Skoðun

Hvern á að spyrja?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Fjölmiðlar fara með vald í samfélaginu okkar og því bera þeir mikla ábyrgð. Valdið felst meðal annars í því hvernig þeir sinna eftirlitshlutverki sínu, hvaða málum þeir sýna áhuga og þá um leið hvaða málum þeir sýna ekki áhuga. Við sem treystum á fréttir til að skilja hvað er að gerast í samfélaginu eigum mikið undir því að fjölmiðlarnir fjalli með ábyrgum hætti um samfélagsmál, sérstaklega stjórnmál, þannig að við getum tekið upplýstar, ákvarðanir til dæmis í kosningum.

Af hverju nefni ég þessi sjálfsögðu sannindi hérna? Jú, vegna þess að það vantar upplýsingar um ákveðin mál í rekstri höfuðborgarinnar okkar. Mikilvæg mál sem snerta okkur öll, sama hvar í flokki við stöndum.

Í fyrsta lagi. Hver ber ábyrgðina á því að ekki var brugðist við fyrir nokkrum árum síðan og gerðar úrbætur í samgöngumálum? Aðgerðaleysið hefur leitt til þess að umferðartíminn hefur stóraukist, með tilheyrandi kostnaði og mengun.

Í öðru lagi. Hvers vegna er svifrik svona mikið vandamál í Reykjavík og hvers vegna gengur svona illa að þrífa borgina, slá gras og hirða rusl þannig að sómi sé að?

Í þriðja lagi. Hvers vegna voru lóðaúthlutanir takmarkaðar svo mjög að fasteignaverð hækkaði skart?

Í fjórða lagi. Hvers vegna er ekki hægt að manna almennilega leikskóla í Reykjavík eins og tekst í öðrum sveitarfélögum í nágrenninu?

Í fimmta lagi. Hvers vegna vaxa skuldir Reykjavíkur svona mikið?

Kannski fáum við ekki svör vegna þess að fjölmiðlamennirnir vita ekki hvern þeir eiga að spyrja, sennilega ber enginn ábyrgð á þessu að þeirra mati, a.m.k. spyrja þeir ekki borgarstjórann.




Skoðun

Sjá meira


×