Skoðun

Kemst peningurinn til skila?

Bjarni Gíslason skrifar
„Komið með mér og sjáið,“ sagði kona við okkur þegar við vorum í eftirlitsferð til að fylgja eftir verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu í lok maí sl. Við höfðum um hádegisbil staldrað við á sléttunni í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu til að fá okkur nesti. Við létum til leiðast og fylgdum konunni sem heitir Amína. Hún sýndi okkur búfé sitt, kindur, geitur og kálf. „Áður en verkefnið kom hafði ég ekki nein dýr og engar tekjur og var algjörlega háð manni mínum. Núna fæ ég sjálf tekjur og ræð yfir þeim peningum sem ég afla.“ Hún hafði tekið þátt í sparnaðar- og lánahópi fyrir konur sem er hluti af verkefninu. „Við höfðum aldrei ræktað lauk áður en verkefnið byrjaði en núna rækta ég lauk og sel heilmikið og fæ tekjur,“ sagði hún um leið og hún sýndi okkur akur sinn. Hún geislaði af stolti og gleði. Já, við segjum hiklaust að peningurinn komist til skila alla leið.

En þetta er bara eitt dæmi hugsar þú kannski, en þá getum við vísað í skýrslu sænska ráðgjafarfyrirtækisins NIRAS indevelop sem utanríkisráðuneytið fékk til að meta verkefni Hjálparstarfsins í Úganda og Eþíópíu. Sérfræðingur NIRAS fór í vikuferð til hvers verkefnalands í október sl. og fulltrúi ráðuneytisins og Hjálparstarfsins voru með í för. NIRAS sendi frá sér skýrslu í byrjun árs. Ekki er pláss hér til að fara í gegnum viðamikla 41 blaðsíðu skýrslu um verkefnið í Eþíópíu en í henni kemur fram að árangur er mjög góður, veruleg breyting hefur orðið á aðstæðum fólks til hins betra. Fæðuöryggi er meira, styttra er í hreint vatn, fæða fólks er fjölbreyttari og næringarríkari og búfé er heilbrigðara. Einnig segir í skýrslunni að staða kvenna hafi breyst, jafnrétti aukist, þær séu sjálfstæðari og ráði yfir tekjum sem þær afla. Fram kemur að Lútherska heimssambandið, sem er framkvæmdaaðili verkefnisins, sé mjög faglegt og meðvitað um góða nýtingu fjármuna. Skýrsluna má sjá á www.help.is/doc/237.

Já, peningurinn kemst til skila.

Höfundur er framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×