hvergi er það enn „í stórum stíl“, né er slíkt fyrirsjáanlegt, eins og Pálmi heldur fram, væntanlega af vanþekkingu, því ekki er hann svo spilltur að skrökva?

Að laxeldi sé „hernaður gegn náttúru landsins“ og að Einar Kristinn Guðfinnsson og Kristinn H. Gunnarsson séu meðreiðarsveinar spilltra stjórnvalda og fjárfesta eru hins ekki bara vanþekking heldur líka svikabrigsl sem dæma sig sjálf og eru höfundi til vansa. Slík skrif eru álíka og að brigsla Pálma um að hann fái frí veiðileyfi fyrir skrif sín.

Um laxeldi hérlendis gildar ströngustu lög og reglugerðir og bæði fjárfestar og starfsmenn fyrirtækjanna, eftirlitsstofnana og löggjafans eru heiðarlegt fólk. Ávirðingum um annað er rétt að fylgi nafngreiningar, rökstuðningur og kærur til lögreglu um spillingu, sé viðkomandi manneskja til að standa fyrir máli sínu. Rökræður um fiskeldismál er greinin reiðubúin að taka en þessi grein á því miður ekkert skylt við þær. Svo flýgur hver sem hann er fiðraður.

Höfundur er  framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldistöðva.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×