Erlent

Seldu notaða tösku fyrir 2 milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Óneitanlega glæsilegur fylgihlutur.
Óneitanlega glæsilegur fylgihlutur. Vísir/Getty
Notuð Hermes Birkin-taska var seld fyrir rúmlega 2,3 milljónir króna á uppboði í Lundúnum í gær. Þetta er hæsta verð sem nokkurn tímann hefur fengist fyrir sambærilega handtösku á uppboði í Evrópu.

Taskan er 10 ára gömul og má sjá hér að ofan. Á henni hangir lás sem þakinn er með 18-karata hvítagulli og demöntum en taskan sjálf er úr krókódílaskinni. Talið var að um 1 til 1 og hálf milljón króna fengist fyrir töskuna en verðið hækkaði hratt eftir því sem leið á uppboðið.

Talsmaður uppboðshússins Christie's í Lundúnum segir að þetta sé „óvefengjanlega verðmætasta taska í heiminum.“ Engu að síður var önnur taska, sem jafnframt var frá Hermes Birkin, seld á uppboði í Hong Kong í fyrra fyrir um 4 milljónir króna.

Taskan sem seld var í gær er um 30 sentímetrar að breidd og er því aðeins minni en upprunlega Birkin-handtaskan. Nýjar, hefðbundnar töskur frá framleiðendanum kosta sjaldan minna en 700 þúsund krónur og þurfa áhugasamir kaupendur oftar en ekki að bíða lengi á víðfrægum biðlistum Birkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×