Ofbeldi mæðra Arnar Sverrisson skrifar 18. júní 2018 07:00 Almenningsálitið er fræðimönnum í blóð borið. Það ruglar þá stundum í ríminu við val og nálgun viðfangsefna. Sumt í mannlífinu hefur hvorki mátt láta í dagsins ljós né skoða fræðilega. Þannig var t.d. um heimilisofbeldi, sem í huga lærðra og leikinna var skilgreint sem barsmíðar karla á konum og börnum. Lýsandi dæmi um slíkt viðhorf felst t.d. í heiti skýrslu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá árinu 1997: „Um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum.“ Sjónum var ekki beint að ofbeldi mæðra rétt eins og það væri ekki til. Það var heldur ekki gert í fyrstu skýrslu íslenskri um heimilisofbeldi frá 1982, unninni af Hildigunni Ólafsdóttir, Sigrúnu Júlíusdóttur og Þorgerði Benediktsdóttur. Greindar voru sjúkraskrár. Óhægt var um vik, þar sem„... áverkar, sem börn verða fyrir af hendi fullorðinna, skilgreinast sem slys og eru skráðir sem slík,“ segja þær. Um síðustu aldamót gerði Freydís Jóna Freysteinsdóttir, félagsráðgjafi, nýja rannsókn: „Niðurstöður Freydísar Jónu ... benda til þess að mæður beiti börn sín oftar ofbeldi en feður. Mörg tilfellanna varða fráskildar mæður sem eru oftar en feður einar með börnin.“ (Skýrsla Miðstöðvar heilsuverndar og umboðsmanns barna frá árinu 2004: Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: Höggva, hýða, hæða, hóta, hafna, hrista, hræða.) Um svipað leyti skrifa hjúkrunarfræðingarnir Ásdís Pétursdóttir og Ester Ósk Ármannsdóttir lokaritgerð í hjúkrunarfræði. Í viðtali við Morgunblaðið 16. júní aldamótaárið, segja þær m.a., að „[þ]að sé ... ótrúlega stutt síðan því var haldið blákalt fram að kynferðislegt ofbeldi á börnum ætti sér ekki stað á Íslandi og að konur níðist á börnum sínum og maka er enn mikið feimnismál hérlendis. Slíkt framferði passar ekki við staðlaða ímynd um kvenlega hegðun.“ Og þær bæta við: “Tilhneigingin er að finna einskonar afsökun fyrir því ef kona beitir ofbeldi. Margir í vestrænum samfélögum hafna þeirri hugmynd að konur geti beitt ofbeldi nema þá við sérstakar aðstæður, í sjálfsvörn eða til að vernda börnin sín. Og ef ekki er hægt að skýra ofbeldið með þessum ástæðum eru þær taldar geðveikar. Þær eru sagðar veikar á meðan karl sem fremur sams konar verknað er sagður harðsvíraður glæpamaður.” Í ofangreindri skýrslu frá Miðstöð heilsuverndar og Umboðsmanni barna er bent á kunnáttuleysi um ofbeldi mæðra á Íslandi. Þar stendur skrifað: „Höfundum er ekki kunnugt um rannsóknir hér á landi sem hafa það sem meginmarkmið að kanna heimilisofbeldi og líkamlegar og andlegar refsingar sem börn sæta. Því er lítið vitað um eðli þess, tíðni og umfang.“ Því þarf að leita í rann útlenskra um fróðleik. En það sætir undrum, að enn skuli íslenskir fræðimenn og fjölmiðlar á Íslandi kinoka sér við að fjalla um ofbeldi kvenna gegn börnum, enda þótt það sé almælt í heilbrigðisvísindum. Það er t.d. þekkt staðreynd í Bandaríkjum Norður-Ameríku, að um þrjú af hundraði reifabarna deyi sökum fíkniefnaneyslu móður. Henni er ekki refsað. Um ellefu af hundraði barna í BNA eru fædd mæðrum, sem neyta fíkniefna. Rúmur fimmtungur þessara eru einstæðar. Annar hópur mæðra, sem að yfirlögðu ráði veldur börnum sínum heilsutjóni eða ræður þeim bana, er kenndur við fríherra Karl Friedrich Hieoonymus Freiherr von Münchausen (1720-1797), en hann ku hafa verið ámóta hraðlyginn um flest eins og hlutaðeigandi mæður um orsakir veikina eða andlát barna sinna (e. Munchausen syndrome by proxy). Hlutdeild síðastgreindu mæðranna hef ég ekki á takteinum. Sé litið um öxl til Danmerkur, til rannsóknar sálfræðinganna, Wenja Rothe og Birthe Kyng (1925-1988), undir lok sjötta áratugar síðustu aldar á sjötíu dönskum mæðrum barna á fyrsta aldursári, kom í ljós; að áttatíu og fimm af hundraði mæðra tuskuðu börnin til eða lúskruðu á þeim og að rúmur fjórðungur veitti strangt uppeldi með umtalsverðu líkamlegu ofbeldi. Rannsóknir á síðustu árum gætu bent til, að ofbeldi mæðra sé á undanhaldi þar í landi, þ.e. um drjúgur fjórðungur þeirra leggur ekki hendur á börn. Sameiginleg forsjá og búseta hjá báðum foreldrum virðist stuðla að “mildilegra” sambandi við börnin. Til að kanna málið frekar beitti Börnerådet í Danmörku sér fyrir nýrri rannsókn. Um er að ræða opinbert ráð, sem hefur það verkefni með höndum að tryggja rétt barna og unglinga. Á vegum þess var árið 2016 framkvæmd rannsókn á ofbeldi af hálfu foreldra gagnvart börnum og unglingum. Rannsakendur áttu viðtöl við þrjátíu og fjögur börn og spurningalistum var svarað. Spurðir voru rúmlega fjögur þúsund nemendur. „Níu af hundraði barna í sjöunda bekki töldu sig hafa orðið fyrir grófu ofbeldi eins og barsmíðum og spörkum á liðnu ári vegna ágreinings heima við. Rúmur fjórðungur hafði þolað gróft eða vægt ofbeldi,“ segir í skýrslunni. Mæður beita börn sín oftar vægu ofbeldi en feður, þ.e. í tuttugu og einu tilviki af hundraði, en feður aftur á móti í átján tilvikum af hundraði. Foreldrar sýna börnum sínum alvarlegt eða gróft ofbeldi til jafns. Ennfremur segir: „Börn, sem hafa mátt þola ofbeldi, hvort heldur af líkamlegu eða andlegu tagi, skýra oftar frá margs konar vanlíðan miðað við önnur börn.“ Hjá grönnum okkar í Noregi hefur ofbeldi mæðra verið í sviðsljósinu síðustu árin. Fjölmiðlar rumskuðu hressilega, þegar skelfilegt ofbeldi mæðra komst í hámæli. Rannsóknir frá árinu 2014 (rapport 4/2014) um rannsóknir á ofbeldi mæðra gegn börnum (Nasjonalt kunnskapssenter for vold og traumatisk stress, rapport 4/2014) hristu upp í almenningsálitinu, svo um munaði. Í skýrslu stofnunarinnar fólst yfirlit rannsókna og viðtalsskoðun sjö ofbeldismæðra, sem beitt höfðu börn sín vægu ofbeldi. Skýrsluhöfundar benda á, að „ ... ofbeldi kvenna hafi sjaldnar en ofbeldi karla verið í sviðsljósi þjóðlegra [norskra] og alþjóðlegra rannsókna. Það á einnig við um ofbeldi mæðra gegn börnum, þó fremur en ofbeldi kvenna gegn körlum í sambúð.“ Í ofangreindri rannsókn er skilgreining Heilbrigðisstofnunar SÞ lögð til grundvallar: „[Það er ofbeldi ], þegar afli er beitt eða beitingu þess er hótað gegn sjálfum sér, einstaklingi, hópi eða samfélagi, í þeim ásetningi að skaða [líkamlega] eða andlega, hefta þroska eða skerða - eða stuðla að því, að slíkt gerist.“ Nánari skilgreining ofbeldis er þessi: „Alvarlegt er ofbeldi, sem til þess er fallið að valda líkamlegum áverka, t.d. barsmíðar, hnefahögg eða spörk. Vægara ofbeldi veldur síður slíkum áverka og felur t.d. í sér að slá með flötum lófa, hrinda eða grípa harkalega í barnið.“ Ágrip niðurstaðna: „Þó að það sé erfiðleikum bundið vegna ólíkrar nálgunar og skilnings í skoðuðum rannsóknum að kveða nákvæmlega á um, hversu umfangsmikið ofbeldi mæðra gegn börnum sé, þykir sú ályktun við hæfi, að mæður fremji allavega umtalsverðan hluta þess væga ofbeldis, sem börn verða fyrir.“ Og: „Það vekur athygli, að þar sem um er að ræða ofbeldi meðal fullorðinna í fjölskyldunni, telja margir viðmælenda [mæðranna] sig [hvort tveggja] aðalofbeldismann og upphafsmann ofbeldisins.“ Í fyrri rannsókn (Norsk Institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) frá árinu 2012 voru sjö þúsund ungmenni á aldrinum átján ára til tvítugs spurð um reynslu sína af ofbeldi feðra og mæðra. Fimmtungur þeirra sagði móður sína hafa beitt ofbeldi, en fjórtán af hundraði feður. Þó skýrir fjórðungur dætra frá ofbeldi af hendi móður. Það er gömul staðreynd, að bæði lögregluyfirvöld, saksóknarar og dómarar líti konur mildari augum heldur en karla, þegar um ofbeldisafbrot er að ræða. Í ljósi umræðna um ofbeldi gegn börnum skoðuðu rannsóknablaðamenn Aftenposten í Noregi dóma, sem fallið höfðu í slíkum málum. Greiningin grundvallaðist á 175 dómum, þar sem réttað var ýmist yfir mæðrum og feðrum, sem beitt höfðu börn sín ofbeldi. Þeir segja: „Greining Aftenposten leiðir í ljós, að mæður, sem sakaðar eru um ofbeldi í garð barna sinna, sleppa við fangelsisvist og njóta móðurhlutverksins í því að hljóta mildari dóma.“ Aukin heldur: „Í nær helmingi þeirra tilvika, þar sem móðir var ákærð fyrir ofbeldi í garð barns, voru tilfærðar aðstæður í tengslum við móðurhlutverkið, sem hafa áhrif til mildunar dóms.“ Þar er t.d. sagt að móðirin sé góð og vilji vel, þjáist af sektarkennd og til fangelsisvistar skuli ekki koma sökum umönnunar barna. Dæmi frá héraðsdómi (tingrett) þar sem móðir hafði beitt son sinn ofbeldi: „Rétturinn mildar dóm að teknu tilliti til þess, að hin ákærða framdi ofbeldið [handlingen] svefnlaus, tætt og úrvinda. Það ber einnig að líta til þess, að það, sem ákærða á eftir ólifað, minnist hún þess að hafa valdið syni sínum umtalsverðu tjóni.“ Samsvarandi röksemdafærsla sést einungis í einum af tíu dómum, hvað feður snertir. Haft eftir Vibeke Ottesen, afbrotafræðingi, sem nýlega varði doktorsritgerð sína um barnsmorð í Noregi á árunum 1990 til 2009, að réttarmeinafræðingar og rannsóknarlögregla gruni mæður um morð. „Mæðurnar eru tilgreindar, en engin þeirra er látin sæta ábyrgð. Morðin eru þess í stað skilgreind sem einstaklingsbundinn harmleikur kvenna í lífskreppu.“ Og hún heldur áfram: „Morð eru oftast framin, þegar kreppir að í lífinu. Hlutaðeigandi konur vekja samúð öndvert við karla t.d., sem myrða sambýliskonur sínar. Þeir eru sömuleiðis á bólakafi í kreppu og hafa týnt ástinni í lífi sínu. Í því sambandi vekur enginn máls á miskunn.“ Ef marka má fjölmiðla hefur ofanrekin umfjöllun hreyft við hugum manna. T.d. mátti lesa í leiðara Bergens Tidende fyrir tveim árum: „Í réttarríki liggur í augum uppi, [að] konur verði líkt og karlar að svara fyrir gjörðir sínar. Dæma skal með sams konar hætti í sams konar málum. Dóma yfir mæðrum skal ekki milda. Þeir, sem rannsaka og dæma [straffesakskjeden] skulu forðast áhrif staðalímynda, goðsagna og misskilda umönnun.“ (Þýðingar eru greinarhöfundar.) Mér er ekki örgrannt um, að ástandið á Íslandi sé með svipuðum hætti. En það þyrfti að skoða gaumgæfilega. Þegar konur svipta af sér huliðsskikkjunni í þessum efnum ætti að verða auðveldara að sameinast um aðgerðir gegn umræddu ofbeldi. Það er allavega von höfundar.Höfundur er ellilífeyrisþegi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Arnar Sverrisson Mest lesið Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen Skoðun Evrópusambandsaðild - valdefling íslensks almennings Magnús Árni Skjöld Magnússon Skoðun Málþóf sem valdníðsla Einar G. Harðarson Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson Skoðun Þið voruð í partýinu líka! Gísli Sigurður Gunnlaugsson Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar Skoðun Alltof mörg sveitarfélög á Íslandi! Gunnar Alexander Ólafsson skrifar Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Lýðheilsan að veði? Willum Þór Þórsson skrifar Skoðun Evrópusambandsaðild - valdefling íslensks almennings Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar Skoðun Köllum Skjöld Íslands réttu nafni: Rasískt götugengi Ian McDonald skrifar Skoðun Hverjir eru komnir með nóg? Nichole Leigh Mosty skrifar Skoðun Að leigja okkar eigin innviði Halldóra Mogensen skrifar Skoðun Málþóf sem valdníðsla Einar G. Harðarson skrifar Skoðun Klaufaskapur og reynsluleysi? Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Hvernig spyr ég gervigreind til að fá besta svarið? Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar Skoðun Ertu bitur? Björn Leví Gunnarsson skrifar Skoðun Er hægt að læra af draumum? Sigurður Árni Reynisson skrifar Skoðun Afstæði Ábyrgðar Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Klassapróf fína fólksins – eða hvernig erfingjar kenna okkur að lifa Sigríður Svanborgardóttir skrifar Skoðun Fjárhagslegt virði vörumerkja Elías Larsen skrifar Skoðun Við ákærum – hver sveik strandveiðisjómenn? Kjartan Páll Sveinsson skrifar Skoðun Þið voruð í partýinu líka! Gísli Sigurður Gunnlaugsson skrifar Skoðun Af hverju varð heimsókn framkvæmdastjóra ESB að NATO-fundi? Helen Ólafsdóttir skrifar Skoðun Veimiltítustjórn og tugþúsundir dáinna barna Viðar Hreinsson skrifar Skoðun Bragðefni eru ekki vandamálið - Bann við þeim myndi skaða lýðheilsu Abdullah Shihab Wahid skrifar Skoðun Swuayda blæðir: Hróp sem heimurinn heyrir ekki Mouna Nasr skrifar Skoðun Skattar fyrst, svo allt hitt – og hagræðingin sem gleymdist Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar Skoðun Áfangasigur í baráttunni við hernaðinn gegn heimkynnum villta laxins Ingólfur Ásgeirsson,Árni Baldursson skrifar Skoðun Þetta er allt hinum að kenna! Helgi Brynjarsson skrifar Skoðun Þjóðþrifamálin sem stjórnarandstaðan fórnaði á altari útgerðanna Heimir Már Pétursson skrifar Skoðun Sleppir ekki takinu svo auðveldlega aftur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Opið bréf til fullorðna fólksins Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir skrifar Skoðun Vill Sjálfstæðisflokkurinn láta taka sig alvarlega? Dagbjört Hákonardóttir skrifar Skoðun Þjórsá í hættu – Hvammsvirkjun og rof á náttúrulegu ástandi árinnar Gunnar Þór Jónsson skrifar Sjá meira
Almenningsálitið er fræðimönnum í blóð borið. Það ruglar þá stundum í ríminu við val og nálgun viðfangsefna. Sumt í mannlífinu hefur hvorki mátt láta í dagsins ljós né skoða fræðilega. Þannig var t.d. um heimilisofbeldi, sem í huga lærðra og leikinna var skilgreint sem barsmíðar karla á konum og börnum. Lýsandi dæmi um slíkt viðhorf felst t.d. í heiti skýrslu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu frá árinu 1997: „Um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum.“ Sjónum var ekki beint að ofbeldi mæðra rétt eins og það væri ekki til. Það var heldur ekki gert í fyrstu skýrslu íslenskri um heimilisofbeldi frá 1982, unninni af Hildigunni Ólafsdóttir, Sigrúnu Júlíusdóttur og Þorgerði Benediktsdóttur. Greindar voru sjúkraskrár. Óhægt var um vik, þar sem„... áverkar, sem börn verða fyrir af hendi fullorðinna, skilgreinast sem slys og eru skráðir sem slík,“ segja þær. Um síðustu aldamót gerði Freydís Jóna Freysteinsdóttir, félagsráðgjafi, nýja rannsókn: „Niðurstöður Freydísar Jónu ... benda til þess að mæður beiti börn sín oftar ofbeldi en feður. Mörg tilfellanna varða fráskildar mæður sem eru oftar en feður einar með börnin.“ (Skýrsla Miðstöðvar heilsuverndar og umboðsmanns barna frá árinu 2004: Heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi: Höggva, hýða, hæða, hóta, hafna, hrista, hræða.) Um svipað leyti skrifa hjúkrunarfræðingarnir Ásdís Pétursdóttir og Ester Ósk Ármannsdóttir lokaritgerð í hjúkrunarfræði. Í viðtali við Morgunblaðið 16. júní aldamótaárið, segja þær m.a., að „[þ]að sé ... ótrúlega stutt síðan því var haldið blákalt fram að kynferðislegt ofbeldi á börnum ætti sér ekki stað á Íslandi og að konur níðist á börnum sínum og maka er enn mikið feimnismál hérlendis. Slíkt framferði passar ekki við staðlaða ímynd um kvenlega hegðun.“ Og þær bæta við: “Tilhneigingin er að finna einskonar afsökun fyrir því ef kona beitir ofbeldi. Margir í vestrænum samfélögum hafna þeirri hugmynd að konur geti beitt ofbeldi nema þá við sérstakar aðstæður, í sjálfsvörn eða til að vernda börnin sín. Og ef ekki er hægt að skýra ofbeldið með þessum ástæðum eru þær taldar geðveikar. Þær eru sagðar veikar á meðan karl sem fremur sams konar verknað er sagður harðsvíraður glæpamaður.” Í ofangreindri skýrslu frá Miðstöð heilsuverndar og Umboðsmanni barna er bent á kunnáttuleysi um ofbeldi mæðra á Íslandi. Þar stendur skrifað: „Höfundum er ekki kunnugt um rannsóknir hér á landi sem hafa það sem meginmarkmið að kanna heimilisofbeldi og líkamlegar og andlegar refsingar sem börn sæta. Því er lítið vitað um eðli þess, tíðni og umfang.“ Því þarf að leita í rann útlenskra um fróðleik. En það sætir undrum, að enn skuli íslenskir fræðimenn og fjölmiðlar á Íslandi kinoka sér við að fjalla um ofbeldi kvenna gegn börnum, enda þótt það sé almælt í heilbrigðisvísindum. Það er t.d. þekkt staðreynd í Bandaríkjum Norður-Ameríku, að um þrjú af hundraði reifabarna deyi sökum fíkniefnaneyslu móður. Henni er ekki refsað. Um ellefu af hundraði barna í BNA eru fædd mæðrum, sem neyta fíkniefna. Rúmur fimmtungur þessara eru einstæðar. Annar hópur mæðra, sem að yfirlögðu ráði veldur börnum sínum heilsutjóni eða ræður þeim bana, er kenndur við fríherra Karl Friedrich Hieoonymus Freiherr von Münchausen (1720-1797), en hann ku hafa verið ámóta hraðlyginn um flest eins og hlutaðeigandi mæður um orsakir veikina eða andlát barna sinna (e. Munchausen syndrome by proxy). Hlutdeild síðastgreindu mæðranna hef ég ekki á takteinum. Sé litið um öxl til Danmerkur, til rannsóknar sálfræðinganna, Wenja Rothe og Birthe Kyng (1925-1988), undir lok sjötta áratugar síðustu aldar á sjötíu dönskum mæðrum barna á fyrsta aldursári, kom í ljós; að áttatíu og fimm af hundraði mæðra tuskuðu börnin til eða lúskruðu á þeim og að rúmur fjórðungur veitti strangt uppeldi með umtalsverðu líkamlegu ofbeldi. Rannsóknir á síðustu árum gætu bent til, að ofbeldi mæðra sé á undanhaldi þar í landi, þ.e. um drjúgur fjórðungur þeirra leggur ekki hendur á börn. Sameiginleg forsjá og búseta hjá báðum foreldrum virðist stuðla að “mildilegra” sambandi við börnin. Til að kanna málið frekar beitti Börnerådet í Danmörku sér fyrir nýrri rannsókn. Um er að ræða opinbert ráð, sem hefur það verkefni með höndum að tryggja rétt barna og unglinga. Á vegum þess var árið 2016 framkvæmd rannsókn á ofbeldi af hálfu foreldra gagnvart börnum og unglingum. Rannsakendur áttu viðtöl við þrjátíu og fjögur börn og spurningalistum var svarað. Spurðir voru rúmlega fjögur þúsund nemendur. „Níu af hundraði barna í sjöunda bekki töldu sig hafa orðið fyrir grófu ofbeldi eins og barsmíðum og spörkum á liðnu ári vegna ágreinings heima við. Rúmur fjórðungur hafði þolað gróft eða vægt ofbeldi,“ segir í skýrslunni. Mæður beita börn sín oftar vægu ofbeldi en feður, þ.e. í tuttugu og einu tilviki af hundraði, en feður aftur á móti í átján tilvikum af hundraði. Foreldrar sýna börnum sínum alvarlegt eða gróft ofbeldi til jafns. Ennfremur segir: „Börn, sem hafa mátt þola ofbeldi, hvort heldur af líkamlegu eða andlegu tagi, skýra oftar frá margs konar vanlíðan miðað við önnur börn.“ Hjá grönnum okkar í Noregi hefur ofbeldi mæðra verið í sviðsljósinu síðustu árin. Fjölmiðlar rumskuðu hressilega, þegar skelfilegt ofbeldi mæðra komst í hámæli. Rannsóknir frá árinu 2014 (rapport 4/2014) um rannsóknir á ofbeldi mæðra gegn börnum (Nasjonalt kunnskapssenter for vold og traumatisk stress, rapport 4/2014) hristu upp í almenningsálitinu, svo um munaði. Í skýrslu stofnunarinnar fólst yfirlit rannsókna og viðtalsskoðun sjö ofbeldismæðra, sem beitt höfðu börn sín vægu ofbeldi. Skýrsluhöfundar benda á, að „ ... ofbeldi kvenna hafi sjaldnar en ofbeldi karla verið í sviðsljósi þjóðlegra [norskra] og alþjóðlegra rannsókna. Það á einnig við um ofbeldi mæðra gegn börnum, þó fremur en ofbeldi kvenna gegn körlum í sambúð.“ Í ofangreindri rannsókn er skilgreining Heilbrigðisstofnunar SÞ lögð til grundvallar: „[Það er ofbeldi ], þegar afli er beitt eða beitingu þess er hótað gegn sjálfum sér, einstaklingi, hópi eða samfélagi, í þeim ásetningi að skaða [líkamlega] eða andlega, hefta þroska eða skerða - eða stuðla að því, að slíkt gerist.“ Nánari skilgreining ofbeldis er þessi: „Alvarlegt er ofbeldi, sem til þess er fallið að valda líkamlegum áverka, t.d. barsmíðar, hnefahögg eða spörk. Vægara ofbeldi veldur síður slíkum áverka og felur t.d. í sér að slá með flötum lófa, hrinda eða grípa harkalega í barnið.“ Ágrip niðurstaðna: „Þó að það sé erfiðleikum bundið vegna ólíkrar nálgunar og skilnings í skoðuðum rannsóknum að kveða nákvæmlega á um, hversu umfangsmikið ofbeldi mæðra gegn börnum sé, þykir sú ályktun við hæfi, að mæður fremji allavega umtalsverðan hluta þess væga ofbeldis, sem börn verða fyrir.“ Og: „Það vekur athygli, að þar sem um er að ræða ofbeldi meðal fullorðinna í fjölskyldunni, telja margir viðmælenda [mæðranna] sig [hvort tveggja] aðalofbeldismann og upphafsmann ofbeldisins.“ Í fyrri rannsókn (Norsk Institutt for forskning om oppvekst, velferd og aldring) frá árinu 2012 voru sjö þúsund ungmenni á aldrinum átján ára til tvítugs spurð um reynslu sína af ofbeldi feðra og mæðra. Fimmtungur þeirra sagði móður sína hafa beitt ofbeldi, en fjórtán af hundraði feður. Þó skýrir fjórðungur dætra frá ofbeldi af hendi móður. Það er gömul staðreynd, að bæði lögregluyfirvöld, saksóknarar og dómarar líti konur mildari augum heldur en karla, þegar um ofbeldisafbrot er að ræða. Í ljósi umræðna um ofbeldi gegn börnum skoðuðu rannsóknablaðamenn Aftenposten í Noregi dóma, sem fallið höfðu í slíkum málum. Greiningin grundvallaðist á 175 dómum, þar sem réttað var ýmist yfir mæðrum og feðrum, sem beitt höfðu börn sín ofbeldi. Þeir segja: „Greining Aftenposten leiðir í ljós, að mæður, sem sakaðar eru um ofbeldi í garð barna sinna, sleppa við fangelsisvist og njóta móðurhlutverksins í því að hljóta mildari dóma.“ Aukin heldur: „Í nær helmingi þeirra tilvika, þar sem móðir var ákærð fyrir ofbeldi í garð barns, voru tilfærðar aðstæður í tengslum við móðurhlutverkið, sem hafa áhrif til mildunar dóms.“ Þar er t.d. sagt að móðirin sé góð og vilji vel, þjáist af sektarkennd og til fangelsisvistar skuli ekki koma sökum umönnunar barna. Dæmi frá héraðsdómi (tingrett) þar sem móðir hafði beitt son sinn ofbeldi: „Rétturinn mildar dóm að teknu tilliti til þess, að hin ákærða framdi ofbeldið [handlingen] svefnlaus, tætt og úrvinda. Það ber einnig að líta til þess, að það, sem ákærða á eftir ólifað, minnist hún þess að hafa valdið syni sínum umtalsverðu tjóni.“ Samsvarandi röksemdafærsla sést einungis í einum af tíu dómum, hvað feður snertir. Haft eftir Vibeke Ottesen, afbrotafræðingi, sem nýlega varði doktorsritgerð sína um barnsmorð í Noregi á árunum 1990 til 2009, að réttarmeinafræðingar og rannsóknarlögregla gruni mæður um morð. „Mæðurnar eru tilgreindar, en engin þeirra er látin sæta ábyrgð. Morðin eru þess í stað skilgreind sem einstaklingsbundinn harmleikur kvenna í lífskreppu.“ Og hún heldur áfram: „Morð eru oftast framin, þegar kreppir að í lífinu. Hlutaðeigandi konur vekja samúð öndvert við karla t.d., sem myrða sambýliskonur sínar. Þeir eru sömuleiðis á bólakafi í kreppu og hafa týnt ástinni í lífi sínu. Í því sambandi vekur enginn máls á miskunn.“ Ef marka má fjölmiðla hefur ofanrekin umfjöllun hreyft við hugum manna. T.d. mátti lesa í leiðara Bergens Tidende fyrir tveim árum: „Í réttarríki liggur í augum uppi, [að] konur verði líkt og karlar að svara fyrir gjörðir sínar. Dæma skal með sams konar hætti í sams konar málum. Dóma yfir mæðrum skal ekki milda. Þeir, sem rannsaka og dæma [straffesakskjeden] skulu forðast áhrif staðalímynda, goðsagna og misskilda umönnun.“ (Þýðingar eru greinarhöfundar.) Mér er ekki örgrannt um, að ástandið á Íslandi sé með svipuðum hætti. En það þyrfti að skoða gaumgæfilega. Þegar konur svipta af sér huliðsskikkjunni í þessum efnum ætti að verða auðveldara að sameinast um aðgerðir gegn umræddu ofbeldi. Það er allavega von höfundar.Höfundur er ellilífeyrisþegi.
Skoðun Sameiginleg yfirlýsing 28 ríkja um málefni Palestínu, hvers virði er hún? Einar Ólafsson skrifar
Skoðun Öryggi betur tryggt – fangelsismál færð til nútímans Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar
Skoðun Klassapróf fína fólksins – eða hvernig erfingjar kenna okkur að lifa Sigríður Svanborgardóttir skrifar
Skoðun Bragðefni eru ekki vandamálið - Bann við þeim myndi skaða lýðheilsu Abdullah Shihab Wahid skrifar
Skoðun Skattar fyrst, svo allt hitt – og hagræðingin sem gleymdist Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar
Skoðun Áfangasigur í baráttunni við hernaðinn gegn heimkynnum villta laxins Ingólfur Ásgeirsson,Árni Baldursson skrifar
Skoðun Þjóðþrifamálin sem stjórnarandstaðan fórnaði á altari útgerðanna Heimir Már Pétursson skrifar
Skoðun Þjórsá í hættu – Hvammsvirkjun og rof á náttúrulegu ástandi árinnar Gunnar Þór Jónsson skrifar