Skoðun

Samstaða um netöryggi?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Þrátt fyrir að Ísland státi af toppeinkunn frá Alþjóðafjarskiptasambandinu í upplýsingatækni og fjarskiptum er enn langt í land með að við náum sömu stöðu í netöryggismálum. Þessu þarf að kippa í liðinn sem fyrst.

Í skýrslu innanríkisráðherra frá 2015 eru nefnd fjögur meginmarkmið sem eiga að tryggja netöryggi: Meiri geta almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til að verjast netógnum, aukið þol upplýsingakerfa til að bregðast við áföllum, löggjöf í samræmi við alþjóðlegar kröfur og skuldbindingar og hæfni lögreglu til að fást við glæpi tengda net- og upplýsingaöryggi.

Á fundi Norðurlandaráðs á Akureyri í síðustu viku samþykkti forsætisnefnd ráðsins að beina þeim tilmælum til norrænna stjórnvalda að auka samstarf landanna á sviði netvarna og þá einnig samstarf við Eystrasaltsríkin. Þau ríki, sér í lagi Eistland, hafa náð hvað lengst á sviði netöryggis, en öndvegissetur NATO um netvarnir er staðsett í Tallinn.

Þessi jákvæða tillaga var reyndar ekki samþykkt einróma því fulltrúar vinstriflokka í Norðurlandaráði, VG þar með talinn, studdu hana ekki. Vonandi hefur sú afstaða VG ekki áhrif á áherslur og áhuga ríkisstjórnar Íslands í þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki. Það er þó ljóst að í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára er fátt bitastætt um netöryggi og þegar ég átti orðastað við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra um málið á Alþingi í síðustu viku staðfesti hann að ekki væri tekið nægilega á netöryggismálum í fjármálaáætluninni. Til að gæta sannmælis er rétt að geta þess að samgönguráðherra sagði líka að það yrði að taka á málinu í næstu fjármálaáætlun.

Það er grundvallarkrafa að ríkisstjórn Íslands sé samstiga í að leita bestu hugsanlegu leiða til að tryggja netöryggi þjóðarinnar. Annars vegar með því samstarfi sem býðst við þjóðir sem fremst standa og hins vegar með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn í málaflokkinn. Misvísandi skilaboð og hik þegar kemur að því að taka af skarið er ekki í boði.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×