Erlent

Spilling gæti orðið pólitískur banabiti Abe

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Shinzo Abe gæti verið á útleið.
Shinzo Abe gæti verið á útleið. Vísir/Ap

Talið er að Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, muni segja af sér í júní eftir að tvær spillingarásakanir hafa leikið vinsældir hans grátt. Stuðningur við Abe hefur aldrei mælst minni og óttast samflokksmenn hans að það kunni að bitna á frjálslynda flokki forsætisráðherrans í kosningum næst árs.

Abe hefur átt í vök að verjast í síðastliðið ár. Honum var til að mynda gefið að sök að hafa selt góðkunningja eiginkonu sinnar landspildu í Osaka á kostakjörum. Abe hefur ætíð neitað ásökunum og sagst ætla að segja af sér ef í ljós kæmi að hann eða eiginkona hans hafi komið nálægt sölunni.

Því leit það ekki vel út fyrir forsætisráðherrann þegar fjármálaráðuneyti landsins viðurkenndi að hafa átt við pappíra sem sýndu fram á aðkomu Abe og eiginkonu hans að 85% afslættinum sem kaupandi landsvæðisins fékk.

Þá er Abe jafnframt talinn hafa aðstoðað félaga sinn við að opna dýralæknaskóla. Hann hefur sömuleiðis neitað fyrir að hafa nokkuð með málið að gera - þó svo að í síðustu viku hafi skjal skotið upp kollinum þar sem stóð að opnun skólans „skipti forsætisráðherrann miklu máli.“

Nú er svo komið að stuðningur við forsætisráðherrann mælist aðeins um 26,7% sem er lægsta hlutfall sem mælst hefur frá því að Abe tók við embætti. Talið er að um 50 þúsund manns hafi kallað eftir afsögn Abe í fjöldamótmælum í Japan um helgina.

Fregnir herma að samflokksmenn Abe hafi beðið hann um að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Japanska þinginu verður slitið þann 20. júní næstkomandi og telja fréttaskýrendur að Abe muni nota tækifærið og segja skilið við stjórnmálin.

Leiðtogakjör í frjálslynda flokki forsætisráðherrans fer svo fram í september.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.