Viðskipti innlent

Bjóða ferðamönnum að ganga inn í sýndarheim Örlygsstaðabardaga

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri hleypti verkefninu af stokkunum í gegnum sýndarveruleikagleraugu.
Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri hleypti verkefninu af stokkunum í gegnum sýndarveruleikagleraugu. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Gestir bregða sér inn í Örlygsstaðabardaga á Sturlungaöld í sýndarveruleikasetri sem áformað er að opna á Sauðárkróki í haust. Fjárfestingin hleypur á nokkur hundruð milljónum króna. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2. 

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjörður.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Skagafjörður er eitt söguríkasta hérað landsins. Þar gerðust nokkrir stærstu viðburðir Sturlungaaldar, eins og Örlygsstaðabardagi og Flugumýrarbrenna. Ráðamenn Sveitarfélagsins Skagafjarðar vonast nú til að þeir verði ferðamannasegull með hjálp nýjustu sýndarveruleikatækni. 

„Ég held að þetta verði mikil lyftistöng fyrir samfélagið hérna á svæðinu,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs. 

Sveitarfélagið Skagafjörður ætlar að fríska upp á hjarta Sauðárkróks með því gera upp gamla mjólkursamlagið og húsið Gránu og leggja byggingarnar undir sýndarveruleikasetur, sem hópur fjárfesta stendur að.

Sveitarstjórinn Ásta Pálmadóttir hleypti verkefninu af stokkunum með undirskrift í sýndarheimi að viðstöddum átta ára gömlum skólabörnum. 

Sögusvið Örlygsstaðabardaga í Skagafirði, eins og það birtist í sýndarheiminum.Grafík/RVX.
Í sýndargleraugunum birtist umhverfi Örlygsstaða og þannig munu gestir geta lifað sig inn í stærsta bardaga Íslandssögunnar, sem háður var fyrir nærri 800 árum. Markmiðið er hátt: 

„Að gera Skagafjörð, sveitarfélagið í heild sinni, að leiðandi afli í nýtingu sýndarveruleika í ferðamennsku. 

Ingvi Jökull Logason, stjórnarformaður Sýndarveruleika ehf.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Og skrefið sem við erum að taka núna er að stofna sýndarveruleikasetur, sem hverfist í kringum Örlygsstaðabardaga og Sturlungu,“ segir Ingvi Jökull Logason, stjórnarformaður Sýndarveruleika ehf. 

Í sýndarheiminum ímyndar gesturinn sér að hann sé kominn í bardagann, hittir sögupersónur, og grípur sverð eða spjót eða bara grjót til að verjast árásarmönnum.

Fjárfestingin hleypur á nokkur hundruð milljónum króna og stefnt að því að allt verði tilbúið í haust. 

„Eftir því sem mér skilst er þetta líklega stærsta sögutengda sýndarveruleikasafn á Norðurlöndunum. Þannig að þetta er ekkert smáræðis verkefni,“ segir Stefán Vagn, formaður byggðaráðs. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Skagfirðingar gera fiskroð að verðmætri hátískuvöru

Slorið úr íslenskum fiskvinnslum er orðið að verðmætri útflutningsvöru til frægustu hátískufyrirækja heimsins. Þetta kom fram í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í kvöld, en þar var fyrirtækið Sjávarleður á Sauðárkróki heimsótt. Gestastofa sútarans er andlit fyrirtækisins og það hefur í raun farið furðu hljótt miðað við þann árangur sem það hefur náð á alþjóðavettvangi.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.