Viðskipti innlent

Telur að Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eimskip sendi Kauphöllinni tilkynningu í kvöld vegna andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins.
Eimskip sendi Kauphöllinni tilkynningu í kvöld vegna andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins. Vísir/anton

Samkeppniseftirlitið telur að flutningafyrirtækin Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á árunum 2008 til 2013. Með því hafi fyrirtækin brotið gegn 10. grein samkeppnislaga og 53. grein EES-samningsins.

Þetta kemur fram í andmælaskjali sem Samkeppniseftirlitið sendi fyrirtækjunum tveimur eftir lokun markaða í dag. Er skjalið liður í málsmeðferð rannsóknar eftirlitsins á meintum brotum félaganna sem hófst árið 2013, að því er fram kemur í tilkynningu sem Eimskip sendi Kauphöll vegna málsins í kvöld.

Þar kemur fram að skjalið feli í sér frummat Samkeppniseftirlitsins og sé ekki bindandi stjórnvaldsákvörðun.

Sjá einnig: Forstjórar Eimskips og Samskipa með stöðu sakbornings

„Það er ritað í því skyni að stuðla að því að málið verði að fullu upplýst áður en ákvörðun er tekin og til þess að auðvelda félaginu að nýta sér andmælarétt sinn skv. stjórnsýslulögum.

Í andmælaskjali I er komist að þeirri frumniðurstöðu að Eimskip og Samskip hafi haft með sér ólögmætt samráð á rannsóknartímabili málsins 2008 til 2013 og brotið þannig gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES samningsins, en reifun ætlaðra brota er að finna í hjálögðu fylgiskjali sem er samantekt Samkeppniseftirlitsins um andmælaskjalið og rannsóknina.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um mögulega sektarfjárhæð, komi til hennar,“ segir í tilkynningu Eimskips sem sjá má í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Forstjóri Eimskips „engu nær“ um ætluð samkeppnislagabrot

Forstjórar bæði Eimskips og Samskipa með réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar á samkeppnislagabrotum sem hófst fyrir fimm árum. Upplýsingafulltrúi Eimskips segir að forstjóri félagsins hafi óskað eftir gögnum um í hverju ætluð samkeppnislagabrot felist en engar upplýsingar fengið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×