Erlent

Hellti bensíni yfir gíslana

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla að störfum við götuna Rue des Petites Écuries í París í dag, þar sem maðurinn hélt tveimur í gíslingu.
Lögregla að störfum við götuna Rue des Petites Écuries í París í dag, þar sem maðurinn hélt tveimur í gíslingu. Vísir
Maður sem hélt tveimur í gíslingu í miðborg Parísar í dag hefur verið handtekinn. Allir komust heilir frá gíslatökunni.

Í frétt breska dagblaðsins The Guardian kemur fram maðurinn hafi ráðist inn í byggingu við götuna Rue des Petites Écuries í 10. hverfi Parísarborgar um klukkan 16 að staðartíma. Franska lögreglan hefur lýst honum sem „staðföstum og ofbeldisfullum“ en maðurinn sagðist vopnaður byssu og sprengju og krafðist þess að vera settur í samband við íranska sendiráðið í París.

Maðurinn var handtekinn um fjórum klukkustundum eftir að hann réðst inn í bygginguna. Þá var gíslunum tveimur einnig sleppt og segir lögregla þá heila á húfi. Maðurinn er sagður hafa hellt bensíni yfir a.m.k. annan þeirra.

Þá er maðurinn talinn vera 27 ára gamall og ekki er vitað til þess að hann tengist hryðjuverkasamtökum, að því er Guardian hefur eftir frönsku sjónvarpsstöðinni BFM TV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×